Makinn dettur í það átta sinnum á ári og veldur skaða

Það er óraunhæft að ætla að halda í eina tilfinningu …
Það er óraunhæft að ætla að halda í eina tilfinningu út lífið. mbl.is/Colourbox

El­ín­rós Lín­dal ráðgjafi svar­ar spurn­ing­um les­enda Smart­lands. Hér fær hún spurn­ingu frá konu sem sem leitar meiri hamingju í ástarsambandinu sínu. 

Sæl

Ég er gift manni sem er frábær 90 % af tímanum en svo tekur hann dýfur og á það til að skipta skapi og stundum drekkur hann.

Ég hef ekki áhyggjur af drykkjunni, heldur því hvernig hann drekkur.

Þetta eru kannski einhver átta skipti á ári, en þá veit ég aldrei hvað gerist.

Hvað get ég gert svo hann gefi mér meiri hamingju og hætti að láta mig hafa áhyggjur?

Kveðja, ein stressuð

Elínrós Líndal.
Elínrós Líndal. Ljósmynd/Saga Sig

Sælar

Þú getur gert ýmislegt til að finna fyrir auknu öryggi í sambandinu þínu við eiginmann þinn. 

Til að byrja með þá langar mig að segja þér að ég tel óraunhæft að vera í einni tilfinningu alltaf í samböndum. Við erum með svo margar tilfinningar og kannski væri bati fyrir þig að skoða og þora að vera í allskonar tilfinningum án þess að dæma það eða setja ábyrgð á manninn þinn vegna þeirra. 

Ég tel mjög mikilvægt að fólk velji sér maka sem er með svipuð gildi. Það heldur að mínu mati fólki saman í lífsins ólgusjó. 

Ef það er eitthvað sem lífið hefur kennt mér bæði í gegnum leik og starf er að lífið er allskonar. Það er margt fallegt og gott í lífinu, en ef maður tekur þann pól í hæðina að maður tekur á móti áskorunum sem maður mætir, þá er lífið ekki alltaf auðvelt. 

Það sem ég mæli með að þú gerir er að þú magnir upp tilfinningarnar sem upp koma þegar maðurinn þinn drekkur. Hvað kemur upp?  

Ég held að þú komist á betri stað ef þú bara situr með þessar tilfinningar í fanginu, þangað til að þær fara. Það er ekkert slæmt að fara að gerast. Þú munt kynnast þér betur og þannig jafnvel tekið aðeins meiri ábyrgð á þér í þessu sambandi. 

Ég hef aldrei sé mann eða maka fara í bata vegna þess að kona hans var svo hrædd um hann. Ég hef hins vegar séð fólk fara í bata ef það fær að taka ábyrgð á hegðun sinni og jafnvel ef það fylgja þeim einhverjar afleiðingar. 

Allt frá því við fæðumst þá lærum við að þegar við gerum eitthvað, þá gerist eitthvað í kjölfarið. Við grátum og mamma kemur að hugga okkur. Við brosum og fólk brosir á móti okkur. 

Við komum vel fram við fólk og fólk kann að meta okkur. Við komum illa fram við fólk og fólk vill ekki vera nálægt okkur. 

Þegar kemur að áfengi, þá á sama lögmál við þar og annarsstaðar. Ef fólk drekkur eitt eða tvö vínglös og það verður bara skemmtilegt, þá upplifir þessi persóna jákvæð viðbrögð. 

þegar einstaklingur drekkur of mikið og hann getur ekki séð um sig, eða kemur sér í hættu, eða segir eitthvað særandi, þá er alveg eðlilegt að veröldin bregðist við því líka.

Það sem þú getur gert til að maðurinn þinn gefi þér meiri hamingju, er að þú finnur hamingju í fleiri þáttum lífsins en einungis í ástarsambandinu þínu. Það býr ást innra með þér. Þú getur fundið fyrir hamingjutilfinningu í vinnunni. Með börnum, vinum og í raun öllu samfélaginu. 

Í lokin langar mig að segja þér að þú getur notað svarið mitt til viðmiðunar. Þetta eru einungis tillögur út frá stuttri spurningu. Ég hvetja þig til þess að líta á áhyggjur þínar sem þroska. Í sumum aðstæðum er eðlilegt að hafa áhyggjur. 

Gangi þér alltaf sem best. Elínrós Líndal. 

Ligg­ur þér eitt­hvað á hjarta? Þú get­ur sent El­ín­rós spurn­ingu HÉR.

mbl.is