„Kærastinn var rúmfélagi systur minnar í fimm ár“

Það getur verið flókið að stoppa ástarsambönd sem eru farin …
Það getur verið flókið að stoppa ástarsambönd sem eru farin af stað. mbl.is/Colourbox

El­ín­rós Lín­dal ráðgjafi svar­ar spurn­ing­um les­enda Smart­lands. Hér fær hún spurn­ingu frá konu sem var að komast að því að kærastinn hennar var rúmfélagi systur hennar til margra ára.

Halló

Ég hef verið að hitta frábæran mann síðan í vor en var að uppgötva að hann og systir mín voru fríðindavinir í mörg ár. Systir mín, sem er fimm árum eldri en ég og svona hálfgerður frí-andi (freespirit), hefur oft sagt mér svo krassandi kynlífssögur af sér og þessum manni að stundum gekk hún fram af mér. Samband okkar er ekki komið á það stig að ég sé búin að kynna hann fyrir fjölskyldunni minni en ég kvíði því mikið.

Þessi fortíð hans truflar mig ekki en ég þori samt ekki að kynna hann, sérstaklega ekki fyrir systur minni. Hún var nefnilega orðin ástfangin af honum og missti geðheilsuna þegar sambandi þeirra lauk. Hann veit ekki að við erum systur því við berum hvor sitt föðurnafnið svo hann hefur ekki lagt saman tvo og tvo.

Ég spurði hann þó um daginn hvort hann þekkti þessa tilteknu konu og hann játaði það og sagði þau hafa verið rúmfélaga en það hefði ekkert annað verið í spilinu fyrir sig. Sem sagt mjög heiðarlegur. Ég er mjög hrifin af þessum manni og hann af mér. Ég hef bara mjög miklar áhyggjur af systur minni og látunum sem gætu orðið þegar hún kemst að þessu. Væri ekki bara réttast að slíta sambandinu og líta í aðra átt? Mig langar það ekki en hef miklar áhyggjur.

Kveðja, ÞS

Elínrós Líndal ráðgjafi.
Elínrós Líndal ráðgjafi. Ljósmynd/Saga Sig

Sælar og takk fyrir bréfið. 

Af öllum þeim mönnum sem þessi kona gæti valið sér – af hverju ætli hún velji sér þennan mann? er spurning sem kom upp í huga mér þegar ég las bréfið frá þér. 

Að sjálfsögðu getur enginn sagt þér hvað þú ættir að gera, en þetta er ágætisspurning að spyrja sig. 

Mér finnst bréfið þitt útskýra einstaklega vel af hverju fríðindavinir eru slæm hugmynd til lengri og/eða skemmri tíma.   

Ég held að það gangi aldrei upp fyrir fólk að sofa saman án þess að tilfinningar komi inn í spilið. Mér finnst eðlilegt að kona sem hefur sofið hjá manni í mörg ár missi vitið ef hann er með óskýr skilaboð um ætlun sína tengt henni. Segir sem dæmi að hann vilji ekki samband en leitar til hennar um kynlíf. Mér finnst það bæði óheiðarlegt og ósanngjarnt gagnvart henni. 

Dr. Helen Fisher útskýrir hvað gerist í heilanum á fólki í svona ástarsamböndum, sér í lagi ef um höfnun er að ræða. Hún kallar ást eins konar afl en ekki tilfinningu og segir það afl vera orsökina fyrir mörgum áföllum og voðaverkum í samfélaginu. Hún hefur rannsakað heilann í fólki sem upplifir rómantíska ást og segir að fólk sé tilbúið að deyja fyrir makann ef því er að skipta ef það er ástfangið. 

Að sjálfsögðu þurfa allar konur að læra að setja heilbrigð mörk og taka ábyrgð á sjálfum sér. Að mínu mati finnst mér allt of fáir sérfræðingar stíga fram og ræða áhrif oxítósíns á konur í svona samböndum. 

Þetta hormón er allt að tvö ár að fara úr kerfinu hjá konum og er að mínu mati ein helsta orsökin fyrir því að konur vonast til að með tímanum verði kærastinn, sem er einungis bólfélagi, að eiginmanni þeirra. Þær verða sífellt undanlátssamari og tala um að byrja að „leka“ í samböndum. Missa persónueinkenni sín og gera hluti sem þær myndu aldrei samþykkja að gera í upphafi sambands. Svo nokkrum árum seinna, þegar þær ná að halda sér frá svona samböndum og þær hitta mennina, þá eiga þær erfitt með að skilja hvaða tangarhald þeir höfðu á þeim á þessum tíma. 

Að mínu mati er því eitt besta ráð sem hægt er að gefa ungum stúlkum það að setja heilbrigð mörk og kynnast virkilega vel þeim mönnum sem þær hafa hug á að fara í samband með. Áður en þær byrja að sofa hjá þeim. Sér í lagi ungar konur sem eru með tengslavanda og/eða þær sem eiga feður sem hafa ekki tekið þátt í uppeldi þeirra. Þær eru oft veikari fyrir og með minni sjálfsvirðingu vegna höfnunar frá pabba sínum. 

Að þessu sögðu, þá skil ég mjög vel systur þína ef hún ákveður að vera ekki í samskiptum við ykkur ef þú ferð áfram með þetta samband. 

Þú værir þá að velja ástarsambandið fram yfir hana. 

Til að þú getir tekið betri afstöðu til þessara mála væri kannski gott næsta skref að tala við hana og segja henni bara sannleikann og fá skoðun hennar á þessum manni. Ef hann var heiðarlegur allan tímann gagnvart systur þinni og vildi ekki skuldbindingu við hana frá upphafi þá er spurning af hverju þau áttu í margra ára sambandi.

Þú getur einnig sest niður með honum og spurt hann hvað var í gangi þeirra á milli. Hvort hann hafi komið vel fram gagnvart systur þinni eða hvort hann myndi gera hlutina eitthvað öðruvísi í dag. 

Ef hann er dæmigerður maður með forðunarvanda veit ég ekki hvort hann sé betur til þess fallinn að skuldbinda sig núna, með þér. Ég hef aldrei séð slíkan vanda lagast af sjálfu sér. Virk forðun verður til í æsku fólks; ef um karlmann er að ræða eru líkur á því að hann sé mikill mömmustrákur. Hann hafi sjálfur átt fjarverandi föður og þurft að taka meiri ábyrgð en eðlilegt þykir á tilfinningalífi mömmu eða heimilinu í æsku. 

Virk forðun fer vanalega ekki af stað strax í samböndum, sér í lagi ef þú ert á bremsunni. Virk forðun fer verulega vel af stað eftir eitt ár, sér í lagi þegar pressa fer að myndast á skuldbindingu og forðarinn er farinn að fatta að konan sem hann er að hitta er ekki fullkomin. 

Ég vona í það minnsta að hann sé ekki að fara að leika sama leik við þig og systur þína. Svo er spurning hvort einstaklingur geti verið að hitta konu í fimm ár án þess að vita hver systkin hennar eru. 

Lestu bók Helen Fisher, Why Him Why Her, til að átta þig betur á hormónakerfi líkamans og aflinu sem ástin er.

Ég veit að ég er að alhæfa mikið í þessu svari út frá rannsóknum og vinsælum kenningum. Öll mál eru einstök á sinn hátt.  

Óskýr mörk, misvísandi skilaboð, forðun og að missa vitið út af ástarsorg eru allt einkenni stjórnleysis í ástum. Þótt systir þín hafi verið sú sem tók andlega fallið, þá þarf alltaf tvo til í svona dans. 

Mitt mat er að hún hafi sýnt eðlileg viðbrögð við óeðlilegum aðstæðum. Sem er því miður raun margra kvenna sem misskilja kynlíf fyrir ást og vona að karlmaðurinn muni skipta um skoðun með tímanum. 

Gangi þér vel.

Bestu kveðjur, Elínrós Líndal.

Ligg­ur þér eitt­hvað á hjarta? Þú get­ur sent El­ín­rós spurn­ingu HÉR.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál