Í stöðugum átökum við barnið sitt

Tölvuleikir og samskipti í gegnum netið er eitthvað sem heillar …
Tölvuleikir og samskipti í gegnum netið er eitthvað sem heillar mörg börn núna. mbl.is/Colourbox

El­ín­rós Lín­dal ráðgjafi svar­ar spurn­ing­um les­enda Smart­lands. Hér fær hún spurningu frá foreldri sem er að upplifa nýja áskorun með barnið sitt á tímum kórónuveirunnar. 

Sæl Elínrós,

Eftir endurteknar lokanir og opnanir, fjarkennslu við tölvu, tímabil þar sem mátti ekki æfa íþróttir og félagslíf í lamasessi er 11 ára sonur minn núna hættur að æfa, búinn að missa allan áhuga á náminu og situr þéttingsfast við tölvuskjá við öll tækifæri. Auðvitað reynum við að gera allt til að breyta þessu en hingað til hefur það byggst á vinsamlegum meðmælum og rólegu spjalli frekar en hörðum reglum. Það virðist ekki ætla að virka. Minnstu takmarkanir, til dæmis hvenær má og má ekki vera í tölvunni, leiða til mikilla átaka sem leggjast þungt á alla. Þetta er komið í óefni en ég óttast að það sé ekki hægt að takmarka og þurfi í staðinn að hreinlega loka á tölvuna. Þó er ég ekki viss.

Hvað finnst þér?

Elínrós Líndal, einstaklings- og fjölskylduráðgjafi.
Elínrós Líndal, einstaklings- og fjölskylduráðgjafi. mbl.is/Tinna Magg

Sæl/sæll

Ég vildi byrja á að þakka þér fyrir að senda þessa fyrirspurn til mín. Því hún heyrir undir fag sem ég sérhæfi mig í og er tengt meðvirkni. 

Ég mæli með því fyrir alla foreldra sem eru í vanda með börnin sín að þeir fari í ráðgjöf sjálfir í stað þess að senda barnið strax til fagaðila. Því málin virðast oft leysast þegar foreldrar fá góðan stuðning. Eins er ég á því að enginn getur hjálpað börnum betur en foreldrar þeirra. Það er mín skoðun sem fagaðili og móðir sjálf. 

Að því sögðu langar mig að segja þér hvað ég les út úr bréfinu þínu. 

Kröftug mótmæli og óstýrilát hegðun barna er ekki neikvætt að mínu mati. Mér finnst frekar benda til þess að barnið ykkar er frekar hraust andlega og treystir ykkur fyrir sér. Það finnst mér fallegt og vel gert hjá ykkur að hafa þessa mýkt og færanleika í mörkum á heimilinu. 

Ég held að allir foreldrar séu að fara í gegnum eitthvað svipað og þið eruð að gera núna. Tölvuleikir eru að laða börn til sín, sjónvarpsskjárinn og margt fleira. 

Tilfinningar okkar eru eins og íslenska veðrið. Við getum vaknað hress og kát á morgnana, farið í fýlu, orðið leið og síðan hress aftur. Kröftug viðbrögð eru góð viðbrögð að mínu mati því ég hef reynslu af því hvað það er miklu erfiðara að aðstoða fólk sem sekkur eða lekur í samskiptum við annað fólk. Það er fólkið sem aftengir sig aðstæðum, horfir á sig úr fjarlægð eða frýs.

Ef þú miðar við módel Pia Mellody þá talar hún um hvernig áföll og erfið reynsla æskunnar sem verður fyrir fimm ára aldurinn gerir börn háð, stjórnlaus, aftengd, á floti og algjörlega varnarlaus og vonlaus (e. wounded child). Síðan talar hún um það sem við upplifum í æskunni eftir fimm ára aldurinn (e. Adjusted Adult Child) hvernig við lifum af í fjölskyldukerfinu okkar og aðlögumst aðstæðum svo okkur sé ekki hafnað. Börn geta orðið fullkomna barnið, týnda barnið, svarti sauðurinn eða trúðurinn. 

Það er alveg á hreinu að það er að fara yfir mörk barnsins ykkar að fá ekki að vera í tölvunni allan daginn. Ef ég væri 11 ára og elskaði tölvuna þá væri það sama að gerast hjá mér líka. Það að barnið mótmæli á þennan hátt er bara leiðin sem það fer til að reyna að ná stjórn á aðstæðunum. 

Ef þið setjist niður með barninu ykkar og útskýrið hversu óendanlega dýrmætt það er og hvað er best fyrir það að gera, þá getið þið sett reglur um tölvuna sem miða að virði barnsins. „Af því ég elska þig þá get ég ekki haft þig í tölvunni allan daginn.“ 

Síðan þegar barnið mótmælir þá er bara um að gera að færa sig nær því, ekki fara. Gott er að nota orð eins og já, ég skil þig. Mér þykir þetta leitt. 

Þegar barnið er komið í gegnum tilfinningabylgjuna sína, er gott að hefja samtal um hvað er hægt að gera annað. Með þessu eruð þið ekki að hafna eða fara þó barnið sýni alls konar tilfinningar. Enda bara mjög heilbrigt að verða æstur stundum í lífinu. 

Mín reynsla er sú að ef börn upplifa þetta samþykki þá ná þau hægt og rólega meiri stjórn á tilfinningum sínum og þá mynda þau betri tengsl við annað fólk þegar það verður fullorðið. Það bæði samþykkir alls konar tilfinningar og venst því ekki að fólk fari frá þeim þegar þau verða erfið. Það er einnig gott að kenna börnum að biðjast afsökunar. Það gerum við fullorðafólkið gert með því að taka ábyrgð á því sjálf að vera ekki fullkomin og biðjumst því stundum afsökunar á hlutum sem við gætum gert betur. 

Ég geri svona æfingar reglulega með fullorðnu fólki og er komin í þannig þjálfum með þetta að mér finnst ekki síður skemmtilegt að vinna með æstu fólki en fólki sem sekkur og lokar á aðra. 

Það er alveg eðlilegt að við verðum óróleg í allskonar aðstæðum, en ef þú ferð í djúpa vinnu með þig þá getur þú öðlast ró og frið í allskonar aðstæðum. Börnin okkar eru næmari en nokkur annar á hvernig okkur líður. Ef okkur líður vel í allskonar aðstæðum þó við segjum ekki orð, þá finnst það í návist okkar. Það er oft talað um þetta sem spjall á milli tveggja hægra heilahvela. 

Að öðru og þá tengt skipulagi á tímum kórónuveirunnar. Þegar fyrsta bylgja kom yfir landið þá ákvað ég að mig langaði ekki að hætta að gera hluti sem skiptu mig máli í lífinu. Eitt af því var að sofa átta tíma, borða hollan mat, mæta í vinnuna í átta tíma og að tengja við börnin mín og fólkið sem ég elska mest. 

Ég mæli með að fullorðna fólkið haldi í svona grunntopphegðun sem skiptir máli. Eins mæli ég með að foreldrar geri samninga við börnin sín um að hætta ekki að gera hluti sem skiptu þau máli fyrir veiruna. Íþróttir eru eitt af því. 

Það er allt of lítið talað um hversu erfitt er fyrir foreldra að halda börnum sínum við efnið. En eitt af því sem mér þykir jafn mikilvægt námi eru tómstundir. 

Ég get sagt þér góða sögu af elsta syni mínum sem ég vildi endilega að væri í íþróttum og færi í tónlistarnám. Ég held ég hafi þurft að tala hann til fyrir hvern einasta tónlistartíma enda hafði hann ekki nokkurn áhuga á klassísku píanónámi. Ég var mjög tvístígandi með þetta og að lokum gaf ég eftir og leyfði honum að hætta.  

Þegar sonur minn flutti að heiman vildi hann þakka mér fyrir það dýrmætasta sem ég gaf honum, sem var að halda honum í íþróttum og í tónlistarnámi öll þessi ár. Í dag semur hann einstaklega fallega tónlist og vinnur við kvikmyndir og er í frábæru formi því hann hefur haldið í hæfnina sem hann tileinkaði sér í gegnum tómstundir. 

Að lokum langar mig að benda þér á að heilbrigð mörk færast til. Það er í lagi að leyfa börnunum okkar stundum að vera aðeins lengur í einhverju sem almennt er ekki gert í lífinu.

Hörð stíf mörk eru vanalega mörk sem meðvirkir einstaklingar setja. 

Ef við getum stuðlað að uppeldi þar sem börnin okkar eru einlæg, opin, skapandi og forvitin þá erum við á réttri leið. 

Ég er alls ekki að segja að öll börn þurfi að vera í íþróttum. En ef börn hætta einhverju þá gæti verið gott að skoða af hverju þau vilja hætta og jafnvel finna hvort eitthvað annað gæti komið í staðinn eða að leita leiða til að barnið geti haldið áfram að gera það sem það var að gera með meiri aðstoð frá foreldrum sínum og jafnvel þjálfurum.  

Gangi ykkur alltaf sem best og áfram þið!

Ég trúi því að við séum alveg að komast í gegnum skaflinn. 

Kær kveðja, Elínrós Líndal.

Ligg­ur þér eitt­hvað á hjarta? Þú get­ur sent El­ín­rós spurn­ingu HÉR.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál