Dæmir þú annað fólk? Af hverju erum við með fordóma?

Einar Áskelsson.
Einar Áskelsson.

„Frábær spurning! Ég hef heyrt, lesið og þykist vita að fordómar skapist af vanþekkingu og reiði. Reiðri manneskju líður illa og er líklegri til að dæma alla skapaða hluti, sérstaklega það sem virðist snerta viðkomandi beint! Það rímar við mína reynslu,“ segir Einar Áskelsson í sínum nýjasta pistli: 

Frá sumri 2015 þegar einkenni krónískrar áfallastreituröskunnar (Complex Post Traumatic Disorder) voru sem verst, til dagsins í dag, hefur verið dýrmæt kennslustund hvað varðar fordóma og dómhörku.

Sjálfsagt til margar ástæður fyrir að fólk dæmi annað fólk í orði og gjörðum. Mín reynsla er að það fólk sem hefur hæst er fólkið sem líður verst. Ofan á það kemur þekkingaleysi. Það er rannsóknarefni hvers vegna fólk fordæmir náungann án þess að hafa hugmynd um hvað eða hvort eitthvað sé að hjá viðkomandi.

Ég trúi að allt fólk hafi eitthvað gott í sér. Okkur gengur misvel að sýna það. Sumum tekst það alls ekki!

Að vera eða vera ekki með fordóma fyrir veikindum …

Ég hef farið í skurðaðgerðir á fótum, baki og öxlum. Líkamlega veikur. Man ekki annað en mér hafi verið sýndur skilningur. Enginn gagnrýndi hvers lags ræfill ég væri að fara í aðgerð út af liðþófa í hné!

Ég veiktist af fyrrnefndri krónískri áfallastreituröskun með einkennum eins og sjúklegri meðvirkni, ofsakvíða- og hræðslu og höfnunarótta. Ofan í þetta lendi ég í „burn out“ (kulnun)!

Andlega veikur! Hljómar hræðilega.

Ég fékk hjálp frá sálfræðingi. Ekki bæklunarskurðlækni. Engin aðgerð. Engar umbúðir. Haltraði ekki. Sást ekki utan á mér að ég væri veikur. Fékk ég sama skilning? Eh … nei, ég get ekki tekið undir það. Reyndar aldrei upplifað aðra eins dómhörku. Eflaust hafa margir lent í því miklu verra en ég. Mér fannst þetta meira en nóg enda ný reynsla. Sálfræðingurinn bað mig að ímynda mér að ég væri með gifs á báðum fótum upp að mjöðm til að fá mig til að skilja hversu veikur ég væri! Oft óskaði ég þess ég „væri í gifsi“! Taugakerfið í rúst og orkulaus. Gat ekki sannað það en leið eins og ég þyrfti þess!

Er ég sjálfur með fordóma?

Ég hef aldrei talað illa um andlega veikt fólk, en fundið til með því. Í hreinskilni þá hef ég alltaf óskað að lenda ekki í þessum hóp. Fordómar? Já, í raun. Til að vera sanngjarn.

Þegar #égerekkitabú átakið hófst haustið 2015, var stofnaður Facebook-hópurinn „Geðsjúk“. Þrjár stúlkur stóðu að þessu og móðir einnar þeirrar „addaði“ mér í hópinn! Fyrstu viðbrögðin mín voru … bíddu, á ég heima hér? Er ekki geðveikur, er með bara með „röskun“! Ég reyndi m.a.s. að rökstyðja það með því að skrifa status á síðuna. Útskýrði vandlega mína greiningu og spurði hvort ég ætti nokkuð heima hér? Ekki stóð á viðbrögðum. Man ekki betur en stúlkurnar þrjár sem ég nefndi, kommentuðu og buðu mig velkominn og ég væri sannarlega á réttum stað! Ég væri andlega veikur og margir sem létu mig vita að þeir glímdu við sama og ég! Fordómar? Já! Segðu! Skömmin rauk upp! Ja há! Ég fór að hugsa. Maður, líttu þér nær! Nú ertu einn af „þeim“!

Fyrrnefnd móðir hafði fylgst með mér og leiðbeindi mér af umhyggju í rétta átt. Vissi betur en ég. Eigi hún ævinlega þökk fyrir.

Hvernig er að verða fyrir fordómum?

Fyrstu einkenni röskunarinnar brutust út sumarið 2013. Þau jukust jafnt og þétt en þrátt fyrir sársaukafull ofsakvíða- og panikköst var ég í algjörri afneitun. Tilfinningalífið mitt var líkt og í barnæsku. Sjúklega meðvirkur og með sjúklegan ótta við höfnun. Áttaði mig ekki á þessu en meðvirknin og óttinn við höfnun snéru að þáverandi sambýliskonu. Dæmi um ótta við höfnun að ég hafði lýst yfir haustið 2013 að einkennin væru horfin! Þegar þau komu aftur og ágerðust þá stjórnaði óttinn við höfnun mér að ég þorði ekki að segja sambýliskonu minni frá! Ég veit þetta hljómar fáranlega en trúðu mér þetta er raunveruleg upplifun. Að verða hafnað s.s. að hún sliti sambúð sá ég sem það hræðilegasta sem gæti gerst í lífinu. Vítahringur. Meðvirknin blómstraði vegna þessa.

2015 þróuðust einkenni veikindanna hratt. Ofsakvíða- og panikköstin voru sársaukafyllri en orð fá lýst. Sumarið 2015 var martröð í helvíti!

Ég var mjög viðkvæmur fyrir gagnrýni þetta sumar.

Vissi aldrei hvort eða hvað væri að mér. Að verða fyrir harðri gagnrýni var mjög erfitt. Það er hægt að kalla heiðarlegan mann lyginn og óheiðarlegan, nógu lengi til að hann fari að trúa því! Þannig leið mér.

Að missa sjálfstraustið og sjálfsímyndina, sem dæmi, þýddi að ég átti mjög erfitt með að verja mig. Það komu fyrir nokkur dæmi um yfirgengilega dómhörku. Ímyndaðu þér að einhver sé að tala við þig í síma og ásaka þig um eitthvað, sem er rangt, en þú getur ekki varið þig og lætur yfir þig ganga. Af því þú hefur ekki varnir, orku, dug eða þor í að verja þig. Mitt „burn out“ (kulnun) gerðist undir þannig kringumstæðum. Það var vond lífsreynsla.

Þeir sem hafa lent í dómhörku vita best hvernig er að upplifa það. Fyrir öðrum er erfitt að útskýra. Það er stutt í þennan „aumingjakomplex“ hjá fólki. Ef ekkert sést utan á þér, þá er andleg vanlíðan stundum stimpluð sem væl! Ég fékk skilaboð um að „rífa mig upp“ og „taka á honum stóra mínum“ o.s.frv. Oftast meinti fólk ekkert illt en það var erfitt að meðtaka það.

Ég hef fína reynslu í að „rífa mig upp af rassgatinu“ í gegnum tíðina. Núna gat ég það ekki. Að segja einhverjum sem líður illa að „rífa sig upp“ er töluverð dómharka. Það væri t.d. hægt að spyrja viðkomandi hvað veldur vanlíðaninni áður en dómur er felldur? Ég spyr.

Hvað gat ég gert?

Ég varð svo feginn þegar sálfræðingurinn minn hafði greint mig og útskýrt hvað væri að mér. Svo fór ég að hugsa um hvað hafði verið sagt og gert við mig. Öll gremjan og reiðin sem ég hafði hlaðið inn sprakk út. Ég hef aldrei á ævinni orðið eins reiður. Þarna áttaði ég mig á dómhörkunni sem ég hafði setið undir!

Haustið 2019 varð ég á ný fyrir mannorðsskemmandi fordómum. Þá var ég búinnað yfirvinna öll einkenni minnar röskunnar og að undirbúa að halda út í lífið á ný. Að vera saklaus en tekinn af lífi án dóms og laga á samfélagsmiðlum er líklegast það erfiðasta sem ég hef gengið í gegnum. Maður verður varnarlaus. Getur ekkert gert. Þetta hékk yfir mér þar til saksóknari felldi málið niður án þess að setja fyrir dóm. Þarna tók töluverður hópur fólks sig til og fordæmdi mig sem manneskju. Þetta orsakaði bakslag í mínum veikindum sem sannaði að mín áfallastreituröskun er krónísk!

Hvað gat ég gert? Jú, ég hef val ef ég verð fordæmdur. Hljómar eins og einföld klisja. Ég ber ábyrgð á mér en hef enga stjórn á hvað aðrir gera eða segja. Þó mér finnist ég eiga afsökunarbeiðni skilið, er óvíst að ég fái hana. Besta ráðið er að fyrirgefa viðkomandi aðilum. Til að losna við reiðina. Til að láta þessi atvik hætta að stjórna daglegri líðan. Ekki létt og tekur tíma. Hinn aðilinn upplifir jafnvel atburðarás á annan hátt! Þetta var það sem sálfræðingurinn ráðlagði mér.

Ef ég ætlaði mér að ná bata við mínum sjúkdóm þá gæti ég ekki gengið á reiði og gremju. Nauðugur viljugur fór ég að vinna í að fyrirgefa. Náð góðum árangri en er enn að vinna í fyrirgefningunni. Truflar samt ekki mitt daglega líf í dag.

Má ég ráðleggja?

Ef þú heyrir „drastíska“ sögu um einhvern. Hvernig væri að spyrja hvort viðkomandi hafi séð eða heyrt, verið á staðnum og/eða hvernig hann fékk þessar upplýsingar? Að draga ályktun getur nefnilega orðið að rógburði. Rógburður getur skemmt mannorð viðkomandi. Oft nefnt mannorðsmorð. Mannorðsmorð getur því miður leitt til sjálfsmorðs. Gengur sjaldan svo langt en hefur því miður gerst. Hugsaðu áður en þú ályktar í upphafi. Ágæt regla.

Má ég að lokum varpa fram skoðun?

Af fenginni reynslu er dómharka það erfiðasta sem ég hef umborið í fari fólks. Sérstaklega ef fólk upphefur sig á kostnað annarra. Traðkar öðrum um tær. Ég f….. þoli það ekki! Það finnst mér vera hrein mannvonska. Já! Vissulega verður okkur á og gerum svona líkt í ógáti. En … já. Tek fram að þetta er mín skoðun.

Burtu með fordóma! Ágætt að setja sig í spor annarra áður en sleggjunni er reitt til höggs. Prófaðu. Komdu nákvæmlega eins fram við náungann eins og þú vilt að hann komi fram við þig.

mbl.is