13 ára og fær gluggalausa kompu hjá pabba sínum

Það ætti ekkert barn að alast upp með tilfinningu um …
Það ætti ekkert barn að alast upp með tilfinningu um höfnun frá foreldri sínu. mbl.is/Colourbox

Elínrós Líndal ráðgjafi fær spurningu er varðar samskipti föður við barnið sitt. Afskiptaleysi fóðurins særir barnið. 

Þessa sögu segir 13 ára strákur.

Mamma og pabbi eru skilin. Pabbi er sjómaður og býr í tveggja og hálfs klukkutíma akstursfjarlægð frá mér. Hann á nýja konu sem á barn og svo er nýtt barn á leiðinni. Þegar ég spyr pabba hvort ég megi koma þarf hann alltaf að hugsa málið í nokkra daga. En ég myndi gjarnan vilja svar strax. Pabbi var búinn að vera á sjó í einn mánuð og ég bað um að fá að koma en nei, pabbi þurfti að hvíla sig. Þegar ég er hjá pabba fara þau í rúmið klukkan níu á kvöldin og ég er einn frammi. Pabbi er að kaupa nýtt hús og þar er gluggalaus kompa sem ég á víst að vera í. Er þetta eðlileg framkoma við barn?

Gæti tínt fleira til.

En þetta særir hann aftur og aftur.

Elínrós Líndal ráðgjafi.
Elínrós Líndal ráðgjafi. Ljósmynd/Saga Sig

Sæl. 

Nei, þetta er ekki eðlileg framkoma gagnvart barni, nema síður sé. Það ætti ekkert barn að vera í þessari stöðu og vona ég að þú hafir tök á að koma þessum skilaboðum til barnsins frá mér. Að þessu sögðu finnst mér mikilvægt að barnið viti að framkoma foreldranna hefur ekkert með barnið að gera. Barnið er fætt einstakt og fullkomið, inn í veröld sem er full af alls konar fólki.

Flestir vilja og reyna að gera sitt besta gagnvart börnum sínum. Stundum verða áföll og alls konar raskanir til þess að ekki er unnt að sinna grunnþörfum allra barna.

Skilyrðislaus ást til barna skiptir sköpum og hafa rannsóknir sýnt að þótt einungis annað foreldrið geti verið til staðar hefur það mikil áhrif á lífsgæði barnsins.

Mig langar að minnast á ömmur og afa í þessu samhengi því þau eru oft í góðri aðstöðu til að umvefja börn ást og hlýju. Ég vona að veröldin sjái þessu barni fyrir fólki sem er tilbúið að elska það; heitt og innilega.  

Geðtengslamyndun er mjög mikilvæg fyrir þróun einstaklings. Geðtengsl byggjast á samskiptum og eru þessi samskipti jafnframt undirstaða þroska á öllum sviðum í lífinu. 

Gerður er greinarmunur á öruggum og óöruggum tengslum. Börn byrja að mynda tengsl við móður sína strax í móðurkviði þar sem barnið er meðal annars baðað í taugakerfi móðurinnar. Síðan þegar barnið fæðist skiptir öllu máli að foreldrar umvefji það ást og umhyggju, horfi í augun á því og tryggi að barnið geti litið á þau sem örugga höfn að leita til. 

Hlutverk mæðra hefur í gegnum tíðina fengið gott pláss en mér finnst vanta umræðuna um feður. Geðtengsl við feður eru ekki síður mikilvæg. 

Ef ungur drengur missir af föður sínum út af erfiðum aðstæðum í lífinu má ætla að hann finni til höfnunar eða verði óöruggur í þeim samskiptum í lífinu. Þetta óöruggi getur svo smitast yfir í öll önnur samskipti, gagnvart vinum, skólafélögum, íþróttum og seinna atvinnu svo eitthvað sé nefnt. Svo ekki sé minnst á ástarsamböndin í framtíðinni. 

Að þessu sögðu vil ég leggja áherslu á þá staðreynd að hægt er að vinna í geðtengslum fólks og byggja upp umhverfi sem getur stutt við einstakling með skert tengsl við annað foreldri sitt. Talið er að um helmingur fólks sé með örugg geðtengsl. 

Það sem ég hef séð í gegnum tíðina er að fólk með óörugg geðtengsl myndar óörugg geðtengsl við börnin sín. Það eru því miklar líkur á að faðirinn sem velur sér að vera úti á sjó og setja upp nýtt heimili þar sem barnið hans á ekki öruggt skjól hafi sjálfur ekki fengið það sem til þurfti til að mynda heilbrigð tengsl við annað fólk. 

Ég vil hvetja móður drengsins til að vinna úr þessum málum með sérfræðingi. Bæði til að vita hvað best er fyrir hana að gera og eins hvernig hún getur stuðlaði að sem bestu umhverfi fyrir barnið. Góður sálfræðingur sem sérhæfir sig í geðtengslum gæti spjallað við föður drengsins og frætt hann um mikilvægi þess að hann taki þátt í lífi barnsins. Símtal daglega, falleg orð, snyrtilegt herbergi og stuðningur í daglega lífinu minnkar þá úrvinnslu sem barnið mun þurfa að fara í seinna vegna þessa. 

Það ættu að mínu mati allir feður að hafa sjálfsvirðingu og ást til sín á því stigi að þeir láti ekki framhjá sér fara að stíga inn í mikilvægasta hlutverkið sitt í lífinu; föðurhlutverkið. 

Gangi þér alltaf sem best. 

Kveðja, Elínrós Líndal.

Ligg­ur þér eitt­hvað á hjarta? Þú get­ur sent El­ín­rós spurn­ingu HÉR.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál