„Maðurinn minn er með mikinn áfengisvanda“

Það þarf aðstoð við að setja inn heilbrigð mörk í …
Það þarf aðstoð við að setja inn heilbrigð mörk í samskipti sem eru orðin meðvirk. mbl.is/Colourbox

El­ín­rós Lín­dal ráðgjafi svar­ar spurn­ing­um les­enda Smart­lands. Hér fær hún spurn­ingu frá konu sem er aðstandandi alkóhólista. 

Sæl og blessuð.
Mig langar að fá smá speglun með stöðu sem ég er í. Maðurinn minn á við áfengisvanda að stríða og er í raun mjög veikur alkóhólisti. Hann hefur farið í ótal meðferðir en aldrei náð bata að ráði. Ég hef látið þetta viðgangast í mörg ár með því að láta þetta ekki hafa nein áhrif á mig, sem það í raun og veru gerir ekki, því auðvitað hefur þetta áhrif. Sonur okkar sem er á grunnskólaaldri er farinn að taka þetta mikið inn á sig og í raun farinn að sýna mikinn kvíða yfir þessu. Ég veit í raun ekki hvernig best er að takast á við þetta vandamál. Hann nær kannski að halda sér edrú í 3-4 mánuði en fellur síðan og er þá að drekka í viku jafnvel og verður mjög veikur.

Elínrós Líndal ráðgjafi.
Elínrós Líndal ráðgjafi. Ljósmynd/Saga Sig

Sælar og takk fyrir mjög mikilvægt erindi. 

Þú lýsir dæmigerðum einkennum þess að búa við virka fíkn. Mig langar að draga saman svar sem getur nýst öllum í makasambandi þar sem stjórnleysi og fíkn er vandamálið.

Ég les að maðurinn þinn sé að fikra sig áfram í batanum, en það hljómar eins og hann sé ekki að gera allt sem hægt er að gera til að fá aðstoð á milli falla. Að fara í meðferð er eitt, að vera í langtímaráðgjöf er annað og svo er mjög styðjandi að tilheyra 12 spora samtökum að mínu mati líka. 

Það er leitt að heyra að barnið ykkar sé orðið svona veikt í þessu ástandi, en ég held það sé reglan en ekki undantekningin. Svo ekki hika við að fá hjálp fyrir ykkur og barnið á göngudeild SÁÁ niðri í Von

Ég er á því að hægt sé að fara í gegnum nokkur stig í bata þegar kemur að samböndum. 

Vandamálastigið

Vandamálastigið er vanalega ákveðinn dans þar sem báðir aðilar eru óánægðir með sambandið. Fólk fer á þessu tímabilið oft í ásakandann eða fórnarlambið og óljóst er hvað veldur vandamálinu. 

Á þessu stigi þróast stjórnleysið, bæði hjá þeim sem er með fíknivandann og aðstandandanum sem oft verður undirgefinn eða stjórnsamur og allt þar á milli. 

Upplausnartímabilið

Upplausnartímabilið er þegar aðstandendur átta sig á vandanum. Alls konar hlutir geta komið upp á þessu stigi, þar sem farið er yfir mörk allrar fjölskyldunnar.

Á þessu tímabili fer fólk oft í sundur. Sumir fara og hitta lögfræðing og biðja um skilnað en aðrir leita til ráðgjafa eða fara á námskeið til að styrkja sig í ástandinu.

Hér er algengt að sá sem er með fíknivandann fari í meðferð eða í 12 spora samtök og aðstandandinn fari í 12 spora samtök vegna meðvirkni.  

Parsambandið er ennþá í upplausn þótt ástandið lagist tímabundið. 

Sorgartímabil

Hér syrgja báðir einstaklingar fortíðina, stjórnleysið sem myndast hefur þeirra á milli og áhrif þess á börn og stórfjölskylduna. Þetta tímabil getur ekki orðið fyrr en ákveðið traust og fyrirgefning hefur átt sér stað á milli einstaklinga. 

Á þessu tímabili er algengt að fólk fari í ráðgjöf og læri að tala betur saman. Að nota stuttar setningar og tala út frá reynslu sinni, styrk og von. 

Hér verður til ákveðin virðing og meiri nánd í parsambandinu. 

Báðir aðilar finna til vanmáttar við að berskjalda sig og uppgötva oft á tímum að nýr maki hefði ekki lagað vandann þegar kemur að því að berskjalda sig og biðja um nánd á heilbrigðan hátt. 

Hér getur orðið til upphaf að nýju sambandi. 

Uppbyggingartímabil

Á uppbyggingartímabilinu eru báðir aðilar búnir að ná betri tökum á bata sínum. Bundið hefur verið um fallbrautir og grá svæði og heilbrigð mörk og kærleiksrík samskipti ná að hreiðra um sig í sambandinu. 

Parið heldur áfram að vinna í sjálfum sér en margir leita einnig leiða til að fara á námskeið með fleiri pörum. 

Aðilar byrja að þróa persónueinkenni sín. Leita leiða til að finna sér áhugaverð áhugamál og gera eitthvað sem er bæði uppbyggilegt og heilbrigt að gera. Eitthvað sem komst ekki að á tímabilinu þegar allt var í stjórnleysi. 

Traust myndast með árunum í sambandinu og parið fer á heilbrigðari stað. 

Vaxtartímabil

Á þessu tímabili talar fólk oft um að það finni fyrir þakklæti fyrir verkefni lífsins. Aðstandendur hafa fengið tækifæri til að skoða hluti úr fortíð sinni sem þeir hefðu kannski ekki fengið tækifæri til ef ekki hefði verið fyrir ástandið í sambandinu. 

Á þessu tímabili viðurkenna margir aðstandendur að meðvirkni þeirra í upphafi hafi fæðst löngu áður en þeir kynntust maka sínum og sá sem er með fíknivandann leitar allra leiða til að taka ábyrgð á sér; til að vaxa og dafna í stað þess að flýja vandamálin. 

Að fjárfesta í sér

Ég hef heyrt af aðstandendum fara í gegnum öll tímabilin án þess að sá sem þeir eru í sambandi með fari í fullan bata. 

Það flókna við stöðuna sem þú ert í er alltaf það að þú getur einungis tekið ábyrgð á þínum hluta sögunnar. 

Ég vona að þú náir að gera það sem er best fyrir þig og að þú finnir góða aðila til að vinna með þér í framhaldinu. Barnið þitt á skilið að lifa góðu lífi án þess að ástandið brjóti það meira niður en nú þegar er orðið. 

Hvaða lífi dreymir þig um að lifa? Hvað gerir konan sem þig hefur alltaf dreymt um að vera? Við hvað vinnur hún? Hvar býr hún? Hver eru áhugamál hennar? Hvað gerir hún ekki?

Allt eru þetta áhugaverðar spurningar sem þú ættir að hugleiða. Góður maður getur alltaf einungis verið skemmtileg viðbót við annars gott líf. Ég vona svo sannarlega að þú náir að binda utan um sambandið þannig að það taki ekki frá þér gleðina sem lífið getur veitt þér. 

Gangi þér alltaf sem best. 

Kveðja, Elínrós Líndal. 

Ligg­ur þér eitt­hvað á hjarta? Þú get­ur sent El­ín­rós spurn­ingu HÉR.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál