Obama um hjónabandserfiðleika í Hvíta húsinu

Michelle og Barack Obama.
Michelle og Barack Obama. AFP

Barack Obama fyrrverandi forseti Bandaríkjanna greinir frá því hvaða áhrif forsetembættið hafði á hjónaband hans og Michelle Obama í nýrri endurminningabók, A Promised Land. Starf hans hafði áhrif á sambandið og efaðist hann stundum um að bjartari tímar væru fram undan.

„Þrátt fyrir velgengni Michelle og vinsældir hélt ég áfram að skynja undirliggjandi spennu hjá henni, lágstemmda en sífellda, eins og lágvært hljóð úr vel falinni vél,“ skrifaði Obama í bókinni að því er fram kemur á vef CNN. Hann sagði að pirringur hennar hefði orðið skýrari innan veggja Hvíta hússins, hvort sem það sneri að stöðugri vinnu hans, hvernig stjórnmálin fóru að beinast að fjölskyldu og vinum eða hvernig hún skipti ekki máli. 

Í bókinni sagði forsetinn fyrrverandi frá hugsunum sínum þegar hann lá andvaka við hlið Michelle Obama. 

„Ég hugsaði um þá daga þar sem allt á milli okkar var léttara, þegar hún brosti meira og ekki jafn mikil byrði var á okkur. Hjarta mitt spenntist við þá hugsun að þessir dagar kæmu kannski aldrei aftur.“

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem almenningur fær að heyra að stjórnmálin höfðu áhrif á hjónaband Obama-hjónanna. Michelle Obama hafði áður greint frá því að þau færu til hjónabandsráðgjafa og væru dugleg að vinna í hjónabandinu.

Obama-hjónin hafa farið í gegnum súrt og sætt saman.
Obama-hjónin hafa farið í gegnum súrt og sætt saman. AFP
mbl.is