Er að missa lífsviljann vegna gjaldkera húsfélagsins

Aðili nokkur er að missa lífsviljann vegna yfirgangs gjaldkera húsfélagsins.
Aðili nokkur er að missa lífsviljann vegna yfirgangs gjaldkera húsfélagsins. mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

Sævar Þór Jónsson lögmaður/MBA svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hann spurningu frá manneskju sem er að missa lífsviljann vegna yfirgangs gjaldkera húsfélagsins sem borgar sér laun og skiptir sér af því hver má leggja í gestastæði og þar fram eftir götunum. 

Góðan daginn.

Við hjónin búum í 18 íbúða blokk. Þar er einn formaður húsfélagsins sem er líka skráður sem gjaldkeri, má það?

Sá sami hefur verið að kaupa og framkvæma alls konar sem ekkert hefur verið samþykkt og svo borgar hann sér himinhá laun fyrir verkin sem engin gefur leyfi fyrir, má það bara?

Það var enginn sem skrifaði undir það að hann yrði gjaldkeri hjá okkur. Þegar við tölum við bankann um að fá yfirlit þá er það ekki hægt því aðeins hann má sækja yfirlit reikningsins.

Hann telur sig bara vera gera góða hluti fyrir blokkina og lætur sem hann ráði öllu. Hann er sí tuðandi yfir öllu og öllum, veit til þess að bara sumar íbúðir mega fá gesti sem fá að nota gestastæðin, annars bankar hann uppá hjá okkur.

Við vorum um að minnsta kosti 300 þúsund króna greiðslu sem hann borgaði sér í svokölluð laun (sem enginn samþykkti) Við vitum allavega um 3 skipti sem hann borgaði sé laun og heildin af því er yfir 300 þúsund.

Kveðja, D

Sævar Þór Jónsson lögmaður rekur lögmannsstofuna Sævar Þór & Partners.
Sævar Þór Jónsson lögmaður rekur lögmannsstofuna Sævar Þór & Partners.

Sæll

Ekkert í lögum um fjöleignarhús nr. 26/1994 bannar formanni húsfélags að gegna einnig stöðu gjaldkera. Þess er þó getið í lögum um fjöleignarhús að a.m.k. 3 menn sitji í stjórn húsfélaga og að einn þeirra skuli vera formaður sem kosinn sé sérstaklega.

Jafnframt segir í lögunum að allir eigendur sameignar eigi fullan rétt á að taka þátt í öllum veigameiri ákvörðunum sem varða sameignina, bæði innan húss og utan, og sameiginleg málefni sem hana snerta. Er þar meðal annars talað um fyrirkomulag, skipulag, útlit og aðrar veigameiri ákvarðanir.

Þá segir í lögunum að sameiginlegar ákvarðanir skuli teknar fyrir á sameiginlegum fundi eigenda sem kallast húsfundur. Þó getur stjórn húsfélagsins geti tekið vissar minni ákvarðanir í umboði eigenda án þess að þeir hafi eitthvað um það að segja, svo sem um reglulegt viðhald.

Í 41. gr. laganna eru síðan upptalin þau atriði sem samþykki þarf fyrir hjá eigendum sameignarinnar en misjafnt er hversu stór hópur eigenda þarf að samþykkja ákvarðanir eftir því hversu veigamiklar þær eru. Getur því þurft samþykki frá í minnsta lagi ¼ hluta eigenda að fjölda eða eignarhluta (fyrir minnstu ákvörðunum sem þó þarf leyfi fyrir) eða til þess að samþykki allra þurfi til að binda félagið (og er þá um að ræða stærri ákvarðanir húsfélaga svo sem byggingu, framkvæmdir og endurbætur sem hafa verulegar breytingar í för með sér).

Hendur stjórnarinnar eru því að miklu leyti bundnar við afstöðu eigenda gagnvart fjöleignarhúsinu.

Hvað varðar laun fyrir verkefni á vegum húsfélagsins, þá hefur stjórn húsfélags heimildir til að ráða framkvæmdastjóra eða sjálfstæða verktaka og ákveða þóknun fyrir þau störf.

Á hinn bóginn er ekki löglegt að stjórnarmaður eða framkvæmdastjóri taki þátt í ákvarðantöku og afgreiðslu mála sem hann hefur fjárhagslegra hagsmuna að gæta í. Þeir ættu því ekki að koma nálægt ákvörðunum um laun í þeirra garð.

Þá hvílir rík upplýsingaskylda á stjórn húsfélagsins til að veita eigendum upplýsingar og skýringar um öll atriði sem varða stjórn og rekstur húsfélagsins. Eiga eigendur einnig skýran rétt til að skoða bækur félagsins, reikninga og fylgiskjöl. Það er þó tekið fram að bera skuli upp slíka beiðni með hæfilegum fyrirvara og er það venjulega gert að viðstöddum stjórnarmanni.

Sé um ákvarðanir að ræða sem teljast vera veigameiri er stjórn húsfélagsins skylt að boða húsfund til að ræða ákvarðanirnar og fá eigendur til að kjósa um þær.

Stofni stjórnarmenn til skuldbindinga í heimildarleysi geta þeir orðið bótaskyldir gagnvart húsfélaginu.

Möguleiki er að fá úr þessum álitaefnum fyrir kærunefnd húsamála, en kærunefnd húsamála tekur fyrir álitamál á grundvelli fjöleignahúsalaganna. Kærunefndin sem er á stjórnsýslustigi kveður upp úrskurði endurgjaldslaust.

Kær kveðja,

Sævar Þór Jónsson lögmaður/MBA

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Sævari spurningu HÉR

mbl.is