Getur þú samþykkt alla menn óháð skoðunum þeirra?

Linda Baldvinsdóttir markþjálfi og samskiptaráðgjafi hjá Manngildi.
Linda Baldvinsdóttir markþjálfi og samskiptaráðgjafi hjá Manngildi. mbl.is/Árni Sæberg

„Hefur þú heyrt söguna af mönnunum sem bundið var fyrir augun á og þeir látnir standa sitthvoru megin við fíl nokkurn? Annar hélt um ranann en hinn var aftan við fílinn og hélt um halann. Þegar þeir voru beðnir um að lýsa því sem þeir upplifðu lýstu þeir að sjálfsögðu sitt hvorum hlutnum þar sem þeir upplifðu fílinn frá sitthvorum endanum en engu að síður var þetta sami fíllinn,“ segir Linda Baldvinsdóttir í sínum nýjasta pistli: 

Er það ekki þannig í lífinu sjálfu þegar við upplifum menn og málefni? Við sjáum þau yfirleitt hvert frá sínu sjónarhorninu allt eftir viðhorfi okkar, menningu og trú.

Börn sem rífast, hjón sem skilja, vinir sem verða ósáttir og jafnvel þeir sem ganga í gegnum sömu atburði eða upplifun í lífinu sjá hlutina á ólíkan máta og margar hliðar geta verið á hverju máli fyrir sig, ekki bara tvær.

Við erum kannski ekki að gera okkur grein fyrir því að í sumum tilfellum erum við ekki endilega að koma frá atburðunum sjálfum heldur jafnvel frá gömlu og ógrónu sárunum okkar innrættum viðhorfum og skiljum orð og framkvæmdir á misjafnan hátt.

Algengt er að við ætlumst til að aðrir líti hlutina sömu augum og við sjálf. Við þekkjum flest aðila sem ætlast til að allir hafi sömu skoðanir og þeir ásamt og þeir ættu að hafa sömu gildi og viðhorf til lífsins alls og allir sem ekki eru sammála þeim eru orðnir að svörnum óvinum þeirra. Eiginlega húmorískt ef ég hugsa um það.

Það sem við erum að eiga við í öllum aðstæðum lífsins er forritun sem hófst við komu okkar hingað á jörðina og veldur þessu ásamt svo mörgu öðru.

Við hefjumst handa strax við fæðingu (og jafnvel fyrr segja sumir) við að mynda viðbrögð okkar við aðstæðum og meta hvað við þurfum að gera til að komast af og skilja heiminn. Við lærum að þegar við grátum nógu hátt sem ungbörn þá er komið með fæðuna til okkar og okkur sýnd allskonar umhyggja sem við nýtum okkur óspart til að fá það sem við viljum á meðan við getum ekki nýtt okkur afl tungumálsins. Við myndum svo okkar fyrstu tengsl á sama tíma við þá sem annast okkur og þau tengsl hafa mikil áhrif á mótun viðhorfa okkar og skilnings á veröldinni.

Á sama tíma hefst innræting þjóðfélagins alls og í okkar tilfelli erum við fædd inn í vestrænt velferðar og lýðræðisríki sem hefur kristni að þjóðtrú. Við erum hvít, vel menntuð þjóð sem höfum kvenréttindi og loftslagsmál í öndvegi og teljum okkur til stórþjóða þó að hér á landi séu aðeins um 370 þúsund manns. Við erum semsagt stórasta þjóð í heimi í eigin augum og teljum að allt reddist alltaf. Við eigum stóra og mikla sögu sem finna má í fornritum okkar og eigum merkt tungumál sem við varðveitum vel. Allt mótar þetta viðhorf okkar og menningarvitund ásamt auðvitað mörgum öðrum þáttum.

En gæti verið að við gætum lært eitthvað nýtt og spennandi af öðrum menningarsamfélögum, trúarhópum og gætum við jafnvel lært eitthvað af þriðja heims ríkjum hvað varðar gleði, nægjusemi og fleira? Gæti verið að víðsýni okkar efldist við það að kynna okkur önnur samfélög og menningu og gæti vitund kærleika okkar til alls heimsins aukist ef við leyfðum okkur að sleppa „vitneskju“ okkar um aðrar þjóðir? Getur verið að það séu þessi forrit samfélagsgerðarinnar hér sem og annars staðar í heiminum varni því að við náum árangri sem ein heild í heimi hér og verði til þess að við náum ekki á stað friðar sátta og samlyndis? 

Eru önnur menningarsamfélög jafn rétthá í okkar vitund og getum við gengið veginn með öllum þeim sem þessa jörð byggja? Getum við búið í sátt með svörtum, hvítum, bláum, gulum og brúnum? Getum við skoðað aðra menningu, trúarbrögð og heimspekirit án þess að fyllast tortryggni, ótta og fordómum? Getum við tekið þessa forrituðu stimpla okkar í burtu og séð okkur sem eitt mannkyn, þar sem við öll höldum á brotum sannleikans um lífið og tilveruna og getum við séð að ef við settum þessi brot öll saman yrði til fallegt mósaíklistaverk þar sem allir fletir flæða án þess að taka pláss hver frá öðrum? 

Ég er nú svo bjartsýn og einföld að ég tel að við gætum þetta ef við bara sæjum að öll erum við allt og allir - semsagt ég er þú og þú ert ég.

Þegar ég næ tökum á þeirri hugsun, hvers vegna ætti ég þá að vilja skaða þig, hæða og fordæma? Og hvers vegna ætti ég ekki að njóta þess að kynnast þér og þínum heimi? Því ætti ég ekki að henda öllum stimplum og njóta þess einfaldlega að kynnast heiminum í öllum hans fallegu og ólíku litbrigðum?

Höft kærleikans eru semsagt að mínu mati þeir stimplar sem við fáum í vöggugjöf og móta viðhorf okkar til manna og málefna og segja okkur hvað sé í lagi og hvað ekki.

Við gerum líklega fáar eða engar athugasemdir við þá stimpla og fáum okkur ekki til að henda þeim út sem væri þó líklegasta leiðin til myndunar friðar, sáttar og hamingju á meðal allra manna. 

Svo þú sem ert ég, og ert að lesa þessa ruglingslegu visku mína - leyfðu þér að skoða þetta aðeins og sjáðu hvort að þessi orð fái samþykki þinnar innri raddar og ef svo er hentu þá út þeim stimplum sem móta fordóma þína og njóttu þess að vera til án þeirra. Lífið verður svo miklu skemmtilegra - lofa því! 

Kærleikur, knús og friður til okkar allra hvort sem við erum hvít eða svört, trúuð eða ótrúuð, konur eða karlar, ung eða gömul, vestræn eða austræn. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál