„Kon­an hans og ég höf­um sofið sam­an í mörg ár“

Það er auðvelt að fela sig fyrir raunverulegri ást með …
Það er auðvelt að fela sig fyrir raunverulegri ást með því að binda sig lofuðu fólki. mbl.is/Colourbox

El­ín­rós Lín­dal ráðgjafi svar­ar spurn­ing­um les­enda Smart­lands. Hér fær hún spurn­ingu frá karli sem er í kynferðislegu sambandi við konu besta vinar síns.  

Sæl

Ég er í vondum málum. Ég svaf hjá konu fyrir nokkrum árum, hún talaði um vandamál sín og ónægju sína í sínu sambandi við mig, og þetta kvöld sváfum við saman. Ég var að ganga í gengum skilnað og var einmana sem réttlætir ekkert það sem við gerðum.

Ég hélt að þetta væri svona „one time thing“ en sú varð ekki raunin. Konan hans og ég höfum sofið saman í mörg ár um nokkra mánaða skeið, en 2016 sagði ég að þetta væri búið og þetta væri síðasta skiptið sem við myndum sofa saman, hún samþykkti það, því hún sér hvað þetta nagaði mig að innan.


Ég rétt svo kannaðist við manninn hennar á þessum tíma er við sváfum saman í fyrsta skipti. En í dag erum við tveir bestu vinir. Ég elska vin minn því hann er besti vinur minn í dag en vandamálið er að ég þrái enn einnig konuna hans. Hún á það til að senda mér skilaboð sem ég skynja að ég geti hitt hana, hún reynir svo oft að fá mig til að koma er maðurinn hennar er ekki heima. Ég segi margoft við hana að ég geti ekki gert vini mínum þetta og hún segist skilja það en fer svo að tala kynferðislega til mín á hvaða spjalli sem er. Ef við þrjú hittumst heima hjá þeim sé ég að hann var alveg tómur á að eitthvað hafi gerst á milli okkar og á svo mikið betra skilið því hann er toppeintak af manni.


Ég er svo hræddur um að hún verði fúl ef ég neita henni um kynferðislegt spjall og að það endi á að okkar tveggja vinskapur muni eyðileggjast líka.
Ég vil líka að það komi fram að þau bæði eru löngu búin að segja mér að þetta samband hjá þeim er orðið að vinasambandi og lítið sem ekkert kynlíf hefur verið hjá þeim í gegnum 10 ára skeið og ég geri allt í mínu valdi að aðstoða þau með allskonar hugmyndum sem þau ættu að gera til að finna þeirra kynferðislega löngun aftur, og nota þær hugmyndir sem ég myndi vilja gera með henni sjálfur.


Einn í rugli ...

Elínrós Líndal ráðgjafi.
Elínrós Líndal ráðgjafi. Ljósmynd/Saga Sig

Hæ hæ. 

Takk fyrir bréfið. Þú lýsir frekar hefðbundnum degi í lífi ástar- og kynlífsfíkils. Nú sé ég enga spurningu í bréfinu þínu en mig langaði samt að nota tækifærið og leiðrétta nokkra hluti sem ég sé að þú nefnir ranglega. 

Þegar þú talar um besta vin þinn, þá langar mig að segja að þetta sem er í gangi ykkar á milli er andstæðan við það sem ég kalla góða vináttu.

Að sama skapi þá er þetta sem þú ert að gera með konunni hans andstæðan við ást að mínu mati.

Ég les í gegnum bréfið þitt að þú ert með undirliggjandi hugsun (e core belief) sem getur verið villandi fyrir þig. Réttlæting fyrir því af hverju þú heldur áfram að gera hlutina og svo þessi undirliggjandi hugsun um að þetta muni vera í lagi ef þú heldur þessu áfram. Þessu er ég ósammála. 

Ég veit ekki hvernig best er fyrir mig að orða þetta en ef þú lest staðtölur um ástæður ástríðuglæpa og hver lendir oftast í vandanum, þá skilur þú hvað ég meina. Það er ekki að ástæðulausu að margir telja þessa fíkn þá hættulegustu að hafa. Svo farðu vel með þig. 

Þegar þú reyndir að stoppa sambandið árið 2016 þá varstu að reyna að koma þér út úr virku kynlífssambandi. Það á ekki að skipta máli hvað hinn aðilinn segir eða segir ekki, þetta eru mörk sem þú þarft að setja fyrir þig. Ef hún er að koma þessu af stað og þú getur ekki sagt nei, þá er einfalt fyrir þig að binda enda á það. 

Það er léttara en þú heldur að komast út úr þessu ef það er það sem þig langar. Það eina sem þú þarft að gera er að viðurkenna hvað er erfitt við þetta og fá aðstoð frá sérfræðingi. Ég tel litlar líkur á því að einstaklingur sem er að fást við svona hluti á fullorðinsárum sínum hafi upplifað áhyggjulausa æsku án áfalla og meðvirkni.

Það eru eins vísbendingar um að þeir karlmenn sem eru fastir í viðjum kynlífsfíknar upplifðu áföll á þessu sviði sem ungir drengir eða jafnvel líkamlega hörku frá einstaklingi sem þeir hefðu átt að geta treyst þegar þeir voru börn.

Þeir sem upplifa tengslaröskun og vanrækslu í æsku eru vanalega meira fastir í þráhyggju um ástina sem bjargar þeim frá daglega lífinu.

Ef þú hefur áhuga á að koma þér út úr þessum vanda, þá þarftu ekki að útskýra það fyrir neinum. Þú getur sett í botnhegðun að vera í sambandi við þetta fólk og fókusa svo bara á að byggja upp fallegt líf fyrir þig inn í framtíðna. Hvað þau gera sín á milli í framhaldinu er þeirra að leysa. 

Ef þig langar að herða þig aðeins í þessum málum þá eru til frábær 12 spora samtök um bæði meðvirkni og ástarmálin. 

Ég tel ástina sem þú ert að leita að vera til staðar inni í þér. Hér er góð áminning um hvernig má finna hana. 

Gangi þér alltaf sem best og farðu vel með þig. 

Kveðja, Elínrós Líndal. 

Ligg­ur þér eitt­hvað á hjarta? Þú get­ur sent El­ín­rós spurn­ingu HÉR.

mbl.is