Þarf öryrki að borga skatt af peningagjöfum?

Ljósmynd/Aðsend

Sævar Þór Jónsson lögmaður/MBA svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hann spurningu frá manni sem spyr út í peningagjafir. 

Sæll!

Kær vinur sem búsettur er í USA vill styrkja íslenskan vin sinn með peningaupphæð. Þessi íslenski vinur er öryrki.  Hver er hámarksupphæð til millifærslu án þess að borga þurfi skatt af styrknum?

Með kveðju, N

Sævar Þór Jónsson lögmaður rekur lögmannsstofuna Sævar Þór & Partners.
Sævar Þór Jónsson lögmaður rekur lögmannsstofuna Sævar Þór & Partners.

Sæll.

Meginreglan er að allir styrkir til einstaklinga teljast til skattskyldra tekna þeirra og í því skiptir ekki máli hvaðan styrkurinn er kominn. Styrkir eru skattlagðir eins og launatekjur og bera tekjuskatt og útsvar, samkvæmt A-lið 7. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003. Persónulegur kostnaður leyfist ekki til frádráttar.

Ef litið er á styrkinn sem gjöf, er meginreglan sú að gjöf flokkast jafnframt sem skattskyldar tekjur og ber tekjuskatt og útsvar, samkvæmt A-lið 7. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003. Frá því er þó undantekning sem nær til verðlítilla tækifærisgjafa. Ekki er ljóst hver mörkin eru en ætla má að um sé að ræða verðmæti sem almennt gerist um slíkar gjafir.

Að framangreindu sögðu, skiptir ekki máli hvort peningafjárhæðin sem til stendur að millifæra sé kölluð styrkur eða gjöf, af henni ber að greiða skatta, íslenskum lögum samkvæmt.

Frá þessu er þó að finna nokkrar undantekningar, þ.á m. er varða söfnunarfé og styrki vegna veikinda eða slysa. Það er háð því skilyrði að fjármunirnir gangi beint til þeirra sem safnað er fyrir. Hvað varðar fyrirspurn þína kemur ekki fram hvort um sé að ræða einn styrk eða fleiri. Séu greiðslurnar reglubundnar eru ákveðnar líkur á því að skattyfirvöld skoði þær frekar sem skattskyldar tekjur en styrk. Þá skiptir ekki máli hver upphæð fjárstyrksins er, annaðhvort verður að greiða skatt af allri fjárhæðinni eða ekki.

Hvort styrkur þessi falli undir undantekningu þessa eða ekki, er erfitt að segja til um. Það fer eftir því hvernig skattyfirvöld túlka þetta orðalag. Til þess að vera alveg viss í ykkar gjörðum væri vissast að senda fyrirspurn á skattyfirvöld og spyrja nánar út í þetta.

Þess má geta að þegar erlendar millifærslur eru framkvæmdar þarf að greiða gjald samkvæmt gjaldskrá viðskiptabanka viðkomandi.

Þrátt fyrir að gjaldeyrishöftum hafi nánast verið aflétt, ber bönkum að tilkynna um tiltekin erlend viðskipti og millifærslur til Seðlabanka Íslands. Getur bankinn jafnframt kallað eftir frekari upplýsingum varðandi millifærsluna, sé þess þörf. 

Gangi ykkur vel,

Sævar Þór Jónsson, lögmaður/MBA. 

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Sævari spurningu HÉR. 

mbl.is