Er hægt að svipta pabba fjárræði?

Mael Balland/Unsplash

Sævar Þór Jónsson lögamaður/MBA svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hann spurningu frá manni varðandi fjárhag föður síns. 

Sæll Sævar, 

ég stend frammi fyrir flóknu máli, móðir mín öldruð er komin á hjúkrunarheimili en faðir minn býr enn í húsinu þeirra. Við erum tvö systkinin og hann eyðir miklu af þeirra fé í systkini mitt og er smá saman að eyða því sem að þau mamma eiga í hann. Pabbi er orðinn lélegur til heilsu bæði andlega og líkamlega en neitar að fara í öldrunarmat en ég hef grun um að hann yrði úrskurðaður að vera ekki hæfur til að sjá um fjármál. Er eitthvað hægt að gera til að stoppa þetta fjárflæði til systkini míns?

Kveðja, G

Sævar Þór Jónsson lögmaður rekur lögmannsstofuna Sævar Þór & Partners.
Sævar Þór Jónsson lögmaður rekur lögmannsstofuna Sævar Þór & Partners.

Sæl

Mál sem þessi eru nánast undantekningarlaust mjög erfið mál og viðkvæm fyrir alla sem eiga í hlut.

Við þessar aðstæður er oft fátt hægt að gera. Helst getur komið til greina að svipta föður þinn fjárræði en mál til sviptingar fjárræðis beinir maður að héraðsdómara. í kröfu um fjárræðissviptingu þarf meðal annars að koma fram rökfærsla fyrir kröfunni og læknisfræðileg gögn sem styðja undir hana séu þau til staðar.

Dómari leggur svo mat á þau gögn og getur kallað eftir frekari gögnum telji hann þess þörf.

Svona mál reyna mikið á fólk og ekki er ráðlagt að fara í slíkar aðgerðir nema augljóst sé að maður sé ekki fær um að sinna fjármálum sínum.

Þess má einnig geta að fólki er heimilt að gefa eignir sínar á meðan það lifir, þó það megi ekki gefa eignir maka síns.

Vonandi svarar þetta spurningunni þinni.

Kær kveðja,

Sævar Þór Jónsson lögmaður/MBA

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Sævari spurningu HÉR

mbl.is