Hvað er hægt að gera við bílskúr sem veldur sjónmengun?

Keagan Henma/Unsplash

Sævar Þór Jónsson lögmaður/MBA svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hann spurningu frá fólki varðandi viðhald á bílskúr sem veldur mikilli sjónmengun. 

Hæ. 

Við búum í einbýlishúsahverfi á landsbyggðinni. Nágranni okkar á bílskúr sem er byggður á lóðarmörkum í baklóðinni okkar. Tveir gluggar eru á þeirri hlið skúrsins.
Nú hefur þessi bílskúr ekki fengið neitt viðhald í þau tuttugu ár sem við höfum búið hér. Hann lítur því út eins og útihús sem bíður eftir að vera jafnað við jörðu. Annar glugginn er löngu brotinn og í honum er plata sem er löngu fúin. Í hinum glugganum er svo mikið drasl af öllum gerðum og litum að það minnir helst á ruslahauga.

Búið er að ræða þetta nokkrum sinnum við nágranann, hvort við fáum ekki bragarbót á þessum ófögnuði sem blasir við okkur í lóðinni, á pallinum og í sólstofunni okkar og inn í stofu. 
Svo blasir þessi sjónmenngun við sem bakgrunnur á öllum fjölskyldumyndum sem teknar hafa verið á lóðinni. Börnin á leik með þennan bakgrunn.

Því miður hefur okkur bara verið svarað með útúrsnúningum og stælum og ekkert gert. Í Covid-19-tímanum okkar í vor tókum við okkur til (svona til að hjálpa geðheilsunni) og reistum léttan vegg 20 cm frá þessum ágæta bílskúrsvegg en samsíða honum og jafn háan. Þetta var í raun okkar útspil, eftir ráðleggingar frá mörgum vinum sem vorkenndu okkur af þessari stöðu.

Adam var ekki lengi í paradís þrátt fyrir að veggurinn sé glæsilegur í alla staði og vandað til verka, sett á hann ljós og gróður fyrir framan hann. Glæsilegt í alla staði.

Þrátt fyrir að hafa fengið hól fyrir flottan vegg og frábæra lausn frá bæjarbúum er nágranni okkar ekki sáttur. Hann er búinn að blása það út á FB að hann hafi enga birtu lengur í skúrnum og allt ómögulegt, þrátt fyrir að það séu þrír stórir gluggar sem eru annaðhvort lokaðir með plasti eða staflað drasli upp að á langhlið skúrsins. Nú er búið að kæra þessa smíð okkar til byggingarfulltrúa. „Burt með vegginn.“

Nú stöndum við ráðalaus. Eigum við virkilega að þurfa að rífa niður vegginn og sætta okkur við það sem blasir þá við?

Höfum við virkilega engan rétt á því sem byggt var samkvæmt lögum (f.Kr.) þegar gluggar voru leyfðir á bílskúrum á lóðarmörkum og að honum sé ekki viðhaldið? Eru virkilega engar kvaðir um umhirðu húsa og lóða í íbúðarbyggð?

En svona í lokin þá var þessi ágæti veggur útbúinn þannig að það tekur enga stund að fjarlægja hann ef nágranninn vill gera bragabót á sinni eign. Ekki viljum við hindra það á nokkurn hátt. Það var hugsað fyrir því.

En hver er okkar réttur og hvað er til ráða?
Allt fyrir fegurðina.

Með kveðju og þakklæti. 

Fjölskylda í einbýli

Sævar Þór Jónsson lögmaður rekur lögmannsstofuna Sævar Þór & Partners.
Sævar Þór Jónsson lögmaður rekur lögmannsstofuna Sævar Þór & Partners.

Sæl.

Engin heildarlög hafa verið sett um grenndarrétt (nábýlisrétt) á Íslandi eins og hjá sumum þjóðum í kringum okkur. Þær eru því fyrst og fremst óskráðar reglur á sviði einkaréttar.

Ljóst er að nágranni þarf að þola óþægindi upp að ákveðnu marki af nágrannalóð sinni og snúast deilur jafnan um það hvort óþægindin hafi farið upp fyrir þau mörk sem nágranni þarf að þola.

Hér eru í reynd tvö sjónarmið sem togast á. Annars vegar þurfum við að líta til athafnafrelsis eiganda fasteignar til athafna á fasteign sinni og hins vegar þurfum við að líta til réttar fasteignaeiganda til að fá að njóta eignar sinnar í friði.

Þetta kristallast í þessu álitaefni, þar sem við þurfum bæði að líta til réttar bílskúrseigandans til að fá að haga eignum sínum eins og honum hentar og hins vegar réttar þíns til að hafa fínt í kringum eignina þína.

Þar sem engin ein regla er í gildi um þetta þarf að skoða hvert tilvik fyrir sig og hvort farið hafi verið yfir þau mörk sem grenndarreglurnar setja.

Að því sögðu hvílir rík skylda á lóðareiganda að passa það að ekki sé slysahætta eða hætta á öðru tjóni á lóð sinni, og þá ekki síst á lóðamörkum. Sé því slysahætta af bílskúrnum veldur það ríkri athafnaskyldu af hálfu fasteignareigandans að gera úrbætur.

Þá hefur einnig borið við því í dómum að sjónmengun geti verið grundvöllur skaðabóta. Því hefur mikið borið við þegar bæjarfélög ákveða deiliskipulag sem breytir til muna útsýni frá fasteignum fólks.

Þá hafa einnig verið sett ákveðin fegrunarviðmið eða reglur í sumum sveitarfélögum, sem geta leitt til þess að fólk verði að haga útliti eigna sinna á þann hátt að einhver grunnviðmið þarf að uppfylla um útlit fasteigna innan sveitarfélags.

Að lokum þá segir samkvæmt byggingarreglugerð að heimilt sé að reisa skjólvegg á lóðarmörkum án byggingarleyfis sé hann ekki hærri en 1,8 metrar né nær lóðarmörkum en 1,8 metrar. Því gæti veggurinn þurft að víkja af þeim ástæðum enda einungis 20 sentímetrum frá bílskúrnum sem hefur glugga.

Meta þarf því aðstæður hverju sinni þegar reglur grenndarréttar eiga í hlut.

Kær kveðja,

Sævar Þór Jónsson lögmaður/MBA

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Sævari Þór spurningu HÉR. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál