Gefur sambandsráð í miðjum skilnaði

Kelly Clarkson gefur heiðarleg sambandsráð í skilnaðinum.
Kelly Clarkson gefur heiðarleg sambandsráð í skilnaðinum. AFP

Tónlistarkonan Kelly Clarkson stendur nú í miðjum skilnaði. Hún er þó ekki feimin við að gefa fólki ráð um tilhugalífið. Í spjallþætti sínum The Kelly Clarkson Show svaraði söngkonan spurningu frá áhorfanda sem vildi koma sambandi sínu við aðra manneskju á næsta stig. 

„Manneskjan sem ég er skotin í sendir mér bara skilaboð á Instagram og hann sendir mér hjartatjákn. Hann er ekki búinn að spyrja um símanúmerið mitt. Hvernig fæ ég hann til að færa samband okkar á næsta stig og fara að spjalla?“ spurði áhorfandinn. 

„Ég er með ráð, en ég er ekki viss um að þú viljir heyra það. Ég skil ekki af hverju þú ættir að vilja vera með manneskju sem vill bara vera með þér fyrir framan annað fólk. Það er mitt ráð. Þú þarft að vita hvað er að gerast bak við luktar dyr, ekki fyrir framan dyrnar. Því það er manneskjan sem þú ert að fara að vera með,“ sagði Clarkson. 

Kelly Clarkson er meira annt um börnin sín en nokkuð …
Kelly Clarkson er meira annt um börnin sín en nokkuð annað í þessum heimi. AFP

Clarkson hefur verið opinská í umræðunni um skilnað sinn þótt hún haldi aftur af sér barna sinna vegna. 

Hún og eiginmaður hennar, Brandon Blackstock, ákváðu að skilja nú í sumar. Clarkson hefur sagt að það sé erfitt að fara í gegnum skilnaðinn því hún er opinber persóna. 

„Það sem hefur verið erfiðast að læra er að ég er opin bók, en þegar allt kemur til alls er ég meiri mamma en opinber manneskja. Börnin mín skipta mig 100% meira máli en nokkuð annað í þessum heimi,“ sagði Clarkson.

mbl.is