Foreldra samviskubitið, kannast þú við þetta?

Þórey Kristín Þórisdóttir sálfræðingur.
Þórey Kristín Þórisdóttir sálfræðingur.

„Þetta er algengt þema í samtalsmeðferð með foreldrum. Að sjálfsögðu er alltaf hægt að finna eitthvað til að hafa samviskubit yfir sem foreldri. Það er mjög eðlilegt og heilbrigt viðbragð foreldra að vilja gera betur, og hægt að líta á það sem jákvæðan metnað í þessu stóra hlutverki sem okkur hefur verið gefið. En um leið og samviskubitið er farið að næra einhvers konar vanlíðan er kominn tími til að láta þar við sitja,“ segir Þórey Kristín Þórisdóttir í sínum nýjasta pistli á Smartlandi:

En hvað er alvörumerking samviskubits? Enska orðabókin segir samviskubit vera þegar einstaklingi líður illa yfir að hafa gert eitthvað rangt eða illt.

Þetta er vert að hafa í huga þegar samviskubitið kemur upp. Varstu í alvöru að gera barninu þínu eitthvað illt eða rangt?

Yfirleitt eru foreldrar með tvenns konar samviskubit. Það fyrrnefnda snýr að því þegar foreldrar eru að gera eitthvað fyrir sig sjálf og þar af leiðandi ekki að eyða tíma með barninu sínu. Eitt dæmi er um móður sem tók hlaupatúr á laugardagsmorgni meðan börnin voru heima að horfa á morgunsjónvarpið. Í þessum hlaupatúr sá hún fjölskyldur úti með börnin sín í hreyfingu. Hún fór þá að hafa samviskubit yfir hlaupatúrnum og af hverju hún væri ekki úti með börnin sín að gera eitthvað jafn uppbyggilegt.

Það að gera eitthvað gott fyrir sjálfið réttlætir ekki samviskubit að mínu mati. Rannsóknir hafa sýnt fram á að þegar foreldrar einmitt taka tíma fyrir sjálfa sig minnkar það líkur á kulnun í foreldrahlutverkinu. Já, það er hægt að fá kulnun í foreldrahlutverki alveg eins og á vinnustað. Þetta er ein stærsta forvörnin; að taka tíma fyrir sig inn á milli og hlaða batteríin á heilbrigðan og jákvæðan hátt.

En aftur að móðurinni sem var úti að hlaupa. Ef við tökum þetta alla leið með samviskubit móðurinnar, ef henni hélt áfram að líða illa við heimkomu þá var þessi hlaupatúr tvöföld sóun á tíma hennar, barna og maka. Þá var hún búin, í fyrsta lagi, að eyða tíma frá börnunum og til hvers? Til að koma heim full af vanlíðan og þreytu? Þegar við festumst í ákveðnum hugsanaskekkjum getur það tekið mikla orku frá okkur og valdið andlegri þreytu. Þar af leiðandi er samviskubit oft mikil orkusuga og tímaþjófur.

Njóta börnin og makinn ekki frekar góðs af foreldri sem er búið að fá smá ferskt loft og kemur heim fullt af náttúrulegum hamingjuhormónum en foreldri sem kemur heim fullt af vanlíðan og þreytu út af einum hlaupatúr?

Næstalgengasta samviskubit foreldra er þegar það eru fleiri börn á heimilinu. Jú, við erum bara ein manneskja og getum ekki sinnt öllum á sama tíma. En við erum ekki að gera börnunum neitt illt með því að leyfa þeim að vaxa upp í systkinahópi. Börn læra ótrúlega mikið af systkinum sínum og þó svo það sé ágreiningur inn á milli er það hluti af þroska að læra að leysa úr ágreiningi. Þá ber einnig að hafa í huga að tíminn líður, börnin vaxa og systkinaböndin styrkjast oft með aldrinum. Með hækkandi aldri barna kemur oft inn meiri sveigjanleiki og tími fyrir foreldra. Þá er hægt að fara að gera fleiri hluti með einu barni í einu þannig að öll börn njóti góðs af smá „alone“-tíma með mömmu eða pabba eða báðum foreldrum.

Þá er vert að hafa í huga að við erum öll mannleg og gerum öll einhver mistök á lífsleiðinni. Mistök eru til að læra af og það þjónar engum tilgangi að festast í hugsunum um hvað við hefðum getað gert betur. Ef við erum of mikið í huganum missum við tenginguna við nútíðina og hvað er í nútíðinni? Jú blessuð börnin. En rannsóknir hafa sýnt að þeir foreldrar sem iðka núvitund bregðast við börnum sínum á jákvæðari hátt, sem þar af leiðandi ýtir undir betri geðtengsl milli foreldris og barns.

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Þóreyju fyrirspurn HÉR

View this post on Instagram

Are you struggling with your thought pattern?⁠😔 ⁠ These negative thoughts have also physical effects on us like drain us of energy. ⁠😴 ⁠ Research has shown that 🧠Mindfulness not only can calm your mind but has some other benefits as well like: ⁠👇 ⁠ - Boost motivation ⁠ - Reduce anxiety ⁠ - More optimism ⁠ - More joy ⁠ - Less rumination⁠ - More energy ⁠ - Less stress⁠ - More stable self-esteem⁠ ⁠✨✨✨✨✨✨✨✨ I mean what is not like? ⁠ ⁠ Start implementing Mindfulness into your daily life now. Only 10 minutes a day✔️ can affect your brain area in a positive way. ⁠🙏 ⁠ #therapy #mindfulness #happiness #joy #optimism #motivation #anxietyrelief #onlinetherapy #psychologist #terapi #photooftheday⁠ ⁠ ⁠

A post shared by Kristin Psychologist & Coach (@mindtherapy.dk) on Oct 22, 2020 at 2:10am PDT

mbl.is