„Við skiptum út nánast öllu heima fyrir jólin“

Þóra Valný er með skemmtilegar hefðir þegar kemur að jólunum.
Þóra Valný er með skemmtilegar hefðir þegar kemur að jólunum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þóra Valný Yngvadóttir athafnakona er ein mesta áhugamanneskja um jólin sem fyrirfinnst að mati vina hennar og ættingja. Fyrir jólin fer allt út úr húsinu nema tvö málverk sem fá að vera á sínum stað. Hún gerði 360 sörur á fjórum klukkustundum með systur sinni í aðdraganda jólanna þar sem dúndrandi jólatónlist og skemmtilegheit voru í hávegum höfð. 

„Árið 2020 hefur verið mikið breytingaár og ég hef notið þess að eiga meiri tíma fyrir mig, áhugamálin og að kortleggja framtíðina. Ég er núna að ljúka framhaldsnámi í markþjálfun hjá Profectus og stefni á að halda áfram að markþjálfa og halda mannbætandi námskeið. Ég lauk 1. stigi í markþjálfun árið 2014 og get með sanni sagt að það sé eitt gagnlegasta nám sem ég hef farið í. Markþjálfun snýst um að bera fulla virðingu fyrir viðmælandanum og hlusta og spyrja spurninga, frekar en að segja honum hvað hann á að gera. Þessi samskiptahæfni hefur nýst mér vel og ég hef haldið mörg námskeið þar sem þetta er haft að leiðarljósi.

Framhaldsnámið reyndist viðameira en ég hafði haldið og hefur það komið mér mjög gleðilega á óvart, ég er alsæl með hvað það hefur kennt mér mikið og ég er hlaðin nýjum verkfærum sem munu nýtast mér um ókomna tíð. Ég er þessa dagana að setja upp dagskrána fyrir nýtt ár af námskeiðum og markþjálfun. Ég er með námskeið í lífsstílsbreytingum, persónulegri stefnumótun og einnig nokkur heilsutengd námskeið, þar má sérstaklega nefna fjárhagslega heilsu. Ég er lærður fjármálaráðgjafi og eitt af því fyrsta sem ég tók eftir þegar ég var að hitta viðskiptavini var vanmáttartilfinning þeirra gagnvart fjármunum sínum. Það er mikilvægt að bæta úr því; vanmáttartilfinning er slæm fyrir sjálfsmynd okkar og fjármálin eru eitt af lykilatriðunum í vellíðan okkar. Við höfum langflest mikið fyrir því að afla fjármuna og því er mikilvægt að við séum með verkfæri og þekkingu til að ráðstafa peningum þannig að þeir þjóni okkur sem allra best. Á öllum námskeiðum sem ég held vil ég vinna með það markmið sem þátttakandinn setur sér, þannig að hann fái sem mest út úr námskeiðinu og námskeiðið færi honum varanlegar framfarir í hans lífi.“

Þóra Valný er ein mesta jólakona landsins.
Þóra Valný er ein mesta jólakona landsins. Kristinn Magnússon

Skreytingarnar úti fara upp í október

Þóra Valný byrjar vanalega að skreyta inni hjá sér í nóvember og að markmiðið sé alltaf að vera búin að skreyta allt fyrir fyrsta dag aðventunnar. 

„Við skiptum út nánast öllu í húsinu fyrir jólin. Við pökkum niður flestum styttum, kertastjökum og því sem er uppi við venjulega, einnig pökkum við niður flestum myndum nema tveimur málverkum sem náðarsamlegast fá að vera á sínum stað. Það er mikið tilstand og allt úti um allt þegar verið að taka jólaskraut upp úr kössum og pakka niður venjulega dótinu. Einnig erum við með nokkur borð sem eingöngu eru notuð um jólin til að setja á jólaskraut og því þarf svolítið að endurraða heimilinu. Þetta er heilmikil aðgerð sem tekur yfirleitt heila helgi með tilheyrandi jólatónlist og gleði. Við endum þó oft á að ákveða að við ætlum að gera aðeins minna á næsta ári, en svo verður auðvitað ekkert úr því.“

Vetrarljós fjölskyldunnar fara vanalega upp í október. 

