Er hægt að gera lögerfingja arflausan vegna skulda?

Sævar Þór Jónsson lögmaður/MBA svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hann spurningu frá manneskju sem spyr hvort hægt sé að gera lögerfingja arflausan?

Góðan dag.

Þegar maki býr í óskiptu búi samkvæmt samþykki og er jafnframt seinni maki þess sem er látinn. Hvernig eiga skipti að vera samkvæmt lögum eftir að núlifandi maki fellur frá. Um er að ræða að sá maki sem féll frá fyrst á nokkur fullorðin börn á lífi en seinni maki og núlifandi á engin börn, hvorki áður né með þeim maka sem féll frá en á systkin á lífi. 

Er hægt að gera lögerfingja arflausan vegna skulda sem urðu til að óviðráðanlegum ástæðum og umræddur núlifandi maki sem býr í óskiptu búi var í ábyrgð fyrir.

Kveðja, S

Sævar Þór Jónsson lögmaður rekur lögmannsstofuna Sævar Þór & Partners.
Sævar Þór Jónsson lögmaður rekur lögmannsstofuna Sævar Þór & Partners.

Sæl

Samkvæmt erfðalögum geta fjárráða stjúpniðjar veitt samþykki fyrir setu stjúpforeldris í óskiptu búi, en það kemur fram í 2. mgr. 8. gr. Ef ég skil þetta rétt þá á hinn látni maki börn á lífi, það er skylduerfingja, sem taka allan arf eftir hann ásamt maka hans við andlát hans, nema þeir hafi afsalað sér honum. Sá sem enn er á lífi á hins vegar enga skylduerfingja, hvorki lífs né liðna heldur einungis lögerfingja, þ.e. erfingja sem lögum samkvæmt taka arf eftir arfleiðandann hafi hann ekki ráðstafað eignum sínum á annan hátt með erfðaskrá. Langlífari makinn getur því ráðstafað öllum sínum eignum með erfðaskrá þannig að lögerfingjar hans fái engan arf eftir hann.

Ef hins vegar spurt er hvort hægt sé að gera börn hins látna (skylduerfingjar hans) arflausa vegna skulda sem langlífari makinn er í ábyrgð fyrir þá er það svo að við samþykki til setu í óskiptu búi fær langlífari makinn ráðstöfunarrétt yfir búinu. Getur hann því hagað högum sínum og búsins innan eðlilegra marka.

Maki, sem situr í óskiptu búi ber einnig fulla ábyrgð á eigin skuldum jafnt sem skuldum hins látna og geta skuldheimtumenn gengið að eignum óskipta búsins. Er ekki regla að þeir gangi fyrst að hjúskapareign þess sem enn lifir.

Þar sem langlífari makinn situr í óskiptu búi á grundvelli samþykkis stjúpbarna sinna, geta þeir krafist skipta sér til handa með árs fyrirvara, en það er tilgreint í 2. mgr. 14. gr. erfðalaganna.

Þá geta börn hins látna einnig krafist skipta sjái þeir fram á óhóflega fjárstjórn þess sem situr í óskipta búinu.

Hvað varðar spurninguna um það hvernig skipti eigi að vera lögum samkvæmt þegar núlifandi (eftirlifandi) maki fellur frá, að þá fellur niður erfðaréttur langlífari makans gagnvart þeim sem skammlífari var. Erfa því erfingjar hvors um sig sína arfleiðendur, en ekki hvors annars. Systkini 

hins langlífari maka ættu þá ekki erfðarétt á hendur þeim skammlífari, heldur eingöngu erfðarétt gagnvart sínum arfleiðanda.

Kær Kveðja,

Sævar Þór Jónsson lögmaður/MBA

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Sævari spurningu HÉR. 

mbl.is