„Ég hef áhyggjur af því að ef ég verð of hörð við hana“

Fjölmargir einstaklingar eru orðnir þreyttir á ástandinu. Þá upplifa þeir …
Fjölmargir einstaklingar eru orðnir þreyttir á ástandinu. Þá upplifa þeir vanmátt við að vera til staðar fyrir annað fólk. mbl.is/Colourbox

El­ín­rós Lín­dal ráðgjafi svar­ar spurn­ing­um les­enda Smart­lands. Hér fær hún spurn­ingu frá konu sem finnur fyrir farsóttarþreytu og getur því lítið gefið af sér til vinkonu sinnar sem er kvíðin þessa dagana. 

Hæ kæra Elínrós.

Ég er í smá klípu með eina vinkonu mína. Eins og gefur að skilja eru allir með miklar áhyggjur þessa dagana og upplifa mikinn kvíða. Vinkona mín, sem ég myndi lýsa sem frekar kvíðnum einstaklingi almennt, reiðir sig mikið á mig hvað varðar andlega heilsu sína. Hún deilir með mér hvernig henni líður, hverju hún hefur áhyggjur af og yfir hverju hún er kvíðin. Ég hef hingað til getað verið stoð hennar og stytta en núna finn ég mig brotna undan álaginu.
Ég sjálf glími við „farsóttarþreytu“ og finn að núna á ég aðeins erfiðara með að fóta mig hvað varðar andlega heilsu.

Hvernig set ég vinkonu minni mörk á þessum erfiðu tímum? Hvernig get ég sagt henni fallega að akkúrat núna geti ég ekki verið stoð hennar og stytta og að ég þurfi að hugsa um sjálfa mig?

Ég hef áhyggjur af því að ef ég verð of hörð við hana hafi það mjög slæm áhrif á hana og hennar andlegu heilsu.


Kveðja, ein farsóttarþreytt

Elínrós Líndal ráðgjafi.
Elínrós Líndal ráðgjafi. Ljósmynd/Saga Sig

Sæl og takk fyrir mjög gott erindi. 

Ég held að margir séu að fara í gegnum það sama og þú núna og þurfi að minna sig á að forgangsraða í lífinu. 

Það er tvennt sem ég les í bréfinu þínu sem mig langar aðeins að fjalla um, því ég held það geti auðveldað þér að setja þér heilbrigð mörk í samskiptum við annað fólk.  

Þú skrifar að allir séu með áhyggjur í dag og með mikinn kvíða. Ég er ekki sannfærð um að það sé alveg sannleikurinn. 

Ástandið er erfitt í dag, en það líður ekki öllum jafn illa og það eru ekki allir með kvíða. Ég held að það fari eftir aðstæðum enda hefur kórónuveiran hitt okkur misvel ef svo má að orði komast. 

Ég er á því að ástandið kenni okkur að finna öryggi í óvissunni. 

Þeir sem hafa verið með undirliggjandi kvíða áður en faraldurinn braust út hafa margir hverjir upplifað meiri kvíða í ástandinu.

Svo er líka til fólk sem líður bara vel. Hefur þurft að færa sig heim út af vinnu en upplifir óvænta ánægju í meira samneyti við börn sín og hefur náð hvíld sem daglega lífið hér áður veitti því ekki. 

Þannig að ég held að sannast væri að segja að kórónuveiran sé ástand sem skapar óöruggi og óvissu en fólk fer í gegnum þetta tímabilið á mismunandi hátt. Enda er fólk alls konar og enginn er eins og annar. 

Ég er á þeirri skoðun að enginn ætti að vera með mikinn kvíða í dag án þess að leita til sérfræðings með það. 

Við erum með einstaklega vel menntað fólk hér í landinu á ýmsum stöðum sem hefur menntað sig í að fást við kvíða. 

Fjölmargar ástæður geta legið að baki kvíða hjá fólki.

Fagfólk getur greint hvað veldur kvíðanum og unnið með það. Hugræn atferlismeðferð virkar vel sem og alls konar kvíðameðferðir. Það er einnig til fagfólk sem sérhæfir sig í meðvirkni og fíknivanda ef aukin neysla á hugbreytandi efnum veldur kvíða hjá fólki.

Eins getur félagsleg einangrun valdið ótta og kvíða hjá fólki. Það er hægt að vinna í því. 

EMDR getur verið góð leið til að komast að því hvað liggur að baki óþægilegum tilfinningum. 

Samtalsmeðferðir geta einnig verið góð leið til að finna öryggi í aðstæðunum í dag. Að raða og sortera hvað maður má vera þakklátur fyrir og vinna með það sem veldur áhyggjum. Ef ákveðin hegðun er sett inn í dagskrá hjá fólki daglega og það fær aðstoð við að komast meira í rökhugsun og úr viðbragði getur líðan breyst til muna. Málið er að það er hægt að komast úr neikvæðum hugsunum með jákvæðri hegðun. 

Að þessu sögðu langar mig að benda á að ég tel litlar líkur á að þú getir bjargað vinkonu þinni. Þú getur verið til staðar fyrir hana og gert eitthvað skemmtilegt með henni. En maður ætti aldrei að leika æðri mátt í lífi annars fólks.

Þar sem þú ert þitt aðalverkefni langar mig að hvetja þig til að skrifa niður lífið sem þig langar að lifa. Hvað gerir þessi kona daglega? Hvað gerir hún ekki? Um hvaða svæði þarf hún að fara varlega? Hvernig er hún til staðar fyrir vini sína? Hversu miklum tíma eyðir hún í annað fólk? Hversu miklum tíma eyðir hún í sig? Á hún eiginmann? Börn? Hvernig sinnir hún þeim? Hvernig fer hún með peninga? Hvað sefur hún margar stundir á nóttunni? Hvað borðar hún á daginn? Hvað hreyfir hún sig mikið?

Ef þú stígur inn í að vera þessi kona í dag muntu fá aukinn kraft á næstu dögum og vikum. 

Þú þarft í raun og veru ekki að segja neitt við vinkonu þína; þú þarft bara að lofa þér að sinna þér og vera svo til staðar fyrir hana þegar þú getur. Maður þarf ekki að svara símanum um leið og hann hringir og getur sent skilaboð og látið vita að maður verði í bandi eins fljótt og maður getur. 

Ef þú sérð að kvíði hennar fer versnandi geturðu alveg bent henni á að það sé til frábært fagfólk sem kann að fara með henni dýpra ofan í málin en þú getur. 

Rannsóknir sýna að ef við erum til staðar fyrir annað fólk upplifum við ákveðið hormón (oxýtósín) sem er hamingju-tengslahormón. Það gerir okkur glöð og við finnum tilgang með lífinu. Þegar það að vera til staðar fyrir aðra er farið að taka frá okkur gleðina gerir maður engum greiða með því að svara símanum. Að taka erfið símtöl þegar maður er þreyttur getur því verið grátt svæði þar sem auðvelt er að detta í dómhörku, fórnarlamb, undanlátssemi og fleira þegar maður er illa fyrirkallaður.

Ef þú ákveður að vinna í þér geturðu bara tilkynnt öllum í kringum þig að þú sért í fallegu sjálfsræktarátaki þar sem það verður aðeins erfiðara að ná í þig en vanalega. 

Hver veit nema fólk taki þig sér til fyrirmyndar, taki ábyrgð á sér og verði besta útgáfan af sér í þessu annarlega ástandi. Með eða án aðstoðar fagfólks. Einskonar Covid  try me! Í stað Covid  why me?

Áfram þú!

Kær kveðja, Elínrós Líndal.

Ligg­ur þér eitt­hvað á hjarta? Þú get­ur sent El­ín­rós spurn­ingu HÉR.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál