Eiginmaðurinn leitaði í faðm annarrar konu þegar hún veiktist

Það getur verið flókið að upplifa óheiðarleika í nánu parasambandi …
Það getur verið flókið að upplifa óheiðarleika í nánu parasambandi þegar einstaklingur gengur í gegnum erfið veikindi. mbl.is/Colourbox

El­ín­rós Lín­dal ráðgjafi svar­ar spurn­ing­um les­enda Smart­lands. Hér fær hún spurn­ingu frá konu sem er í sam­bandi með manni sem er í virkri fíkn. Hann leitaði huggunar hjá annarri konu þegar hún veiktist. 

Sæl og blessuð.
Nú langar mig að leita til þín með vanda sem ég veit ekki hvernig ég á að takast á við. Það snýst um traust á maka mínum. Málið er að fyrir nokkru veiktist ég og þurfti að takast á við erfið veikindi og meðferð tengda þeim. Það gekk mjög vel og ég náði góðum bata. Maðurinn minn, sem er alkóhólisti, fór að drekka mun meira á þessu tímabili þar sem honum leið afar illa og var hræddur um mig. Ég var á þessum tíma í lyfjameðferð vegna minna veikinda og reyndi að taka jákvæðina á lífið og horfa fram á við. Maðurinn minn hins vegar var afar þungur og leitaði eftir aðstoð og huggun hjá konu sem hann þekkir og talaði við hana daglega, heimsótti hana og áttu þau náið spjall með daðri og tilheyrandi. Ég komst að þessu og sagði honum hvernig mér liði með þetta og hann lofaði að hætta að tala við hana en gerði það ekki. Ég komst að því og þá lofaði hann því aftur, nú veit ég ekki hvort hann sé enn að leita til henar með stuðning og aðstoð og finn að ég á erfitt með að treysta honum. Finnst eins og hann hafi brugðist mér meðan á mínum veikindum stóð með þessari framkomu. Finn ég hugsa mikið um þetta og finn fyrir miklu vantrausti.

Kveðja, H.

Elínrós Líndal ráðgjafi.
Elínrós Líndal ráðgjafi. Ljósmynd/Saga Sig

Sæl og takk fyrir bréfið. 

Það er leitt að heyra að maki þinn skuli ekki hafa getað verið til staðar fyrir þig í veikindum þínum. Ég veit að svona mál eru aldrei einföld og ekki til nein ein góð lausn á þeim. 

Það er frekar augljóst að maðurinn þinn leitar í hugbreytandi efni (áfengi, konur) til að deyfa sig. 

Það er alveg eðlilegt að þú treystir ekki einstaklingi sem segir eitt og gerir annað. Góð leið til að læra að treysta fólki eftir að atvik hafa komið upp svipuð og þú lýsir er að skoða bara hversu vel einstaklingnum gengur að standa við það sem hann segir almennt í lífinu. Ef hann segist ætla að koma heim klukkan fimm, kemur hann heim þá? Ef þú spyrð hann hvar hann hafi verið, útskýrir hann það af heilindum eða fer í vörn og æsir sig?

Ég á ekki til töfraráð til að laga sambandið þitt, nema þá bara að ég hef aldrei heyrt um neinn sem batnar af stjórnleysi í ástamálunum nema hann setji áfengisneyslu í botnhegðun eða fráhald. 

Fíknihringurinn er þannig að fólk fer í eins konar trans, það fer síðan í botnhegðunina sína, fer síðan í skömm, svo í þunglyndi, lofar sér (og maka) að gera þetta ekki aftur og síðan heldur hringurinn áfram. Fólk fer vanalega ekki á botninn og tekur á sínum málum nema það séu einhverjar neikvæðar afleiðingar af því að vera í virkri fíkn. Þótt ég myndi aldrei segja að virki fíknhringurinn sé neitt nema hryllilega erfiður staður að vera á, þá gerir hann það sem fólk í virkri fíkn er að leita eftir: Hann veitir tímabundna lausn frá hversdagsleikanum. 

Ef þú finnur fyrir meðvirkni í sambandinu þínu við manninn þinn eru miklar líkur á að þú sért að fara í virka hringi með honum og að þú farir af stað í þinn hring þegar hann lofar þér að hætta að fara í botnhegðunina sína. 

Ég hef séð konur komast út úr svona sveiflum með því að raunveruleikatengja sig gagnvart sambandinu sem þær eru í. Að skoða hvar þær eru með óraunhæfar væntingar og fá aðstoð við að setja heilbrigð mörk. 

Ég mæli með því að þú farir til sérfræðings og vinnir með honum í lengri tíma. Eins mæli ég með því að þú finnir þér góð 12 spora samtök þar sem þú getur fundið hóp af konum sem eru að ganga í gegnum það sama. Það getur verið gott að spegla sig í öðru fólki sem er á mismunandi stað í þessu ferli.

Það er áfall að fara í gegnum erfið veikindi. Eins getur verið áfall að upplifa óheiðarleika í nánu sambandi þegar maður hefur þörf fyrir stuðning makans. 

Það getur verið gott að hafa í huga að í heilbrigðum samböndum fer enginn þó að veikindi eða erfiðleikar komi upp á. 

Gangi þér alltaf sem best. 

Kær kveðja, Elínrós Líndal.

Ligg­ur þér eitt­hvað á hjarta? Þú get­ur sent El­ín­rós spurn­ingu HÉR.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál