Áttu rétt á „íslensku“ fæðingarorlofi ef þú hefur búið erlendis?

Jonatha Borba/Unsplash

Sævar Þór Jónsson lögmaður/MBA svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hann spurningu frá konu sem spyr út í laun í fæðingarorlofi. 

Góðan daginn.

Ég er að klára nám erlendis, og er að gæla við að vera áfram hér úti að vinna í 1-3 ár. Á næstu árum langar mig og manninn minn að stækka við fjölskylduna, en okkur langar að flytja heim til Íslands þegar barn kemur í spilið upp á stuðning frá fjölskyldu. Hvernig virkar fæðingarorlof þegar maður hefur verið að vinna erlendis og borga skatta erlendis? Nú fara „laun“ í fæðingarorlofi eftir launum fyrir fæðingu, en ef ég flyt til Íslands í kringum fæðingu, á ég þá rétt á fæðingarorlofi heima miðað við launin mín erlendis?

Kær kveðja, H

Sævar Þór Jónsson lögmaður rekur lögmannsstofuna Sævar Þór & Partners.
Sævar Þór Jónsson lögmaður rekur lögmannsstofuna Sævar Þór & Partners.

Sæl. 

Samkvæmt lögum um fæðingar- og foreldraorlof gilda lögin aðeins um foreldra sem eru í vinnu á innlendum vinnumarkaði samkvæmt 1. grein laganna.

Í reglugerð um greiðslur úr fæðingarorlofssjóði og greiðslu færðingarstyrks er þó tekið fram að við ákveðnar aðstæður sé hægt að taka tillit til starfa foreldris í erlendu ríki fram að einum mánuði fyrir fæðingu.

Í reglugerðarákvæðinu (5. gr.) segir í stuttu máli að hafir þú unnið seinasta mánuðinn fyrir fæðingu á Íslandi skuli taka tillit til starfstímabils þíns fyrir þann tíma sem starfsmanns eða sjálfstætt starfandi einstaklings í, a. öðru aðildarríki að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, b. Norðurlandasamningnum um almannatryggingar, c. stofnsamningi Fríverslunarsamtaka Evrópu eða d. samningi milli ríkisstjórnar Íslands annars vegar og ríkisstjórnar Danmerkur og heimastjórnar Færeyja hins vegar á ávinnslutímabilinu enda hafir þú sem starfsmaður í einhverju af þeim löndum unnið þér inn rétt til fæðingarorlofs í því landi.

Skilyrði eru þó að þú hafir hafið störf innan tíu virkra daga á Íslandi frá því að þú hættir störfum á vinnumarkaði í öðru ríki sem fellur undir einhvern af þessum samningum.

Sé landið sem þú hyggst starfa í aðili að einhverjum af þessum samningum eru því löglíkur fyrir því að þú getir unnið þér inn réttindi úr fæðingarorlofssjóði hérlendis að þessum skilyrðum uppfylltum.

Bestu kveðjur,

Sævar Þór Jónsson lögmaður/MBA

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Sævari Þór spurningu HÉR. 

mbl.is