Kvæntist 92 ára konu á dánarbeði hennar: Er hægt að rifta því?

Íslenskur maður er ósáttur við að frænka hans hafi gifst …
Íslenskur maður er ósáttur við að frænka hans hafi gifst manni á dánarbeði sínu. Ljósmynd/Unsplash

Margrét Gunnlaugsdóttir lögmaður á Lögfræðistofu Reykjavíkur svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hún spurningu frá manni 

Sæl. 

Ég er með allsérstaka fyrirspurn. Þannig er með vexti að maður sem starfaði hjá frænku minni (það var 40.ára aldursmunur á þeim) náði að giftast frænku minni á nánast dánardegi hennar. Þá var hún orðin elliær. Hún var barnlaus og skuldlaus en átti nokkuð stóra eign. Frænka mín átti tvær systur og hefðu þær erft hana. Núna virðist vera öllum að óvörum að þessi maður giftist frænku minni (sem virðist með ólíkindum að einhver sýslumaður og vottar hafi skrifað undir svoleiðis samning þar sem frænka mín var orðin elliær 92 ára en það gerðist greinilega bakvið tjöldin). Núna situr þessi maður að óskiptu búi að eign sem nemur um 200 miljónir. Er í alvörunni ekkert hægt að gera til að minnsta kosti vefengja þennan gjörning? Og hvert ættu systurnar að snúa sér ef það væri möguleiki?

Kveðja, 

einn ósáttur. 

Margrét Gunnlaugsdóttir lögmaður á Lögfræðistofu Reykjavíkur.
Margrét Gunnlaugsdóttir lögmaður á Lögfræðistofu Reykjavíkur.

Sæll. 

Lögráða konu er frjálst að giftast hverjum sem hún kýs og að ráðstafa eignum sínum eftir eigin hentugleika.

Hjúskapur verður ekki ógiltur nema á grundvelli ógildingarástæðna sem tilgreindar eru í hjúskaparlögum. Ekki verður séð að þær ástæður eigi við í þessu tilviki og því ekki hægt að vefengja stofnun hjónabandsins.

Ef það leikur grunur á því að frænkan hafi ekki vitað hvað hún var að gera vegna ellisljóleika – og að maðurinn hafi misnotað sér ástand hennar í hagnaðarskyni – fellur sú háttsemi undir auðgunarbrot í skilningi hegningarlaga. Í því sambandi skiptir máli að sýnt sé fram á að konan hafi sannarlega verið vanhæf til að stofna til þeirrar skuldbindingar sem hjúskapur er og að maðurinn hafi haft ásetning til að hagnast með því að stofna til hjúskaparins. Í því tilviki ber að snúa sér til lögreglu og ákæruvalds.

Kveðja, 

Margrét Gunnlaugsdóttir lögmaður. 

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent lögmönnum á Lögfræðistofu Reykjavíkur póst HÉR. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál