„Erum við byrjuð saman eða ekki?“

Vítamíndrottningin Katrín Amni hjá Iceherbs mætti í spjall í Hæ hæ - Ævintýri Helga og Hjálmars á dögunum. Þar var talsvert rætt um deit-markaðinn á Íslandi í dag. Hvernig fólk er að byrja saman – og hvar línan liggur á milli þess að vera að hittast – eða í sambandi.

Katrín gaf ekki mikið fyrir gömlu góðu íslensku leiðina – þar sem pör óðu inn í sambönd á innan við viku: „Þú fórst á djammið, hittir einhvern á laugardegi, komin í bragðaref á miðvikudegi og byrjuð saman yfir vídeóspólu – eina gamla og eina nýja.“

Þegar fólk hefur fullorðnast þá gangi þetta ekki eins upp, sér í lagi þegar börn eru komin í spilið. Það sé þó alls ekki verra, jafnvel betra ef eitthvað er að sögn Katrínar. „Mér finnst geggjað að eiga börn ef þú ert að deita. Það gefur þér „böffer“. Ertu að fara að bjóða börnunum þínum upp á þetta? Mér finnst ótrúlega gott að verða fullorðin og vera á þessum markaði.“

Svo kom upp spurningin hvenær er fólk byrjað saman. „Erum við „exclusive“ eða ekki?“ spyr Katrín. „Sú lína þarf að vera nokkuð skýr. Það er „beisiklí“ hvort viltu byrja með mér eða ekki?“ svarar Helgi. „Þótt þú sért „exclusive“ þarftu ekki að vera „all-in“ í samband. Það er árið 2021 og það má bara vera alls konar,” segir Katrín.

Þáttinn má finna á hlaðvarpsvef mbl.is.

mbl.is