Önnur festist á Íslandi og hin missti vinnuna

Alda Karen Hjaltalín og Silja Björk Björnsdóttir sendu nýverið frá …
Alda Karen Hjaltalín og Silja Björk Björnsdóttir sendu nýverið frá sér bókina Lífsbiblían. Samsett mynd

Framkvæmdastjórinn og fyrirlesarinn Alda Karen Hjaltalín og rithöfundurinn Silja Björk Björnsdóttir sendu nýverið frá sér bókina Lífsbiblíuna. Í bókinni er að finna 50 lífslykla, sögur og leyndarmál sem lesandinn getur lært af og speglað við sinn eigin raunveruleika. 

Það mætti segja að bókin sé einhvers konar afkvæmi heimsfaraldursins því hún hefði ekki orðið að veruleika án hans. Alda hefur búið og starfað í New York í Bandaríkjunum í nokkur ár en festist heima á Íslandi þegar heimsfaraldurinn skall á. Silja missti vinnuna í heimsfaraldrinum og því má segja að örlögin hafi leitt þær vinkonurnar saman ný. 

Alda og Silja eru báðar frá Akureyri og hafa verið vinkonur frá því í æsku en aldrei hefur samband þeirra verið betra og nánara en á meðan þær skrifuðu bókina. 

Í bókinni heldur Alda Karen áfram að miðla reynslu sinni til lesenda og er bókin byggð á LIFE Masterclass-fyrirlestrum Öldu sem hún hefur haldið hér á landi við góðar viðtökur. Silja sá að mestu leyti um að skrifa bókina og segja þær að ritstjórinn á Forlaginu hafi verið forviða þegar þær sögðu frá hugmynd sinni að því hvernig bókin ætti að verða til. Svoleiðis fyrirkomulag þekkist aðeins í ævisögum. Lífsbiblían er þó ekki ævisaga, þó að hún sé líka byggð á dagbókum Öldu Karenar.

Ljósmynd/Aðsend

„Þetta er byggt á fyrirlestrunum, þannig að við tókum allt þetta efni í fyrirlestrunum mínum og úr dagbókunum mínum sem ég hef haldið síðastliðin átta ár, þar sem ég skrifa sögur af fólki sem ég hef kynnst í gegnum tíðina. Við tókum lífslyklana úr öllum fyrirlestrunum og breyttum þeim í sögur og þar kom Silja rosaleg sterk inn. Hún setti þetta fram í sögum þar sem kemur fram mikið af hugmyndum, sjónarhornum, æfingum og hugleiðslum,“ segir Alda. 

Silja er kunnug ritvellinum en hún gaf út sína fyrstu bók á síðasta ári, Vatnið, gríman og geltið. Þá hefur hún lagt sig fram við að opna umræðuna um geðsjúkdóma en hún situr líka í stjórn Geðhjálpar.

Blaðamaður var forvitinn um hvaðan nafnið Lífsbiblían væri komið, því bók sem byggist á eins konar dæmisögum rímar óneitanlega við hina heilögu Biblíu. Lífsbiblía Öldu og Silju er þó ekkert trúarrit. 

„Þetta nafn kemur úr dagbókunum mínum. Þegar ég byrjaði að skrifa dagbók 13 ára gömul hétu allar dagbækurnar mína „Lífsbiblían hennar Öldu“. Ég veit ekkert af hverju. Ég hugsaði þetta bara sem gott skjal til þess að eiga fyrir líf mitt. Ef ég væri týnd þá gæti ég leitað í dagbækurnar mínar og notað þær til að leiðbeina mér. Og hún hefur oft komið að góðum notum,“ segir Alda og bætir við að þær hafi alltaf ætlað að breyta nafninu. 

Þá bætir Silja við að það hafi seinna meir ekki komið neitt annað til greina en að kalla þetta Lífsbiblíuna. „Núna erum við komin með nýtt slagorð: „Næstmest selda Biblían á Íslandi og ekkert tengd upprunalegu Biblíunni“,“ segir Alda.

„Við erum ekki að boða neinn sérstakan boðskap eða lífsspeki. Við erum ekki í neinu svoleiðis,“ segir Alda og bætir við að hún hafi aldrei verið fyrir neitt svoleiðis. Það eina sem hún vill boða er jákvæðni og skemmtilegheit.

Bókina skrifuðu þær með húmor og jákvæðni að leiðarljósi og eru kaflarnir óneitanlega fyndnir á köflum. Sú ákvörðun að hafa húmor að leiðarljósi var þeim báðum eðlislæg en það þótti þeim einnig mikilvægt vegna tímanna sem bókin kemur út á. 

En hvað gerir maður með Lífsbiblíu?

„Þetta er bara eins og lóð í ræktinni, þetta er tæki til sjálfsræktar,“ segir Silja Björk. Líkt og dagbækur Öldu hafa komið henni að góðum notum getur Lífsbiblían hjálpað hverjum þeim sem rekur sig á í lífinu eða fyrir hvern þann sem langar að hlæja hafa gaman og læra meira um lífið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál