„Ég er ekki vændiskona“

Ósk Tryggvadóttir og Ingólfur Valur Þrastarson hafa svarað fyrir sig.
Ósk Tryggvadóttir og Ingólfur Valur Þrastarson hafa svarað fyrir sig. Samsett mynd

Ósk Tryggvadóttur og Ingólfi Val Þrastarsyni, Onlyfans-stjörnunum sem opnuðu sig í hlaðvarpsþættinum Eigin konur í vikunni, finnst samfélagsmiðlastjarnan Katrín Edda Þorsteinsdóttir hafa dregið upp ljóta mynd af sér. 

Ósk og Ingólfur deildu bæði myndböndum á Instagram í nótt þar sem þau sögðu sína hlið. Ósk segir að henni finnist mjög erfitt að taka þátt í þessari umræðu og hún hafi „triggerað“ hana mikið. 

Hún segir að þau Ingólfur hafi ekki verið að reyna að draga upp rómantíska mynd af klámiðnaðinum heldur einfaldlega segja sína hlið á málinu.

Katrín Edda opnaði umræðuna á Instagram í gær og hefur umræðan fengið mikla athygli. Katrín kom svo í viðtal á K100 í morgun þar sem hún útskýrði enn betur skoðun sína á málinu. 

Ósk fagnar umræðunni um þessi mál þar sem þau standi henni nærri og henni finnst þessi umræða eiga alltaf erindi. 

„Klám er búið að vera til mjög, mjög lengi. Það þarf að tala um þetta, þarf að tala um hvað er klám og hvað er rétt og hvað er rangt,“ segir Ósk. Hún segir líka að það þurfi ekki að vera tabú þegar einstaklingar búi til klám heima hjá sér sjálfir og selji á netinu á meðan þeir eru fullmeðvitaðir um hvað þeir eru að gera og að það verði alltaf til á netinu. 

Henni finnst ekki passa að Katrín Edda hafi líkt henni við „hamingjusömu vændiskonuna“.

„Ég þarf ekki hjálp og ég er hamingjusöm í minni vinnu. [...] Ég er ekki vændiskona en ég er ekki á móti vændiskonum heldur,“ segir Ósk.

„Já ég lít á þetta sem vinnu. Þótt ég vinni við klám þýðir það ekki að ég geti ekki stundað venjulegt gott kynlíf í mínu einkalífi. Ég tengi ekki kynlíf við vinnuna mína. Þetta ætti að vera sjálfgefið hjá þeim sem vita hvað klám er. Klám er leikið, ekki alvörukynlíf. Kynlíf og klám er ekki sami hluturinn,“ segir Ósk. 

Hún segist vera sammála því að klám geti brenglað hugmyndir fólks um hvað eðlilegt kynlíf sé. Þá á hún einna helst við klám þar sem konur eru neyddar til að stunda kynlíf með körlum og eru jafn vel fórnarlömb mansals. Það sé ekki raunin í því klámi sem hún og fleiri á Onlyfans framleiði. 

Ingólfur ítrekar í sínu myndbandi að þau hafi bara komið í hlaðvarpið til að ræða sína hlið, þau hafi ekki verið að hvetja neinn til að byrja að framleiða efni fyrir Onlyfans. Hann áréttar líka að þau þurfi virkilega að hafa fyrir sínum tekjum og þetta sé ekki bara „easy money“.

„Ég myndi aldrei hvetja einn né neinn til að byrja á þessu sem er ekki tilbúinn að hafa þetta í framtíðinni sinni,“ sagði Ingólfur. Hann segir einnig að hann sé hamingjusamur í sinni vinnu, hann segist vakna á morgnana og langa til að sinna sinni vinnu. Hann er líka ósáttur við að Katrín hafi líkt þeim við vændiskonur og að hún líti ekki á vinnu þeirra sem starfsgrein.

Ítarleg svör Óskar og Ingólfs má hlusta á hér fyrir neðan. 

View this post on Instagram

A post shared by @ingolfurvalur
mbl.is