„Ég get ekki horft upp á þetta eina ferðina enn“

Það getur verið erfitt að horfa upp á börnin sín …
Það getur verið erfitt að horfa upp á börnin sín takast á við erfið verkefni. Sama á hvaða aldri þau eru. mbl.is/Colourbox

El­ín­rós Lín­dal ráðgjafi svar­ar spurn­ing­um les­enda Smart­lands. Hér fær hún spurn­ingu frá konu sem óttast um velferð dóttur sinnar. 

Sæl. 

Ég á dóttir sem var í sambúð með manni sem beitti hana miklu andlegu ofbeldi, hún henti honum út en eftir einhvern tíma náði hann að sannfæra hana um að hann væri sko búinn að vinna vel í sínum málum og flutti svo aftur til hennar. Ofbeldið byrjaði strax aftur og sem betur fer þá gafst hún upp en svo kom að þeim punkti að hann var búinn „að vinna svo vel í sínum málum og allir voru svo vondir við hann“ nú er hann að reyna að koma sér inn aftur. Ég get ekki horft upp á þetta eina ferðina enn, hvað get ég gert? Þetta skiptir okkur foreldra miklu máli.

Kveðja, BB

Elínrós Líndal.
Elínrós Líndal. Ljósmynd/Saga Sig

Sælar og takk fyrir bréfið. 

Þar sem þú skrifar að þetta mál skipti ykkur foreldrana miklu máli þá mæli ég með því að þið stígið þessa öldu með dóttur ykkar. Ekki fara frá henni, ekki ásaka hana eða dæma þegar kemur að ákvörðunum hennar í lífinu sínu.

Það eru til kenningar um sanngjörn samskipti sem og ofbeldissambönd og ef þið vinnið eftir þessum hugmyndakerfum, þá getið þið orðið hluti af lausninni í hennar lífi en ekki vandanum. 

Ofbeldissambönd þrífast í lokuðum kerfum þar sem aðilar færa sig frá og út úr nánum samskiptum við foreldra, systkin, vini og fjölskyldu. Þið vinnið á móti því með því að færa ykkur nær dóttur ykkar, sama hvaða ákvarðanir hún tekur í lífinu. 

Sanngjörn samskipti fela í sér að litið er á báða einstaklinga sem dýrmætar persónur. Það er eðlilegt að hafa ólíkar hugmyndir og skoðanir á öllu milli himins og jarðar. Fólk á að geta deilt tilfinningum sínum í trúnaði. Eðlilegt er að beina athyglinni að sjáfum sér fyrst og síðan öðru fólki. Þegar eitthvað kemur upp á er heilbrigt að spyrja: Út í hvern er þessi aðili reiður?Taka þarf allt sem er gert er og sagt alvarlega. Ef vafi kemur upp í samskiptum, er eðlilegt að spyrja og reyna að skilja. Það er eðlilegt að setja mörk og taka mörkum annarra. Líkamlegt ofbeldi er aldrei í lagi. Andlegt ofbeldi er aldrei í lagi. Samskiptin felast ekki í því að vinna líkt og fólk sé í keppni. Það þarf að tileinka sér jákvætt viðhorf gagnvart fólki. Það þarf að forðast að dæma aðra. Mikilvægt er að ef loforð um breytingar séu gerðar, að þeim sé fylgt eftir. 

Þú getur boðið dóttur þinni að fara með þér í ráðgjöf hjá góðum sérfræðingi sem sérhæfir sig í ofbeldislausum samskiptum og flóknum fjölskyldumálum. Þá aðallega til að fá aðstoð við að tjá henni tilfinningar þínar og sýna á sanngjarnan hátt vilja til að styðja við hana. 

Það ætti engin dóttir eða sonur að vera í þeirri stöðu að foreldrar þeirra óttast um velferð þeirra. Hins vegar er mikilvægt að það komi fram í mínu svari að fólk getur túlkað ofbeldi á mismunandi hátt. Ég hef hitt fólk sem óttast ekki orðaslettur hér og þar, heldur lítur á aðgerðarleysi og það að gera ekki eitthvað, sem rosalega óþægilegt ofbeldi. Þetta eru einstaklingar sem eru sem dæmi fastir í samböndum í áraraðir með einstaklingum sem eiga erfitt með að skuldbinda sig eða eru að horfa annað á meðan þeir eru lofaðir í sambandi sem þeir virðast samt ekki hafa áhuga á. Mín reynsla er sú að í slíkum samböndum, getur hávær hegðun orðið meiri, þangað til að fólk hættir samskiptum, eða sest niður og kemst að sanngjörnu samkomulagi. 

Sanngjörn samskipti eru vandrataður vegur og tel ég löngu kominn tíma á að þau séu kennd á öllum stigum í skólakerfinu okkar. Það myndi létta töluvert álagið á heilbrigðiskerfinu okkar sem og á verkefnum lögreglunnar í landinu. Rannsóknir sýna að fólk verður bæði andlega- sem og líkamlega veikt í óheilbrigðu umhverfi. Eins eru óheilbrigð samskipti eins og dæmi sýna hættuleg. 

Takk fyrir að deila reynslu þinni með mér. 

Kær kveðja, Elínrós Líndal.

Ligg­ur þér eitt­hvað á hjarta? Þú get­ur sent El­ín­rós spurn­ingu HÉR.

mbl.is