Var í rúmt ár að skipuleggja rómantískt bónorð

Máni Snær og Harpa Snædís trúlofuðu sig á árinu.
Máni Snær og Harpa Snædís trúlofuðu sig á árinu. Ljósmynd/Aðsend

Máni Snær Hafdísarson og Harpa Snædís Hauksdóttir trúlofuðu sig föstudaginn 13. mars fyrr á þessu ári. Máni Snær lagði mikið í bónorðið en hann fór á skeljarnar í kirkju í Kaupmannahöfn þar sem þau stunda framhaldsnám en bónorðið kom alveg aftan að Hörpu. 

Máni sagði frá bónorðinu á Facebook og birti myndaband í leiðinni. Hann segir blaðamanni að hann hafi verið rúmt ár að skipuleggja bónorðið. Þau eru ekki enn búin að ákveða hvenær brúðkaupið fer fram en Máni gerir ráð fyrir að það taki ekki síður langan tíma að skipuleggja. 

Máni og Harpa kynntust almennilega fyrir sex árum en þekktu áður til hvort annars þar sem þau eru uppalin í aðliggjandi hverfum, vesturbæ Reykjavíkur og á Seltjarnarnesi. Á föstudeginum 13. mars fyrir tæpum sex árum fóru þau í fyrsta sinn á stefnumót og þess vegna bar Máni upp bónorðið þann 13. mars í ár.

„Á meðan hún hugsaði til mín sveittum yfir kennslubókunum þá stóð ég hins vegar sveittur uppi á altari í gamalli kirkju í Kaupmannahöfn sem ég hafði fengið lánaða, en ég hafði nýlokið við að bera inn í hana nýþunga kertastjaka sem ég leigði af brúðkaupsleigu í hinum enda borgarinnar þennan sama morgun. Ég kom fyrir myndavél og tónlistargræjum og fékk vin minn til þess að hjálpa mér að sjá til þess að allt gengi samkvæmt áætlun,“ skrifaði Máni á Facebook.

Í fyrstu hélt Harpa að Máni hefði gleymt sambandsafmælinu þeirra. 

„Harpa hringdi í mig um stuttu eftir hádegið og spurði mig hvort ég vissi hvaða dagur væri í dag, ég þóttist koma af fjöllum og spurði hana hvað hún ætti við, og hún útskýrði þá fyrir mér að í dag ættum við fimm ára afmæli. Hún var svolítið sár yfir því að ég hefði gleymt deginum okkar og sagði að ég væri greinilega ekki eins rómantískur og ég hefði eitt sinn verið,“ skrifaði Máni á Facebook. Þegar hann kom heim seinna um daginn baðst hann afsökunar og sagðist ætla bæta henni gleymskuna upp með því að bjóða henni út að borða. 

Harpa með trúlofunarhringinn.
Harpa með trúlofunarhringinn. Ljósmynd/Aðsend

Hvernig datt þér í hug að biðja hennar á þann hátt sem þú gerðir?

„Ég vildi reyna að gera bónorðið sérstakt og eiga það á myndbandi svo við tvö og börn okkar gætum átt og horft á í framtíðinni. En hvaðan ég fékk hugmyndina veit ég ekki ef ég á að segja alveg eins og er, ætli ég hafi ekki bara horft á einum of margar rómantískar gamanmyndir,“ segir Máni 

„Ég vissi að henni myndi ekkert finnast það sérstaklega skrýtið þó ég leiddi hana inn í tóma kirkju fulla af logandi kertum en við kíkjum oft inn í kirkjur þegar við erum á gangi. Hún áttaði sig ekki á því að bónorð væri í vændum fyrr en ég var bókstaflega kominn á annað hnéð, þrátt fyrir aðstæður og glottið sem ég gaf henni þegar ég leiddi hana upp að altari.“

Máni segir fátt betra en að elska og vera elskaður til baka.

„Við erum búin að bardúsa margt saman yfir stutt tímabil og bjuggum um tíma í Argentínu, á Spáni, norður í landi og nú í Kaupmannahöfn. Við hlæjum saman alla daga og allra vænst þykir mér um hversu góðir vinir við erum á sama tíma hversu skotin við erum hvort í öðru. Stundum finnst mér ástin okkar vera líkt og úr sögu; eins ótrúleg og rithöfundar sýna okkur í bókmenntum og bíómyndum. Stundum kemur Harpa að mér þar sem ég sit og sest ofan á mig eins og köttur sem vill láta klappa sér, hún hjúfrar sig um í fanginu mínu og þá á ég að hætta öllu sem ég er að gera og knúsa hana, það er afskaplega gott. Það er fátt betra í þessu lífi að mínu mati en að fá að elska og vera elskaður tilbaka,“ skrifaði Máni. 

Hér fyrir neðan má sjá rómantískt bónorð Mána. 

mbl.is