„Það eru ljósin utan á húsið og í gluggana. Við leyfum þeim líka að vera þar til versta skammdeginu lýkur, svona fram í mars eða þar til við erum farin að vakna í björtu. Ég er alltaf að vinna í að fá sem flesta með mér í þetta því það er svo dimmt á landinu okkar góða. Þá skiptir engu hvort ljósin séu í lit eða hvít, raunar má segja að það sé bara enn betra að leyfa litríku ljósunum að vera áfram. Því litríkara því betra. Það lífgar upp á fyrir okkur öll og dregur úr líkum á leiða á þessum dimmasta tíma ársins.

Mér finnst mikilvægt að hafa nægan tíma til að njóta á aðventunni og reyna að hitta eins mikið af vinum og vandamönnum og mögulegt er til að eiga góða stund saman í jólagleði. Þá er svo gott að vera búin að kaupa flestar gjafirnar og skreyta allt, svo hægt sé að slaka og njóta. Ég baka bara eina sort og það eru sörur. Ég og systir mín eigum alltaf saman skemmtilega kvöldstund þar sem við bökum margfalda uppskrift, njótum þess að vera bara tvær, spjöllum og fíflumst. Dúndrum jólatónlist á, setjum í gang færiband og gerum frá upphafi til enda á einu kvöldi. Í ár gerðum við 360 sörur á fjórum klukkustundum en aðalmálið er að á meðan eigum við innilega gæðasystrastund.

Ég kaupi jólagjafirnar allt árið og geymi í „gjafaskápnum“. Þegar fer að hausta fer ég yfir skápinn og skrái hjá mér hvað vantar. Ég held skrá yfir jólagjafirnar í excel og get því séð hvað ég gaf viðkomandi síðastliðin fimm ár og reyni að hafa þetta ekki alltaf það sama. Ég er ekki mjög stórtæk í jólagjöfum. Ég er alin upp við að það er hugurinn sem skiptir máli. Nú orðið reyni ég að hafa þetta eitthvað sem fólk getur neytt eða nýtt, bara eitthvað lítið og sætt til að gleðja þá sem mér þykir vænt um.“

Þóra Valný hefur safnað jólaskrauti í mörg ár.
Þóra Valný hefur safnað jólaskrauti í mörg ár. mbl.is/Kristinn Magnússon

Alin upp við látlausari skreytingar en hún er með núna

Hvað gerir það að verkum að þú elskar jólin svona mikið?

„Fyrstu æviárin ólst ég upp í sveit fyrir norðan og það var ekki mikið um óþarfa dags daglega. Þegar jólin komu lifnaði yfir öllu; það var sett upp smá litríkt jólaskraut innandyra, svo fengum við krakkarnir að skreyta fjárhúsin með þessu líka fína jólaskrauti sem voru reyndar bara afrifur af jólapappír sem við hengdum á nagla á görðunum í fjárhúsinu. Ég vil helst ekki segja frá því, því þá hljóma ég svo forn, en það kom ekki rafmagn í minni sveit fyrr en árið 1971 og þá var ég orðin fimm ára, svo að ekki voru jólaljósin til að skemmta sér yfir. Eitt var samt alltaf gert og það var að skreyta loftin, þá voru settir jólastrengir, litríkir mjög, og strengt þvers og kruss um loftin. Þetta fannst mér æðislegt og horfði heilluð á litadýrðina. Þannig elst ég upp við að gera mikið úr jólunum. Mamma var mikið jólabarn. Okkar bestu stundir saman voru þegar við vorum að jólast eitthvað saman, búa til jólaskreytingar og skemmta okkur yfir alls konar jóladóti.“

Áttu mikið af jóladóti og kaupir þú þér skraut árlega?

„Það er óhætt að segja að það sé slatti til. Kassarnir fylla eitt háaloft og svo er mikil fyrirferð í stóru hlutunum sem fara í garðinn. Maðurinn minn sér um utanhússskreytingarnar og metnaður hans eykst með ári hverju. Hann á það til að fara á janúarútsölurnar og síðan á næstu jólum birtist eitthvað nýtt í garðinum sem hann keypti alveg „óvart“.

Eina sem er fast að fá nýtt á hverju ári er jólastjarnan sem ég fæ yfirleitt í afmælisgjöf í nóvember og einmitt ræsir jólastússið af stað. Annars erum við að reyna að vera ekki að bæta miklu við því nú finnst mér öll pláss á heimilinu vera orðin fallega skreytt, þannig að þetta er orðið nokkuð gott.

Nýrri kynslóðir er miklu mínimalískari í þessu og það verður fjör þegar ég fer á elliheimilið og fer að reyna að koma jóladótinu mínu út á unga fólkið. Þau munu væntanlega flýja land til að sleppa.“

Að sjálfsögðu eru fallegar jólagardínur í eldhúsinu.
Að sjálfsögðu eru fallegar jólagardínur í eldhúsinu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hvað getur þú sagt mér um uppáhaldsjólaskrautið þitt?

„Það er erfitt að gera upp á milli. Ég hef voða gaman af þessu öllu. Mér finnst jólaþorp af öllum stærðum og gerðum ægilega skemmtileg, líka alls konar jólasveinar. Mér finnst líka alltaf gaman að sjá gamalt og snjáð jólaskraut sem á sér mikla sögu.

Einna helst held ég upp á jólaskraut sem tengist foreldrum mínum sem eru bæði fallin frá. Pabbi gaf okkur öllum systkinunum afar sérstakt jólahús fyrir mörgum árum, eiginlega áður en ég fór að búa, og það hefur alltaf fylgt mér. Einnig gaf mamma okkur systkinunum eins jólakirkju. Þetta var mjög vinsælt og ég man sérstaklega að hún fékkst í Miklagarði. Það er svo langt síðan! Þetta er svona ekta gamaldags kirkja með rauðu þaki, kirkjuturni og ljósi, ég skreyti síðan í kringum hana með trjám, snjó og styttum af börnum að leik.“

Heldur í þá hefð að hafa jóladag mjög afslappaðan

Getur þú sagt mér frá áhugaverðum jólahefðum?

„Ein skemmtileg jólahefð sem ég hafði þegar ég bjó ein var að eiga mjög huggulegan dag á jóladag. Mér finnst svakalega gaman að sýsla í mat og elska að gera smárétti. Þannig að ég bjó mér til lítið borð af uppáhaldsjólasmáréttunum mínum. Þarna mátti finna hreindýrapaté með sultu, hráskinkusalat með melónu, reyktan lax með rjómaþeyttri eggjahræru, kalt hangikjöt með laufabrauði, ostafylltar tartalettur, kaldan hamborgarhrygg með eplasalati, ris a l'amande, enskt ávaxtapæ með vanillusósu og alls konar. Þetta var auðvitað mismunandi frá ári til árs, en fólki fannst þetta mjög furðulegt. Ég læt það ekkert á mig fá, eins og einhleypir megi ekki líka borða góðan mat! Ég vann mikið á þessum tíma, var sjaldan heima hjá mér og ég bara naut þess að vera þennan eina dag heima hjá mér innan um jóladýrðina, stússa í eldhúsinu, eiga fullkomlega rólegan dag, lesa bók, horfa á þátt og narta í góðgætið þess á milli.

Núna eigum við Júlli rólegan dag saman. Við erum ekki með hlaðborð samt en förum út í göngutúr ef það er fallegt veður, heilsum upp á ættingja og plötum einhvern til að bjóða okkur í hefðbundið jóladagshangikjöt. Mér þykir svakalega vænt um jólahefðir og finnst mikilvægt að hafa þær í heiðri, en jafnmikilvægt að endurskoða þær. Þannig að ef eitthvað er orðið íþyngjandi og farið að valda stressi er um að gera að leita nýrra leiða.“

Skrautið er dásamlega fallegt.
Skrautið er dásamlega fallegt. Kristinn Magnússon

Hvað telur þú skipta mestu máli á jólunum á tímum kórónuveirunnar?

„Þakklæti er mér efst í huga á hverjum jólum en samt aldrei eins og nú. Þetta hefur sannarlega verið áhugavert ár. Fyrir okkur öll hefur reynt næstum daglega á hæfni sem venjulega reynir á bara endrum og sinnum, eins og seiglu og þrautseigju. Ég hélt ekki að í okkar líftíma kæmi svona tímabil þar sem við yrðum svona frelsissvipt og þetta hefur svo sannarlega eflt okkur í að vera lausnamiðuð, umburðarlynd og æðrulaus. Það sem við töldum sjálfsagt, eins og að hitta vinkonurnar í saumaklúbbum, halda matarboð, heimsækja frænku, fara á tónleika og allt þess háttar, er núna ekki lengur sjálfsagt og því öðlast þetta allt svo miklu meira mikilvægi og við verðum þakklát fyrir það sem við þó höfum.

Á hverjum vetri þegar það er passlega að verða óbærilega kalt og dimmt, þá koma jólin. Ljósið sigrar myrkrið, gefur okkur nýja von og fleytir okkur í gegnum þennan dimma tíma. Á þessu ári er sérstaklega dimmt yfir öllu og því þurfum við enn meira en nokkru sinni fyrr þann gleðigjafa sem jólin eru. Til að komast út úr kórónuveiru-hugsuninni, inn í jólastemninguna og fylla okkur af jólagleði.

Allar rannsóknir hafa sýnt að það er satt máltækið um að það er sælla að gefa en þiggja og því eru jólin einnig sá tími sem allir láta af hendi rakna það sem þeir geta til þeirra sem verr eru staddir. Þetta er eitt af því sem skiptir mestu máli þetta árið og öll gerum við það sem við getum til að gæta að þeim sem standa höllum fæti.

Þetta eru jól þakklætisins. Það verður rólegt hjá öllum, við höfum því nægan tíma til að slaka og njóta. Þar sem við horfum á ástvinina sem við eigum, lífið sem höfum, lítum í kringum okkur, stöldrum við, njótum og erum þakklát.“

Getum gert margt áhugavert við nýja kunnáttu á liðnu ári

Hvað er þér efst í huga þegar árinu er að ljúka og nýtt ár að ganga í garð?

„Nýjar leiðir er það við höfum lært svo mikið á þessu ári. Þessar þvinguðu breytingar koma róti á huga okkar og við förum að hugsa hlutina upp á nýtt, ekki bara það sem við neyðumst til að finna nýjar leiðir í heldur líka allt annað. Þannig opnast hugurinn og við förum allt í einu að skoða það sem ekki hefur áður verið skoðað en hefur kannski legið á okkur eða okkur hefur lengi langað að breyta. Núna virðist allt í einu minna erfitt að gera breytingar, því við höfum upplifað svo miklar breytingar og sjáum að við getum þetta. Við getum tekist á við mótlæti og nýtt það okkur til framfara.

Mér verður sérstaklega hugsað til unga fólksins okkar sem hefur þurft að þola hundleiðinlega tíma, hefur hlakkað til að byrja í framhaldsskóla og situr svo bara heima fyrir framan tölvu og fleira í þeim dúr. Þau hafa einmitt sýnt hvernig maður breytir erfiðleikum í tækifæri og fiundið alls konar nýjar leiðir, þróað ný hlaðvörp og forrit og gert alls konar sniðugt. Þau hafa líka þurft að sætta sig við eitthvað sem verður ekki breytt, eins og að sitja ein uppi í sumarbústað í fimm daga. Fyrir ári hefði þetta verið óhugsandi, núna bara geta þau þetta og eru með þannig viðhorf. Þetta færir þeim nýja hæfni og þroska sem mun endast þeim alla ævi og gerir þau sterkari og klárari að takast á við áskornir lífsins.

Þetta ár hefur verið erfitt fyrir alla, fært mikið af erfiðleikum og mörgum mikla sorg. Á nýju ári hefst uppbygging eftir náttúruhamfarir og líka í huga okkar allra. Hvernig ætlum við að nýta þetta rót sem komið er á okkur? Hvernig ætlum við að nýta þessa hæfni sem við höfum öðlast á þessu ári? Hvernig viltu nota það sem þú nú kannt til að gera líf þitt betra og hverju viltu breyta? Því nú vitum við að við getum.“

Jólaveröld sem dregur fram góða tilfinningu.
Jólaveröld sem dregur fram góða tilfinningu. mbl.is/Kristinn Magnússon
Stólarnir í borðstofunni eru í jólabúning.
Stólarnir í borðstofunni eru í jólabúning. mbl.is/Kristinn Magnússon
Jólin verða skemmtilegri með fallegu skrauti.
Jólin verða skemmtilegri með fallegu skrauti. mbl.is/Kristinn Magnússon
Þóra Valný tekur niður allt í húsinu og setur fall …
Þóra Valný tekur niður allt í húsinu og setur fall skraut í staðinn á jólunum. mbl.is/Kristinn Magnússon
Ef jólasveinninn stoppar ekki fyrir utan heimili Þóru Valnýar þá …
Ef jólasveinninn stoppar ekki fyrir utan heimili Þóru Valnýar þá þarf hann að kaupa sér ný gleraugu. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

félags- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál