Þarf konan að borga tekjuskatt af íbúð sem hún er ekki skráð fyrir

Sævar Þór Jónsson lögmaður svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hann spurningu frá manneskju sem veltir fyrir sér óvígðri sambúð. 

Sæll.

Mig langar að spyrja um reglur og lög er varða skilnað fólks í óvígðri sambúð. Ég þekki konu sem skildi við sambýlismann sinn eftir 12 ára sambúð. Þau voru ógiftog eiga 2 börn saman.

Maðurinn átti fasteign og hafði átt hana í 5 ár þegar þau hófu sambúð, eignin 100% þinglyst hans eign. Þau bjuggu í henni fyrstu árin en fluttu síðan í annað bæjarfélag og leigðu.

Þau skráðu sig úr sambúð fyrir ári síðan. Nú er eign mannsins seld og til stendur að skipta því sem eftir stendur að frádregnum skuldum milli þeirra. Spurningin er því sú, lendir konan hugsanlega í því að borga tekjuskatt af sínum helming. Litur skatturinn hugsanlega á greiðslu frá manninum sem gjöf eða gildir helminga skipta regla eins og hjá hjónum?

Kær kveðja og takk fyrir góðan dálk

Sævar Þór Jónsson lögmaður rekur lögmannsstofuna Sævar Þór & Partners.
Sævar Þór Jónsson lögmaður rekur lögmannsstofuna Sævar Þór & Partners.

Sæl. 

Í 1. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993 kemur fram að hjúskaparlögin gildi um hjúskap tveggja einstaklinga og að þau gildi ekki um óvígða sambúð. Reglan um helmingaskipti eigna, sem á sér lagastoð í 6. og 103. gr. hjúskaparlaga, gildir því ekki um óvígða sambúð.

Þess eru þó dæmi að dómstólar hafi viðurkennt að fasteign skuli teljast sameign að jöfnu eða í öðrum hlutföllum þó þinglýstri skráningu sé háttað á annan veg. Af dómaframkvæmd má þannig ráða að við sérstakar aðstæður er helmingaskiptum beitt við uppgjör fjárskipta sambúðarfólks eða í öðrum hlutföllum. Opinber skráning fasteigna girðir því ekki fyrir að annað eignarhlutfall teljist rétt miðað við framlög aðila til fasteigna takist sönnu um það. Hvílir sönnunarbyrðin á þeim aðila sem telur sig hafa eignast hlutdeild í fasteign sem skráð er á hinn aðilann.

Hvort konan sem þú vísar til í fyrirspurn þinni verði gert að greiða tekjuskatt af umræddri fjárgreiðslu veltur á því hvort hún geti uppfyllt þá sönnunarbyrði, þ.e. að hún hafi í raun stuðlað að eignamyndun í fasteigninni. Takist sú sönnun ekki er ekki loku fyrir það skotið að fjárgreiðslan yrði skattlögð sem laun þar sem um gjafagjörning væri að ræða.

Kær kveðja,

Sævar Þór Jónsson lögmaður/MBA

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Sævari spurningu HÉR

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál