„Maðurinn minn er með fíkn í að daðra á netinu“

Það er alltaf mikið áfall að komast að einhverju óvæntu …
Það er alltaf mikið áfall að komast að einhverju óvæntu á kynferðissviðinu í samböndum. mbl.is/Colourbox

El­ín­rós Lín­dal ráðgjafi svar­ar spurn­ing­um les­enda Smart­lands. Hér fær hún spurn­ingu frá konu sem var að komast að því að maðurinn hennar til 14 ára hefur verið að halda fram hjá henni með konum á netinu.  

Efni: Netframhjáhald

Ég er búin að vera með manninum mínum i 14 ár. Við eigum engin börn saman en eigum bæði börn úr fyrri samböndum. Hann er i raun draumaeiginmaður að mörgu leyti. Hann er duglegur á heimilinu, þrífur og eldar mat. Hann er myndarlegur og flottur i þvi sem hann tekur sér fyrir hendur. Hann elskar mig út af lífinu, vill eyða með mér öllum stundum, er mikið fyrir faðmlög og knús og líður okkur oftast vel i návist hvors annars. Hann reynir aldrei við konur svo ég viti til eða daðrar við þær þegar við erum saman úti meðal fólks. 

Ég komst að þvi fyrir nokkru að i mörg ár hefur hann verið að spjalla/daðra við konur á netinu og talað um kynlif við þær. Ég sá að hann er að skipuleggja hittinga, þau ræða sin á milli hvað þau ætla að gera við hvort annað og lýsa því kynlífi sem þau langar að stunda saman. Ég fékk mikið áfall! Hélt að samband okkar væri svo sérstakt að hann mundi aldrei gera svona. Fannst einhvern veginn virðingin fyrir sambandinu og það sem við höfum okkar á milli hrunið.

Hann segist aldrei hafa hitt neina þeirra, en viðurkennir ákveðna fíkn i að daðra á netinu og tala um kynlíf við konur. Hann segist ætla að hætta þessu og vill gera allt til að bjarga sambandinu. Ég er ekki farin frá honum og er að reyna að gera upp við mig hvort ég get einhvern tímann „sætt mig við“ þetta framhjáhald sem ég kýs að kalla það. Hvað finnst þér? Er þetta sjúklegt ástand hjá honum? Eru þetta kannski viðvörunarbjöllur um að eitthvað meira sé i gangi eða ákveðin siðblinda? À ég að trúa því að hann sé „bara“ að tala við konur? Er ekki hætt við að svona þróist i alvöruhittinga og líkamlegt kynlíf? Hvað getur fólk gert til að læknast af svona fíkn?
Vona að þú getur gefið mér einhver svör. Er bæði sár og veit ekki hvað ég á að gera.

Kær kveðja, X

Elínrós Líndal ráðgjafi.
Elínrós Líndal ráðgjafi. Ljósmynd/Saga Sig

Sælar og takk fyrir bréfið. 

Það er ekkert eðlilegt við það að vera óheiðarlegur við þann sem maður er í sambandi með. 

Það hljómar eins og maðurinn þinn sé í hefðbundnum forðunarhring (e. avoidance circle) þar sem hann er að gera hluti utan sambandsins sem hann réttlætir fyrir sér að sé hegðun til að halda lífi í daglega hlutann sinn. Svona hringir verða verri með árunum ef ekki er að gert og vanalega er margt í gangi sem ekki stenst dagsljósið og gæti komið upp síðar. 

Það getur enginn sérfræðingur greint manninn þinn eftir hefðbundnum DSM-5-staðli nema hann sitji inni hjá sérfræðingi og fari í mat. Eins finnst mér óþarfi að setja stimpil á fólk að það sé siðblindt eða narsasistar, ef það er í virkri fíkn, því um leið og það hættir fíknihring sínum þá getur það farið í flottan bata og losað sig við hegðun sem það skammast sín fyrir eða vil ekki vera að gera. 

Sérfræðingum í ástar- og kynlífsfíkn í Bandaríkjunum hefur ekki gengið eins vel og þeir hefðu viljað að lobbýera fyrir þessum einkennum inn í greiningakerfið – svo menn í virkri fíkn fá oft alls konar greiningar á fyrstu stigum áður en þeir fara í bata. 

En að sjálfsögðu sjáum við andfélagsleg einkenni í hegðun þeirra sem eiga sér svona tvö líf. Það er hins vegar hollt fyrir þig að muna að allir einstaklingar í virkri fíkn ljúga, fyrst að sjálfum sér og svo að öðru fólki. Mjög margir hætta því þegar þeir hafa ákveðið að koma í bata og eiga skilið hamingjuna sem lífið býður þeim. 

Það getur enginn sagt þér hvað þú átt að gera núna, en það sem ég myndi ráðleggja þér að gera er að reyna að fá sem raunhæfustu mynd af því sem hefur verið í gangi og í það minnsta heimsækja kvensjúkdómalæknirinn þinn og fara í próf hjá honum. Sér í lagi ef þú hefur enga sönnun fyrir því að maðurinn þinn hafi ekki gert það sem hann talar um að gera með þessum konum, við þær. 

Ég er á því að líkami þinn gæti vitað hvað hann hefur verið að gera og sjálfsagt eru fleiri vísbendingar en þú heldur og rauð flögg allt frá byrjun ef þú leitar með mál þín til sérfræðings og færð lánaða dómgreind þar. Þú gætir verið með verki í bringu eða maga sem gætu farið um leið og þú vinnur í þér sem aðstandandi manns í fíkn. Þessir verkir eru góðir vegvísar á heiðarleika fólks í kringum þig í framtíðinni. Líkaminn geymir áföllin okkar nema að við vinnum í því að losa okkur við það. Konur í bata frá meðvirkni á þessu sviði tala um að þær finni um leið og eitthvað er farið af stað aftur hjá mönnunum sínum, á líkamanum. Þær tala einnig margar um að hafa átt fjarlæga feður og séu ekki með góðar fyrirmyndir þegar kemur að heilbrigðum samböndum. 

Svo er alltaf bara gott að muna að ástin býr innra með þér en ekki í öðru fólki. Af öllum mönnum sem þú getur verið með, viltu vera með manni sem hefur áhuga á kynlífi með öðrum konum? Ef hann fer í bata verður þetta alltaf hegðunin sem hann setur í botnhegðun, þráhyggjan sem honum langar í þegar hann verður þreyttur, stressaður eða eitthvað er í gangi hjá honum. Svona bara til að raunveruleikatengja þig. 

Menn í bata taka ábyrgð, átta sig á skaðanum sem þeir hafa valdið sjálfum sér og verða vanalega góðar manneskjur sem vilja sjálfum sér allt hið besta. 

Við sem vinnum með svona einstaklinga vitum að þó að hegðunin sé í ást og kynlífi, þá er undirliggjandi ástæða þess áföll, tengslavandi, skortur á sjálfstrausti og stundum aðrar hliðarfíknir sem skerða dómgreindina. 

Ég er að fara að setja af stað lítinn kvennahóp nú eftir áramótin fyrir konur til að ná sér eftir áföll á þessu sviði. Því mér finnst styrkja konur að vinna úr svona áföllum í hópi með öðrum konum sem hafa upplifað hið sama. 

Gangi þér vel að taka ákvörðun fyrir þig og mundu að heilbrigð mörk og ákvarðanir teknar út frá gildum en ekki tilfinningum – getur komið báðum aðilum í góðan bata.

Þú hefur í það minnsta alltaf sambandið við þig – sem getur verið einstakt, fallegt og mjög dýrmætt. Til að skoða gildin þín í þessu sambandi getur þú spurt þig: Ef ég ætti dóttur, myndi ég vilja henni að fara í svona samband? Ef ekki, þá mæli ég með að þú gerir mál úr hlutunum og skoðir leiðir fyrir þig að vernda þig.

Mundu bara að þetta hefur ekkert með þig að gera, svo reyndu að fá þér aðstoð í stað þess að missa tökin á honum. 

Bestu kveðjur, Elínrós Líndal.

Ligg­ur þér eitt­hvað á hjarta? Þú get­ur sent El­ín­rós spurn­ingu HÉR.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál