Karlinn fastur á Onlyfans. Hvað er til ráða?

Það er alltaf áfall að komast að einhverju óvæntu í …
Það er alltaf áfall að komast að einhverju óvæntu í tölvu makans. mbl.is/Colourbox

Elínrós Líndal ráðgjafi svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hún spurningu frá konu sem var að komast að því að maðurinn hennar styður við konur sem bera sig á netinu. 

Sæl

Ég var alin upp við að vera næs og góð og að standa mig vel í skóla og þá myndi ég eignast gott líf. Síðan var ég alin upp við þá hugmynd að hjónaband væri málið. Barneignir kæmu þar á eftir, hús, bíll og ferðalög. 

Nú er ég búin að tékka í öll boxin og þá kemst ég að því að karlinn er fastur á svona síðum eins og talað er um á síðum blaðanna undanfarið. Þar sem konur bera sig.

Nú fylgir hvergi í handbók góðu blíðu stúlkunnar hvernig maður stoppar slíkt. 

Ég held einnig að hann sé að greiða allskonar upphæðir inn á svona konur á síðu og þá velti ég því fyrir mér - hvaða handbók eru karlarnir okkar með? Þá sér í lagi þegar maðurinn minn réttlætir hegðun sína með því að allir karlar gera svona. 

Væri ekki eðlilegra að safna í menntasjóð fyrir sín eigin börn en að fjárfesta í kornungum stúlkum við svona iðju?

Hvað gera konur sem geta ekki svona?

Kveðja, ein verkfæralaus sem langar að laga karlinn sinn

Elínrós Líndal einstaklings- og fjölskylduráðgjafi.
Elínrós Líndal einstaklings- og fjölskylduráðgjafi. mbl.is/Tinna Magg

Sælar og takk fyrir spurninguna þína. 

Ég held einmitt að umræðan á undanförnum dögum og vikum hafi búið til ólgu innra með mörgum konum. Þó ég tel alls ekki rétt né satt að allir karlar stundi það að horfa á klám eða að allar konur séu að bera sig á netinu fyrir peninga. Nýjustu tölur sem við erum að vinna með núna eru að í kringum 6- 8% fullorðinna einstaklinga séu í vanda með mál eins og þú lýsir í bréfinu þínu.

Í heilbrigðum nánum samböndum þá vex ástin með árunum og traust verður brú fyrir ástina en það gerist allskonar í ástarsamböndum. Það sem þú lýsir í bréfinu þínu hefur alltaf áhrif á parasambandið. 

Til að skoða uppeldið nánar þá mæli ég með bók Bethany Webster - Discovering The Inner Mother. Bókin er algjört meistaraverk og er gott fyrsta skref til að brjótast út úr fjölskyldumynstri sem er ekki að þjóna konum lengur. 

Það er að verða miklar breytingar víða í heiminum hvernig unnið er með maka þeirra sem missa stjórn á sér á kynferðissviðinu. Hér áður þótti algengt að greina makann sem meðvirkan eða jafnvel með fíkn í maka sinn, sem getur verið að mínu mati mikið áfall fyrir einstaklinga sem eru nýbúnir að upplifa áfall í sambandi sínu. 

Ég myndi finna mér góðan fagaðila að vinna með sem þekkir til svona mála og er þjálfaður í að styðja við þig á þeim stað sem þú ert á núna. Kann að aðstoða þig í gegnum ferlið og er einskonar norðurstjarna á leiðinni út úr þessu ástandi. Þekkt einkenni hjá konum í þinni stöðu er að þær missa trú á mannkynið, þær upplifa ótta, skömm og vonleysi - sem hægt er að aðstoða með. 

Það er mjög eðlilegt og heilbrigt að fólk safni í sjóð fyrir börnin sín og ef hjón eru með sameiginlega sjóði er ekki eðlilegt að verið sé að styðja við starfsmenni kvenna utan sambanda með þeim hætti sem þú lýsir. 

Það hefur verið rætt talsvert um „sykurföður hlutverkið“ (e sugar dad) í Bandaríkjunum þó umræðan sé ný af nálinni hér heima. Þar sem ungar konur eru farnar að sjá það sem vænlegan kost að sýna líkama sinn og veit aðgang að sér fyrir pening. Það er mikilvægt að setja ekki skömm á þessar konur heldur frekar að ræða hlutina eins og þeir eru og skoða samfélagsgerðina sem við búum til í kringum unga fólkið okkar. Af öllu því sem hægt er að gera til að búa til pening - af hverju ætli þessir einstaklingar ákveði að gera það á þennan hátt? Gæti verið að þau séu með áföll á kynferðissviðinu sem á eftir að vinna úr? 

Ég er sammála Stígamótum og styð ekki verslun með líkama - þá sér í lagi líkama kvenna og annarra jaðarsettra hópa í samfélaginu. Það að karlar hafi stöðugt aðgengi að líkömum kvenna í krafti peninga er ein birtingamynd misréttis í samfélaginu. 

Gangi þér alltaf sem best, 

Elínrós Líndal. 

Ligg­ur þér eitt­hvað á hjarta? Þú get­ur sent El­ín­rós spurn­ingu HÉR.

mbl.is