Börnin eru ósátt, hvað er til ráða?

Elín Sigrún Jónsdóttir lögmaður rekur fyrirtækið BÚUM VEL.
Elín Sigrún Jónsdóttir lögmaður rekur fyrirtækið BÚUM VEL. mbl.is/Arnþór Birkisson

Elín Sigrún Jónsdóttir lögfræðingur og eigandi fyrirtækisins BÚUM VEL svarar spurningu frá hjónum sem eru loksins að láta drauma sína rætast.

Kæra Elín Sigrún.

Við hjónin erum að flytja úr stóru einbýlishúsi sem við höfum búið í síðastliðin 28 ár. Nú erum við bara tvö eftir en þrjú börn okkar ásamt hluta af barnabörnum bjuggu hjá okkur lengst af. Við erum að fara í mun minni íbúð með ákveðinni þjónustu þar sem við þurfum ekki að sjá um garð eða gera neitt sem við treystum okkur ekki lengur til. Börnin eru ósátt við að æskuheimili þeirra sé selt og ekki er almennilegt samkomulag um hver fær hvað af innbúinu þegar við flytjum. Við erum því með nokkrar spurningar til þín sem okkur þætti vænt um að fá svör við.

Við ætlum að gefa börnunum töluvert af verðmætum málverkum og listmunum ásamt húsgögnum sem eru verulega verðmæt en ekki er pláss fyrir í nýrri íbúð. Hvernig verðmetur maður slíkt og megum við gefa börnunum þetta án skilyrða eða flokkast þetta sem fyrirframgreiddur arfur og eiga þau þá að greiða af þessu skatt? Ráða þau einhverju um hver fær hvað?

Með kærri kveðju.

Ástfangin hjón sem loksins eru að láta drauma sína rætast og flytja á draumastaðinn.

Christian Mackie/Unsplash

Kæru hjón, til hamingju með ákvörðunina og tímamótin.

Takk fyrir þessar spurningar. Ég get fullvissað ykkur um að þið eruð ekki ein í þessum sporum. Börnum hættir til að skipta sér um of af fjárfestingum foreldra sinna og í sumum tilvikum tala þau við foreldra sína eins og foreldrarnir séu ófjárráða fólk. Ég leyfi mér að minna á að börnin eiga engan formlegan rétt nema til arfs ef eignir eru til staðar við andlát foreldra.

Það eru ýmsar leiðir færar í þessu sambandi ef ekki er samkomulag um skiptingu. Í fyrsta lagi getið þið einfaldlega selt innbúið sem þið hafið ekki þörf fyrir eða ekki er pláss fyrir og notið sjálf söluandvirðis eigna ykkar. En ef þið viljið láta börnin ykkar fá fjármunina er hægt að greiða þá sem fyrirframgreiddan arf. Einnig er stundum farin sú leið að skipta eignunum í jafn verðmæta hluta og jafn marga hluta og börnin eru og þau einfaldlega draga númer. Ef óvissa er um verðmæti er hægt að leita til fagfólks, t.d. uppboðshaldara, til að verðmeta.

Ef um verulegar eignir er að ræða er rétt að líta á yfirfærslu sem fyrirframgreiddan arf. Þá er verðgildi eigna tilgreint skv. því sem erfingjar telja vera sem næst líklegu söluverði munanna. Ef vafi er um hæfilegt verðmat er rétt að leita nánari upplýsinga hjá sýslumanni um úrræði. Af fyrirframgreiddum arfi er greiddur 10% erfðafjárskattur.

2. Börnin eru upptekin og treysta sér ekki til þess að hjálpa okkur við flutninginn og vinir okkar eru orðnir fótafúnir og geta því ekki aðstoðað. Er einhvers staðar hægt að fá alla þá þjónustu sem þarf við flutning á einum stað?

Mínir viðskiptavinir hafa góða reynslu af fyrirtækinu Á réttri hillu. Virpi sem stýrir þeirri þjónustu getur séð um alla þætti flutninga frá a-ö. Hún sorterar í samvinnu við eigendur, pakkar, setur til hliðar það sem ekki á að flytja og er svo tengiliður við burðarmenn, flutningaaðila og hreingerningafólk. Fleiri aðilar bjóða slíka þjónustu en ég hef góða reynslu af Virpi og hún er Á réttri hillu.

3. Eftir öll þessi ár í húsinu þekkjum við það vel. Það þarf að eiga við ofna til þess að þeir fari í gang að hausti, það þarf að beita lagni við að opna bílskúrshurð og fleira í þeim dúr. Eru þetta atriði sem við þurfum að skrá niður og upplýsa fasteignasala um eða eru þetta dæmi um mál sem ekki þarf að fara yfir og fylgja því að kaupa tæplega 30 ára gamalt hús?

Það hvílir rík skoðunarskylda á kaupanda en jafnframt hvílir upplýsingaskylda á seljanda. Seljanda ber að upplýsa skoðanda um allt það sem hann veit um að aflaga hefur farið og allt það sem hann getur gert sér grein fyrir að skoðandi sjái ekki eða geti ekki kynnt sér við almenna skoðun.

Með því að veita þessar upplýsingar gefið þið innsýn í natni ykkar og umhyggju gagnvart húsinu og það eykur traust kaupanda. Það skiptir svo miklu að fasteignaviðskiptin verði ánægjulegt ferli bæði fyrir ykkur og þau sem kaupa húsið ykkar.

Með kærleikskveðjum,

Elín Sigrún

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »