Leitar að líffræðilegum föður sínum

Ásta Kristín Guðrúnardóttir Pálsdóttir.
Ásta Kristín Guðrúnardóttir Pálsdóttir.

Ásta Kristín Guðrúnardóttir Pálsdóttir leitar nú að líffræðilegum föður sínum. Ástu fór að gruna að hún væri rangfeðruð í líffræðitíma þegar hún var unglingur. Ásta hefur áhuga á að vita hvaðan hún kemur og deildi færslu á Facebook í vikunni sem hefur vakið mikla athygli.

Ásta fæddist í Reykjavík árið 1987 og er dóttir Guðrúnar Margrétar Þorbergsdóttur. Móðir hennar, sem vann meðal annars á Prikinu og í Orkustofnun, kynntist líffræðilegum föður Ástu árið 1986. Því miður getur Ásta ekki spurt móður sína út í hver blóðfaðir hennar er þar sem móðir hennar lést árið 1991, þegar Ásta var enn ung.

Ásta fékk grun sinn staðfestan fyrir tíu árum þegar hún og pabbi hennar fóru í DNA-próf. Hana hafði þá grunað þetta í mörg ár.

„Ég var í líffræðitíma þegar ég var unglingur og þá vorum við að gera verkefni varðandi blóðflokka. Þá var ég í O-blóðflokki og pabbi í AB. Þegar maður er í O-blóðflokki þarf maður að fá O frá báðum foreldrum þar sem það er víkjandi. Blóðflokkarnir gengu ekki upp,“ segir Ásta og bætir við að uppgötvunin hafi líka komið föður sínum á óvart.

Ásta játar að það hafi verið skrítið að geta ekki spurt móður sína út í faðernið en telur að móðir hennar hafi einungis reynt að taka rétta ákvarðanir á sínum tíma. Ýmsar spurningar hafa farið í gegnum huga Ástu eins og af hverju móðir hennar tók þessa ákvörðun og hvort hún hafi sjálf vitað hið rétta. „Það er sorglegt líka fyrir hana að geta ekki útskýrt,“ segir Ásta sem telur móður sína jafnvel hafa ætlað að ræða þetta við hana með árunum en því miður gafst ekki tími fyrir það.

Ásta er þakklát fyrir föður sinn sem hún ólst upp hjá. Hún lítur ekki á hugmyndina um föður út frá erfðum heldur sem einhvern sem mótar manneskju í uppeldinu. „Það eru allir sem þekkja hann sammála um hvað hann er framúrskarandi einstaklingur og kærleiksríkur,“ segir Ásta um föður sinn. 

Áður en Ásta deildi opinni færslu á Facebook um leit sína var hún búin að reyna ýmislegt. Hún var búin að fara í erlenda DNA-banka og bera saman niðurstöður við upplýsingar í Íslendingabók. Í gegnum DNA-banka kom í ljós að hún er 70 prósent skandínavísk þannig að hún gerir ekki ráð fyrir öðru en faðir hennar sé íslenskur.

„Þetta er ekki síðasta skrefið. Ég mun aldrei hætta að leita ef ég finn hann ekki. Ég var orðin pínu þreytt að grúska og rannsaka þetta sjálf,“ segir Ásta um nýjasta útspil sitt.

Eftir að hún deildi færslunni var henni bent á að nota vefinn MyHeratage.com þar sem möguleiki er á betri upplýsingum. Í þessum skrifuðum orðum er gagnagrunnurinn að vinna úr upplýsingum Ástu.

Af hverju langar þig að vita hvaðan þú kemur?

„Það er margt sem ég rek mig á, til dæmis með sjúkrasögu og líka þegar einhver spyr út í þetta. Þetta minnir oft á sig. Svo langar mig að þekkja fólkið sem ég er skyld. Ég vonast eftir því þó svo maður viti ekki hvernig fólk mun taka þessu. Mér finnst miklu heilbrigðara að vita hvað er satt og rétt.“

Hægt er að hafa samband við Ástu í skilaboðum á Facebook. Hér fyrir neðan má sjá færsluna hennar auk þess sem hægt er að deila henni áfram. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál