Hver er erfðaréttur barna í bónus-fjölskyldu?

Mark Zamora/Unsplash

Sævar Þór Jónsson lögmaður svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hann spurningu frá manneskju sem spyr um erfðarétt barna sem í samsettri fjölskyldu eða bónus-fjölskyldu eins og svona fjölskyldur eru oft kallaðar. 

Sæll

Hver er erfðaréttur barna samsettrar fjölskyldu? Ég á þrjú börn úr fyrra hjónabandi og tvö börn með núverandi maka (við erum gift). Hvernig eru erfðamál ef til dæmis ég fell frá á undan og hvað gerist ef maki minn fellur frá? Er einhver munur á hlut hvers barns? En þegar við bæði erum fallin frá? Allt sem við erfðum frá foreldrum okkar, kemur það jafnt til skipta barnanna þrátt fyrir að núverandi maki minn sé með tvö börn og þrjú stjúpbörn? Eru það fimm jafnir hlutar? 

Þú mátt alveg umorða spurninguna ef hún er ruglingsleg en það eru væntanlega æði margar samsettar fjölskyldur í dag og fjölgar bara.

Kveðja, 

K

Sævar Þór Jónsson lögmaður rekur lögmannsstofuna Sævar Þór & Partners.
Sævar Þór Jónsson lögmaður rekur lögmannsstofuna Sævar Þór & Partners.

Sæl

Skv. erfðalögum erfa maki og börn (skylduerfingjar) mann þegar maður lætur lífið sé þeim til að dreifa eins og í þínu tilfelli. Ef langlífari maki óskar ekki eftir leyfi til setu í óskiptu búi fara fram skipti á eignum þess látna og þess langlífari við andlátið. Er því byrjað á að skipta hjúskapareignunum líkt og um skilnað sé að ræða, og þeim eignum sem sá látni eða dánarbú hans fær í sinn hlut síðan skipt á milli erfingjanna. Ef að einstaklingur lætur lífið sem á bæði börn úr fyrra hjónabandi og í núverandi hjónabandi yrði eignum hans skipt þannig á milli erfingja að eftirlifandi maki fær 1/3 hluta og börn skipta 2/3 hlutum jafnt á milli sín. Þegar sá sem aðeins á börn úr núverandi hjúskap lætur lífið eftir að fyrri maki lætur lífið myndu hans eignir aftur á móti aðeins skiptast á milli barnanna hans væri hann ekki kominn í hjúskap að nýju. Láti núverandi maki þinn lífið á undan þér skiptast eignirnar þannig að þú fengir 1/3 hluta og 2/3 hlutar myndu skiptast jafnt á milli barnanna ykkar tveggja. Börn erfa því einungis foreldra sína eða kjörforeldra, hafi þau verið ættleidd.

Það getur þó haft áhrif ef eftirlifandi maki fær leyfi til setu í óskiptu búi, en þá (svo lengi sem hann gengur ekki í hjúskap að nýju) fellur niður erfðaréttur hans gagnvart skammlífari makanum við andlát og því erfa einungis börnin foreldra sína nema öðruvísi sé farið með eignir þeirra látnu með erfðaskrá. Þetta þýðir nánar tiltekið að þegar sá maki sem lengur lifir fellur frá í óskiptu búi þá er búinu skipt í tvennt líkt og þegar fjárslit hjóna verða vegna skilnaðar og hvorum helming deilt jafn niður á börn hvors maka um sig þannig að í þínu tilviki þá myndu sameiginleg börn ykkar tvö erfa ykkur bæði en þau þrjú sem þú átt úr fyrra hjónabandi myndu erfa þig og þá föður sinn þar að auki. Eignir maka þíns úr dánarbúinu myndu því skiptast í tvennt, en þínar eignir í 5 hluta.

Kær kveðja,

Sævar Þór Jónsson lögmaður/MBA

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Sævari Þór spurningu HÉR.  

mbl.is