Hvernig losna ég undan eltihrellum?

Veröldin sem eltihrellar lifa í er ólík þeirri sem annað …
Veröldin sem eltihrellar lifa í er ólík þeirri sem annað fólk þekkir. mbl.is/Colourbox

El­ín­rós Lín­dal ráðgjafi svar­ar spurn­ing­um les­enda Smart­lands. Hér fær hún spurn­ingu frá konu sem laðar til sín eltihrella. 

Sæl.

Mig langar að spyrja þig aðeins um mynstur í samböndum. Eltihrellar virðast laðast að mér.  Menn sem eru markalausir og taka ekki nei fyrir svar. 

Hvernig losna ég undan því? 

Kveðja, XoXo

Elínrós Líndal er ráðgjafi með eigin stofu.
Elínrós Líndal er ráðgjafi með eigin stofu. Ljósmynd/Saga Sig

Sæl og takk fyrir spurninguna. 

Það getur reynt á taugarnar og á öll svið lífsins að vera með eltihrelli, svo ég mæli með að þú skoðir þetta mynstur út frá nokkrum hliðum. 

Það sem ég mæli með er að þú skoðir hvernig þú ert að hitta þessa menn. Ég myndi hvetja þig til að hægja á því hvernig þú hittir menn og jafnvel að þú setjir upp samskiptaplan sem þú heldur þig síðan við. 

Sem dæmi getur verið fínt að prófa að hitta menn sem einhver getur mælt með fyrir þig í stað þess að nota stefnumótasíður eða skemmtistaði. Eins getur verið gott að hægja á stefnumótaferlum og setja inn í planið þitt að hitta einstakling á sem dæmi kaffihúsi í klukkustund og þá kannski einu sinni í viku í einhverjar vikur. 

Þegar kemur að tjáskiptum, þá er gott fyrir þig að skoða hverju þú ert að deila með fólki sem þú þekkir lítið. 

Ef þú hittir mann, er hann sem dæmi að spyrja um þig og að segja frá sjálfum sér? Er það sem hann segir rétt og satt og stendur hann við hluti sem hann segist ætla að gera?

Hvernig líður þér á þessum stefnumótum? Er spenna í líkamanum þínum eða ertu að ná að slaka á og hafa gaman?

Eltihrellar eru oft og tíðum einstaklingar sem eru með takmarkaða þekkingu á sjálfum sér. Þeir taka stundum yfir í samtölum og eru með fyrirframgefnar hugmyndir um aðilann sem þeir eru að hitta. Ef þeir finna fyrir höfnun eða að einstaklingurinn er að draga sig út úr samskiptum fer eitthvað af stað inni í þeim og þeir missa stjórn á tilfinningum sínum. 

Það hafa án efa margir keyrt einu sinni fram hjá húsinu hjá einstaklingnum sem þeir eru að hitta. En að keyra fyrir utan hús einhvers sem einstaklingurinn hefur áhuga á, nokkrum sinnum á dag er frekar óhugnanlegt. Það sama má segja um að hringja oft á dag eða senda skilaboð ítrekað án þess að fá svör til baka. 

Besta vörnin tengd eltihrellum eru góð og staðföst mörk. Að þú sért þú sjálf og farir ekki inn í fantasíu hjá öðru fólki. Hlustir á líkama þinn og tilfinningar og gerir ekki ráð fyrir því að allir séu heiðarlegir og góðir, þótt þeir segist vera það. 

Það hvað persóna gerir segir meira til um hana en það sem hún segir. Þótt auðvitað sé alltaf æskilegt að tal og mynd fari saman. 

Ekki hika við að byggja undir þitt líf og taka þér hlé frá stefnumótum. 

Gangi þér alltaf sem best. 

Kveðja, Elínrós Líndal. 

Ligg­ur þér eitt­hvað á hjarta? Þú get­ur sent El­ín­rós spurn­ingu HÉR.

mbl.is