Ertu í umgengni við andlega aðþrengdan aðila?

Linda Baldvinsdóttir markþjálfi hjá Manngildi.
Linda Baldvinsdóttir markþjálfi hjá Manngildi. mbl.is/Árni Sæberg

„Sumir sem við hittum á lífsleiðinni virðist hafa fæðst með tvo eða fleiri persónuleika og þá meina ég að þú sérð varla neitt líkt með þeim karakterum sem þeir sýna í mismunandi aðstæðum, og ég viðurkenni fúslega að ég á svolítið erfitt með að umgangast einstaklinga sem hafa óstöðuga persónuleika eða þessa Jeckyll and Hyde eiginleika,“ segir Linda Baldvinsdóttir markþjálfi hjá Manngildi í sínum nýjasta pistli

Myndin sem þessir blessuðu aðilar sýna í hinum félagstengda heimi er algjörlega á skjön við það sem þeir sýna þegar þeir eru komnir inn í örugga sónið sitte. Eins og í kringum fjölskyldu sína og vini. Því halda svo margir að þeir séu bara æðislegir í alla staði og það verður víst að viðurkennast að oft eru þeir mjög svo sjarmerandi og eru snillingar í að vefja fólki um fingur sér í byrjun kynna a.m.k.

Hvað gerir það samt að verkum að þessar mismunandi hliðar eru á sama einstaklingnum? Finnst þeim sjálfum þeir ekki nægjanlega góðir eins og þeir eru eða eru þeir kannski hræddir við höfnun? Er verið að fela bresti og eða samskiptaleg mynstur sem ekki er hægt að sýna heiminum?

Örugglega eru til margar skýringar á þessu en ein af skýringunum getur tengst narssisma og eða öðrum persónuleikaröskunum. 

Hafa ber í huga að einkenni þurfa að vera orðin mjög alvarleg til að flokkast undir persónuleikaraskanir en einkennin geta þó dansað línudans einhverstaðar á jaðrinum eða haft óvenju sterka fylgni við ákveðnar tegundir þeirra.

Ég hef í gegnum árin kynnt mér töluvert mikið birtingamyndir þessara mynstra og það má finna ýmislegt fróðlegt um þessi málefni á veraldavefnum ef þú leitar vel (passa þó áreiðanleika heimildanna).

Ég ætla hér að nefna nokkur atriði sem oft er minnst á þegar talað er um narsisstana þar sem ég hef kynnt mér þá. Ég held reyndar að við höfum öll einverja smá fylgni við þessar lýsingar þannig að förum varlega í greiningar okkar og látum eingöngu fagmenn sjá um þær.

Það eru til mörg undirheiti yfir narsissta, en sagt er að þeir eigi það allir sameiginlegt að vera haldnir mikilli stjórnunarþörf og lítilli samkennd því að allt snýst um þá og þeirra stóra og mikla sjálf. Þeir einstaklingar sem eru í hirð þeirra (vináttu, fjölskyldu og svo framvegis) eru í rauninni í þeirra augum einungis þjónar sem uppfylla eiga þarfir þeirra og eru þar með næringin sem þeir þurfa á að halda á hverju sviði fyrir sig.

Hinir sjálfhverfu eru oft frábærlega hæfir í félagslegum aðstæðum eins og áður er getið og þar vilja þeir sýna hversu grandios og flottir þeir eru. Í þeim aðstæðum kunna þeir svo sannarlega að sýna þær hliðar sem þeir vita að öðrum líkar við og heillast að.

Hinsvegar þegar þeir eru á heimavelli sýna þeir allt aðrar og verri hliðar sem reynast hjörtum þeirra sem þá elska miklir skaðvaldar.

Þar sem þeir þurfa ekki að passa sig eru þeir afar stjórnsamir og vita fátt skemmtilegra en að leika „Gotcha“ leikinn (náði þér). Þeir þrífast á rifrildum og því að gera lítið úr þeim sem eru í návist þeirra með ýmiskonar athugasemdum, hæðni, niðurrifi og fleiru. Þeir fylgjast gjarnan með hverju skrefi þeirra sem þeir eru í sambandi við og kveikja á skammartilfinningu og sektarkennd þeirra af og til. Þeir koma einnig hlutum þannig fyrir að þeir sem eru fórnarlömb þeirra taka á sig sök á því sem sagt var og eða gert og tipla á tánum í kringum þá til að halda þeim góðum.

Rifrildi þeirra geta oft orðið heiftug þar sem narsisstinn (líklega einnig aðrar raskanir orðnar tengdar sjálfslægninni) hlustar ekki á nein rök sem fram eru færð og hann er ekki tilbúinn til að leyfa þér undir nokkrum kringumstæðum að vinna „leikinn“ sem hann er í. Hann heldur áfram að ýta á alla takka sem fyrirfinnast þar til að hann hefur náð leikfélaganum (þér) á staði reiðinnar eða þann stað þar sem sem Leikfélaginn (þú) verður ekki ánægður með þig né viðbrögð þín og þá hefur leikstjórnandinn náð þessu „Gotcha“ augnabliki og er ánægður - sigurinn er unninn (köttur og mús).

Narsisstarnir eru þrjóskir, ósveigjanlegir, fastir í farinu og stoppa ekki fyrr en þú skilur hvað það er sem þeir vilja ná fram. Þeir nota til þess fjölbreyttar aðferðir eins og reiði, þagnir eða niðurlæginu þar til þú skilur hvað það er sem þeir vilja.

úÞ mátt ekki hafa þínar þarfir eða setja þín mörk því að narsisstanum finnst einfaldlega ekki við hæfi að þú hafir mörk og langanir. Hann sér yfirleitt einungis sínar eigin þarfir og lætur þig vita af óánægju sinni þegar þú ferð fram á eitthvað og skilur ekkert í frekjunni í þér. Fyrir frekjuna refsar hann þér með fjölbreyttum aðferðum sem fá þig til að skilja að þú átt ekki eftir að fá þínum þörfum mætt enda átt þú ekki að hafa þarfir umfram þær sem hann vill að þú hafir eins og áður hefur komið fram.

Viðhorf þeirra er gjarnan „Ég er æðri öðrum og mjög sérstakur einstaklingur og það krefst þess að aðrir komi fram við mig af tilhlýðilegri virðingu.“ Og þeir sem ekki koma fram við þá með þeim hætti fá að kenna á því. 

Þeir vilja vera í stjórnunarstöðum á vinnustaðnum, vinahópnum og heima hjá sér því að þeir eru betur til þess fallnir en aðrir í eigin huga að stjórna og þeir setja þig reglulega á þann stað sem þeir vilja hafa þig á sem er yfirleitt langt fyrir neðan þá sjálfa.

Ef það sem þú segir hentar þeim ekki þá munu þeir ekki hlusta á neinar fortölur né rök hvort sem þær eru byggðar á staðreyndum eða ekki (þeim er illa við annarra staðreyndir og sannanir).

Þeir undirförlu í narsisstahópnum vilja gjarnan hafa það þannig að allt líti vel út í frá þó að allt sé í kalda kolum. Undir þetta fellur að þeir vilja eiga flotta og fullkomna fjölskyldu, vini og störf og þeir gera allt til að hylja það sem aflaga fer í lífi þeirra.

Þeir leika einnig gjarnan fórnarlömb með tilheyrandi fýlu og þöggun, draga sig jafnvel kynferðislega í hlé ef þeir eru í hjónabandi og nota það sem refsingu ef þú ert ekki eins og þeir vilja hafa þig (bæði konur og menn). Þeir tala stundum um þig í vorkunnartóni við vini sína til að réttlæta sjálfa sig og fyrra sig ábyrgð og dreifa um þig sögum - sönnum og ósönnum.

