Hvað gerist ef ellilífeyrisþegi selur sumarhús?

Sævar Þór Jónsson lögmaður/MBA svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hann spurningu frá manneskju sem veltir fyrir sér hver staða ellilífeyrisþega sé vegna sölu á sumarhúsi. 

Sæll Sævar,

Hver er staða ellilífeyrisþega varðandi sölu á heilsárssumarbústað? Höfum átt bústaðinn í 12 ár. Hefur það einhverja þýðingu við sölu ef um sköttun er að ræða að geta kostnaðar reikninga vegna byggingar bústaðarins?

Kveðja, B

Sævar Þór Jónsson lögmaður rekur lögmannsstofuna Sævar Þór & Partners.
Sævar Þór Jónsson lögmaður rekur lögmannsstofuna Sævar Þór & Partners.

Sæll B.

Söluhagnaður af íbúðarhúsnæði er almennt skattfrjáls hjá einstaklingum sé hann utan atvinnurekstrar. Það á hins vegar ekki við um aðrar fasteignir, svo sem sumarbústaði og hesthús.

Tekjuskattur er borgaður af hagnaði við sölu fasteigna, annarra en íbúðarhúsnæðis en það fer eftir 15. grein laga um tekjuskatt. Söluhagnaður er mismunur á söluverði eignar og stofnverði. Stofnverð eignar er byggingarkostnaður í upphafi eða kaupverð hennar. Í 3. málsgrein 15. greinar er þó að finna undantekningu á því, þar sem segir að einstaklingum sé jafnframt heimilt að telja helming söluverðs til skattskyldra eigna í stað söluhagnaðar. Það getur reynst fólki vel í sumum tilvikum.

Hvað varðar ellilífeyrisþega er það svo að söluhagnaðurinn sem myndast (og þá helmingurinn af söluverðinu sé heimildin í 3. málsgreininni nýtt) getur leitt til lækkunar á lífeyrisgreiðslum þar sem fjármagnstekjur hafa áhrif á réttindi hjá Tryggingastofnun. Það fer því eftir því hvaðan lífeyrisgreiðslurnar koma.

Það fer því eftir því hvaða leið farin er við ákvörðun söluhagnaðar hvort það nýtist fólki að geta gert grein fyrir kostnaði vegna byggingar bústaðarins, en það getur komið verr út fyrir fólk en heimildin í 3. málsgrein um að telja helming söluverðsins sem söluhagnað.

Vonandi svarar þetta spurningunni þinni.

Kær kveðja,

Sævar Þór Jónsson, lögmaður/MBA

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Sævari Þór spurningu HÉR

mbl.is