Sat uppi með skuldir eftir skilnað, en hvað svo?

Roberto Nickson/Unsplash

Sævar Þór Jónsson lögmaður/MBA svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hann spurningu frá manneskju sem veit ekki í hvorn fótinn hún á að stíga varðandi erfðamál. 

Sæll Sævar,

Eftir skilnað sem átti sér stað fyrir meira en áratug sat ég uppi með skuldir og ábyrgðir vegna fyrrverandi maka. Í nýju sambandi og núverandi hjónabandi til tíu ára, hef ég því ekki verið skráður eigandi fasteignar okkar hjóna, aðeins skuldari. Þessi gömlu mál eru löngu uppgerð en ég engu að síður ekki skráður fyrir neinum eignum okkar. Við eigum börn saman en maki minn átti dóttur fyrir (14 ára) og við höfum hvorki gert með okkur erfðaskrá né kaupmála. Hugleiðingin er þessi: Erfum við hvort annað á sama hátt og ef helmingi fasteignarinnar væri þinglýst á mig? Er hægt að komast hjá því að greiða stimpilgjald við afsal helmings yfir á mig, enda hef ég greitt af eigninni og hún þegar okkar hjúskapareign? Ef maki minn fellur frá á undan, snúa áhyggjur okkar ekki að því að stjúpdóttir mín erfi móður sína heldur að faðir hennar verði fjárhaldsmaður hennar. Hvernig væri best að snúa sér í svona aðstæðum?   

Með fyrirframþökk K.

Sævar Þór Jónsson lögmaður rekur lögmannsstofuna Sævar Þór & Partners.
Sævar Þór Jónsson lögmaður rekur lögmannsstofuna Sævar Þór & Partners.

Sæll

Við andlát maka geta annaðhvort farið fram skipti eða þú fengið leyfi til setu í óskiptu búi. Eins og hefur komið fram áður í svörum á síðunni er leyfi til setu í óskiptu búi byggt á erfðaskrá eða samþykki stjúpniðja (og þá lögræðismaður þess sé það ekki orðið fjárráða).

Fari fram skipti við andlát er því háttað þannig að fyrst er skipt líkt og um skilnað væri að ræða þannig að allar þínar eignir eru teknar og allar þínar skuldir og sé útkoman í plús, þá skiptist sú tala á milli ykkar tveggja. Eins með maka þinn.

Hlut þess látna er svo skipt eins og erfðalögin segja til um þannig að makinn erfi 1/3 og börn þess látna 2/3.

Þá stendur þú uppi með þínar eignir úr skiptum hjúskaparins og þinn arfshluta. Eins situr stjúpdóttir þín uppi með sinn arfshluta og faðir hennar þá fjárhaldsmaður hennar hvað varðar þann arf.

Til þess að koma í veg fyrir að faðir stelpunnar hafi eitthvað um eignirnar að segja falli móðirin frá áður en stelpan verður fjárráða er hægt að kveða á um leyfi til setu í óskiptu búi þér til handa. Þá er það aðeins á þínu færi að skipta búinu, nema skuldsetningar eða óskynsamar útdeilingar á peningum hjá þér verði til þess að erfingjar geti krafist skipta á búinu á þeim forsendum.

Það er því ekki hægt að segja að helmingi fasteignarinnar verði þinglýst á þig, en það fer allt eftir eigna- og skuldastöðu ykkar beggja við andlát hvernig skiptin verða.

Skjöl sem sýna yfirfærslu fasteigna er lagðar hafa verið út erfingjum sem arfur eða maka upp í búshelming eru undanþegin stimpilgjaldi hafi það ekki verið samhliða sölu eða söluafsali.

Vonandi svarar þetta spurningunni þinni.

Kær kveðja,

Sævar Þór Jónsson, lögmaður/MBA

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Sævari spurningu HÉR

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál