58 ára og á engar vinkonur

Það ætti enginn að vera aleinn í lífinu.
Það ætti enginn að vera aleinn í lífinu. mbl.is/Colourbox

El­ín­rós Lín­dal ráðgjafi svar­ar spurn­ing­um les­enda Smart­lands. Hér fær hún spurn­ingu frá konu sem er ein og einmana í lífinu. 

Sæl

Ég er 58 ára kona og er mikið ein. Á engar vinkonur, á jú systkin en mjög lítil samskipti. Þeim virðist sama þótt ég sé mikið ein. Einu samskiptin mín eru við vinnufélaga þá bara í vinnunni. Hef heyrt þau tala um mig þegar þau halda að ég heyri ekki. Það kemur ekki helgi án þess að ég græt mig í svefn. Hef reynt að hitta fólk í  gegnum félag á Facebook en það virkaði ekki fyrir mig. Þau sem ég hitti héldu að ég væri ekki að segja satt um aldur minn því ég væri ekki orðin gráhærð og er grönn og ungleg svo heyrði ég að ég hafi farið í lýtaaðgerð frá þessu sama fólki og var útilokuð frá þessari síðu. Ég hef aldrei farið í lýtaaðgerð. Á eitt barn 34 ára sem var mjög háð mér sem krakki en núna er varla samband nema þegar henni vantar pening. Ein mjög einmanna. Hef oft hugsað að fara úr þessum heimi. Færi örugglega betra fyrir mig og alla i hringum mig.

Kveðja, S

Elínrós Líndal.
Elínrós Líndal. Ljósmynd/Saga Sig

Sæl og takk fyrir bréfið.

Ég skil hvernig þér líður og átta mig á því að kannski hefur þú ekki berskjaldað þig um þessi mál áður. Mig langar því að þakka þér fyrir traustið að senda þetta bréf á mig. 

Ég trúi því að þú sért einstök og að þú skiptir máli. Eins er ég viss um að þú sért þess virði að eiga góða vini og vera umkringd fólki sem þú elskar og elskar þig tilbaka. 

Þú átt ekki að þurfa að sanna hvað þú ert gömul. Þú átt ekki að þurfa að vera dæmd fyrir hvað þú gerir eða hvernig þú lítur út. Þú ert fullkomlega fullkomin rétt eins og þú ert. En kannski er þetta eitthvað sem þú þarft stuðning við að sjá.  

Ég er á þeirri skoðun að þegar við erum á þeim stað að við finnum okkur svona einar, þá sé nóg að eignast eina vinkonu sem við getum hægt og rólega lært að treysta. Einhver sem hafnar okkur ekki þótt við séum nálægar stundum og fjarlægar öðrum stundum. 

Það eru nokkrar leiðir sem þú getur farið til að æfa þig í að mynda tengsl við heilbrigt fólk. 

Ein leið sem mig langar að benda þér á er að hitta góðan fagaðila sem þú getur hægt og rólega treyst fyrir því hvernig þér líður. Ég mæli með að fara að hitta nokkra og þegar þú hefur fundið aðila sem þér líkar við að vinna með þessum einstaklingi í nokkur ár ef því er að skipta. 

Ég get mælt með Gyðu Eyjólfsdóttur hjá EMDR stofunni. Ég hef heyrt fjölmarga aðila tala einstaklega vel um hana. Eins er Anna Sigríður Pálsdóttir prestur einstök. Hún starfar á stofu sem heitir Fyrsta Skrefið. Systir Agnes í Karmel Klaustrinu í Hafnafirði er einnig merkileg kona ef þig vantar traustan og góðan félaga að tala við og láta biðja fyrir þér. 

Mig langar líka að nefna 12 spora samtök í þessu samhengi. Í slíkum samtökum þá er nýliðanum vanalega tekið einstaklega vel og ef þú æfir þig sem dæmi í meðvirkni þá getur þú fundið með tímanum góða félaga þar að treysta. 

Eins eru til 12 spora samtök um ástarmál. Ég veit að þú talar lítið um þau í bréfinu þínu. En það er til ástand sem heitir ástaranorexía sem minnir mig mikið á staðinn sem þú ert á núna. Þá er fólk mjög félagslega einangrað og þarf stuðning og skilning fyrir því að æfa sig í nánum samskiptum. 

Ég hugsa að það séu margir í þinni stöðu núna. Ég vona svo sannarlega að þú gefist ekki upp á að halda áfram að reyna. 

Það eru einnig fjölmargar einfaldar leiðir sem hægt er að fara til að líða betur í ástandi líku því sem þú lýsir. Ef þú treystir þér í sund þá er það gott. Hláturjóga getur gert kraftaverk. Höfuðnudd á hárgreiðslustofu, göngutúrar í hlýjum og notalegum fatnaði og fleira þar sem þú ert að sinna sjálfri þér. 

Ef þú ert hjá góðum heimilislækni þá er alltaf gott að mynda samband við hann. Þú gætir beðið hann um að fylgjast með líðan þinni á meðan þú ert að fóta þig næstu skref í lífinu. 

Ég er á þeirri skoðun að við vitum ekki hvað býður okkar eftir þessa tilvist. Það er því til mikils að vinna að finna paradís á jörðu; hér og nú. 

Kærleiks kveðja, Elínrós Líndal. 

Ligg­ur þér eitt­hvað á hjarta? Þú get­ur sent El­ín­rós spurn­ingu HÉR.

mbl.is