Þegar stjórnlaus reiðin tekur svo völd taka við niðurlægjandi sóðalegar athugasemdir og rök þín og mörk hvergi virt.

Gjarnan vilja þeir láta þig bera ábyrgð á þessum ágreiningum og stöðugu rifrildum með því að segja að ef þú værir ekki með kröfur og þarfir yrðu engin rifrildi.

Narsisstinn hefur þörf fyrir að litið sé upp til hans eins og áður kom fram en hin hliðin á peningnum er þó sú að hann hefur mikla fyrirlitningu á sjálfum sér og setur sig fyrir neðan flesta þegar hann er á þeim stað og finnst hann einskis virði. Hann sveiflast á milli þessara tilfinningaöfga í báðar áttir og þeir sem eru í kringum hann á persónulegum grunni fá að uppfylla þörf hans fyrir upplifun á báðum þessara hliða.

Hann er mjög viðkvæmur fyrir sárum þeim sem myndast innra með honum ef hann fær ekki allt sem hann vill fá (Narsisstic injuryog ef þú stendur í vegi fyrir honum með mörkum þínum og neitar honum um eitthvað  þá grípur hann svo sannarlega til sinna alþekktu varnarviðbragða og „Gotcha“ leiks.

Við þær aðstæður kemur hans innsti kjarni vel í ljós ásamt öfgafullu viðbrögðum hans sem þú skilur líklega ekkert í hvaðan spruttu.

Þau eru tilkomin vegna þess að þið getið ekki átt eðlilegar samræður um ágreiningsefni ykkar og særindi hans verða að uppþoti í flestum tilfellum. Hann virðist ekki geta rætt hlutina eins og fólk venjulega gerir í góðum samskiptum þar sem lausnir eru fundnar sem gagnast báðum aðilum eða þar sem aðilarnir eru teymi en ekki tvær andstæðar fylkingar.

Alvarlegri og sem betur fer líklega mun sjaldgæfari persónugerð narsisstans er einstaklingur fullur haturs og innbyggðrar reiði sem þarfnast útrásar með ofbeldi og framkomu sem er afar niðurlægjandi virðingalaus og óvinsamleg, allt eftir alvarleika reiðinnar og sársaukastigsins sem viðkomandi upplifir.

Á þessum sáru stundum kalla þeir þig öllum illum nöfnum og það hefur líklega aldrei fæðst önnur eins óþverra manneskja og þú og það er þitt hlutverk að koma sársauka þeirra í lag. Orð eins og að þú sért vond manneskja, illgjörn/gjarn, ekki nóg af einhverju en of mikið að öðru eru algeng vopn þegar þeir eru í þessum ham. Síðan draga þeir sig fyrirlitlega í hlé í heilagri reiði sinni og eru þar jafnvel í marga daga og stundum jafnvel vikur eða mánuði. Líklega talar Narsisstinn ekki við þig fyrr en að ÞÚ biðst afsökunar til að beygja þig enn frekar undir vald sitt (sem var upphaflega markmiðið með framkomunni hvort sem var). 

Þeir eru semsagt í litlu jafnvægi og mjög óþroskaðir tilfinningalega séð og geta ekki átt samræður um tilfinningar, nánd né þarfir annarra aðila en þeirra eigin.

En það sem þeir í raun eru að segja er að „ég get ekki lifað eins og venjulegt fólk gerir“ vegna þess að ég þarf að hafa stjórn á allt og öllum til að öryggiskassinn minn virki. 

Þeir lifa utan frá en ekki innanfrá og þess vegna verður til þessi falska sjálfsmynd sem þeir hafa síðan ekki persónuleika til að standa undir.

Mundu bara að ef þú ert í samskiptum við fólk sem sýnir þessi einkenni ert þú ekki brjálaða manneskjan í samskiptunum þó að þér líði stundum þannig. Láttu ekki draga þig inn í þessi rifrildi sem virðast veita þessum aðilum undarlega mikla næringu - þú munt alltaf tapa hvort sem er. Ein af uppáhalds aðferðum þeirra er nefnilega sú að láta þig efast um geðheilsu þína eins og með því að segja þér að þú sért að misskilja allt, heyra vitlaust og að þú sjáir ekki það sem þú sérð (Gaslightning).

Þessir aðilar draga það versta fram í þér og þú þarft að þekkja merkin til að geta forðast þá og kannski tekst þér það aldrei fullkomlega þar sem þeir eru yfirleitt afar góðir leikarar og lygarar. Taktu ekki heldur neinum af þessum árásum þeirra persónulega. Þú ert bara í hlutverkaleik andlega aðþrengds aðila og ert ekki raunveruleg manneskja í þeirra augum, ert ekki einstaklingur með þínar eigin þarfir heldur strengjabrúða í þeirra eigingjörnu sjálfhverfu veröld.

Hann er eins og lítið barn sem öskrar af frekju en getur þó verið svo ljúft þess á milli.

Munurinn á honum og börnunum er þó sá að félagslega tengjast börn öðrum börnum með tímanum og geta tekið tillit til þeirra. Það gera þessir aðilar ekki þar sem þeir trúa því enn að þetta snúist allt um þá og þeirra eigingjörnu tilvist að öllu leiti.

Þeirra þarfir og þeirra langanir - ekki þínar.

Ég gæti líklega skrifað heila bók um allt það sem ég hef lesið og hlustað á um þessi mynstur í allri sinni brengluðu mynd en ætla að stoppa hér. 

Ég veit hversu skaðleg þessi mynstur geta verið heill okkar og hamingju og ég veit að við eigum aldrei að láta bjóða okkur framkomu sem er ekki af virðingaverðum og velviljuðum toga, eigum semsagt einungis að vera þar sem okkur líður vel og með þeim sem auka við gæði lífs okkar.

Hér fyrir neðan er smá tékklisti þar sem þú getur skoðað örfáar af þeim aðferðum sem þessir aðilar beita og gefðu þér síðan stig frá 0 til 10 eftir tíðni og alvarleika atriðanna.

  1. Yfirdrifin stríðni (Gagnrýni sem yfirbreiðsla yfir útásetningar)____
  2. Beita samkennd einungis til að ná athygli þinni um stund ___
  3. Tala þig í kaf þannig að þú neyðist til að hækka röddina eða verða reiður___
  4. Einangrar þig frá öðrum (fjölskyldu,vinum og félagsstarfi)___
  5. Gera lítið úr styrkleikum þínum og leggja áherslu á veikleika þína ___
  6. Þríhyrningsleikur (Fær sér leynda bandamenn gegn þér) ___
  7. Passive-aggressive hegðun eða áberandi grimmd ___
  8. Hegðun af ýmsum toga sem er þó einungis beitt til að koma þér í uppnám____
  9. Ásakanir___
  10. Ótti, skylda og samviskubit (Tilfinningaleg mútun)___
  11. Ástarjátningar eða skyndileg yfirþyrmandi athygli, hrós eða aðrar ástarsprengju aðferðir þegar þú fjarlægir þig þeim, einungis til að vera síðan sett/ur út í horn stuttu á eftir. ___
  12. Hlusta ekki á þig eða gera lítið úr afrekum þínum ___

Ef þú kannast við mörg af þessum atriðum og varst nálægt tíunni oftar en ekki, þá er tími til kominn að gera eitthvað alvarlegt í málunum og það ekki seinna en í gær. Eins ef þú kannast við eitthvað af efni þessarar greinar þá skaltu leita þér aðstoðar fagaðila til að meta stöðu þína (hvort sem þú ert gerandinn eða fórnarlambið) og alls ekki bíða með það þar sem andleg heilsa þín og jafnvel sú líkamlega gæti verið í húfi.

Og eins og alltaf, þá er ég bara einni tímapöntun í burtu ef þú telur að ég geti aðstoðað þig við verkefni lífsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál