Heillast alltaf af giftum mönnum: Hvað er til ráða?

Það er hægt að upplifa mikinn einmannaleika ef miklar andstæður …
Það er hægt að upplifa mikinn einmannaleika ef miklar andstæður eiga sér stað í ástarlífinu. mbl.is/Colourbox

El­ín­rós Lín­dal ráðgjafi svar­ar spurn­ing­um les­enda Smart­lands. Hér fær hún spurn­ingu frá konu sem á í sambandi við frátekna menn. 

Góðan dag.

Ég las ráðgjafaspurningu þína um manninn og konuna sem eru búin að sofa saman í mörg ár. Hvernig getur maður látið athuga hvort maður sé með kynlífsfíkn eða ástarsýki? Hvernig sérfræðinga á maður að leita til? Þú talar um áföll í æsku. Ef maður man ekkert eftir slíku?

Miðað við svar þitt til þessa manns er ég í svipaðri stöðu. Ég þarfnast aðstoðar, því ég á í vinasamböndum við frátekna karlmenn og svo hina dagana sem ég er ekki efst á lista hjá þeim brýt ég mig niður því ég skil ekki af hverju þeir hafa ekki samband við mig.

Kveðja, SÝ

Elínrós Líndal.
Elínrós Líndal. Ljósmynd/Saga Sig

Sælar og takk fyrir áhugaverða spurningu. 

Þegar kemur að stjórnleysi í málefnum er varða ást og kynlíf, áfengi og mat sem dæmi þá er fjöldinn allur af sérfræðingum úti um allan heim sem hægt er að nálgast á auðveldan hátt nú í gegnum netið.

Stofnanir sem áhugavert fyrir þig er að skoða eru sem dæmi The Meadows og Center For Healthy Sex.

Mín reynsla er sú að fólk þarf aðeins tíma til að átta sig á hvort um stjórnleysi sé að ræða eða eitthvað annað. En það er einungis þú sem skilgreinir þessa hluti fyrir þig. 

Góður mælikvarði á stjórnleysi er alltaf að spyrja sig: Eru ástamálin eins og ég vil hafa þau? Ef ekki  af hverju?

Þegar kemur að síðari hluta spurningar þinnar langar mig að segja þér að vinasambönd við karlmenn ættu ekki að hafa áhrif á ástalíf þitt því það er heilbrigt að eiga vini sem bæði eru konur og karlar. 

Ef hins vegar þú átt í ástarsambandi við lofaða menn og þú kallar þá vini þína, þá er áhugavert fyrir þig að skoða það í víðara samhengi. 

Í spurningunni þinni kemur í ljós að þú ert að brjóta þig niður og meiða þig með lofuðum mönnum, svo þú sérð í höndum hvers þessi mál eru. 

Ég mæli með að þú takir bara svipuna af þér og byrjir að raða og flokka. Þá hegðun sem þig langar að halda þig við daglega, hverju þú þarft að vara þig á og hvað þig langar ekki að gera lengur.

Ég mæli með fyrir alla í þínum sporum að skrifa bréf. Bréfið þarf að vera með jákvæðri staðhæfingu í byrjun, síðan þarf að vera málsgrein um tilfinningar og síðan lokaorð sem skýra mörkin. 

Bréfið getur verið svona:

Sæll / Sæl.

Þú hefur allan rétt á því að vera giftur (í sambandi) og að vera með viðhald. 

Það að ég hafi komið mér í þá stöðu að vera hin konan í lífi þínu hefur meitt mig mikið. Það hefur ekki vantað upp á tilfinningar eða ástríðu okkar á milli, en það hefur ekki stutt við það líf sem mig langar að lifa í dag. Ég er meira virði en þetta. 

Ég bið þig því að virða tilfinningar mínar og vera ekki í sambandi við mig á meðan þú ert lofaður annarri konu.  

Kveðja, X 

Í hvert skipti sem þig langar að hafa samband við viðkomandi geturðu lesið bréfið yfir. Í hvert skipti sem viðkomandi sendir þér eitthvað getur þú lesið bréfið og ekki svarað. Ef þetta hefur farið langt yfir mörk þín er ekkert því til fyrirstöðu að þú takir bara þennan/þessa manneskju út af samfélagsmiðlum þínum eða felir þá svo þú sjáir ekkert frá þeim tímabundið. Ég mæli ekki með að svona bréf séu send á gifta/eða lofaða menn nema þá bara til að svara viðkomandi og útskýra að það verður ekki meira um svona samskipti í framtíðinni. 

Það tekur að meðaltali tvö ár fyrir konur að komast út úr þráhyggju gagnvart mönnum sem þær hafa sofið hjá ef þær hafa tengst þeim í lengri tíma og þær eru með stjórnleysi á þessu sviði. Ef þú ert á breytingaskeiðinu máttu gera ráð fyrir að sá tími sé töluvert styttri. Eldri karlmenn og yngri konur eiga samkvæmt nýjustu rannsóknum auðveldara með að tengjast fólki. Eldri konur og yngri menn virðast fljótari að ná sér upp úr erfiðum samskiptum. En þetta getur verið mjög einstaklingsbundið og markast af hormónum annars vegar og hvernig fólk myndar tengsl hins vegar.

Dr. Ann Wilson Shaef og fleiri sérfræðingar hafa bent á að öll nýsköpun eigi sér stað í grasrótinni, svo ef þú vilt fá allt það nýjasta beint í æð, þá ferðu í 12 spora samtök. 

Gangi þér alltaf sem best og mundu að það er enginn heilbrigður karlmaður að halda framhjá konunni sinni. Það gera einungis karlmenn með mjög litla sjálfsvirðingu, sem kunna ekki að setja heilbrigð mörk og biðja um það sem þeir vilja inni í sambandinu sínu.

Það er ekkert meira sjarmerandi en heiðarlegur einstaklingur sem kann að setja heilbrigð mörk og berskjalda sig. Sem þorir að stíga inn í lífið sem hann/hana langar að lifa og hefur þarfir og langanir í ástinni og að tengjast öðru fólki náið. 

Þú kemst að þessu ef þú heldur áfram að skoða þig betur. 

Bestu kveðjur, Elínrós Líndal.

Ligg­ur þér eitt­hvað á hjarta? Þú get­ur sent El­ín­rós spurn­ingu HÉR.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál