Klám og vændi stendur í vegi fyrir kynfrelsi kvenna

Fólk sem hefur reynslu úr klámi og vændi er velkomið …
Fólk sem hefur reynslu úr klámi og vændi er velkomið til Stígamóta. Ljósmynd/Colourbox

Samtökin Stígamót bjóða alla þá sem hafa reynslu úr klámi og vændi velkomna til sín. Í ljósi umræðu síðustu vikna um miðilinn Onlyfans ákváðu samtökin að stíga inn í umræðuna á samfélagsmiðlum. 

Í færslu þeirra á samfélagsmiðlum segir: „Allt fólk með reynslu úr klámi og vændi er velkomið á Stígamót. Til fólks með þessa reynslu: Það skiptir ekki máli hvort þið skilgreinið klámið/vændi sem vinnu eða ofbeldi – ef þið upplifið einhverjar afleiðingar og viljið fá stuðning og ráðgjöf eruð þið velkomin. Einnig eruð þið velkomin að koma til að vinna með afleiðingar af öðru kynferðisofbeldi sem þið kunnið að hafa orðið fyrir, s.s. ofbeldi í æsku eða nauðgun.“

Þá er tekið fram að ekki sé gerð krafa um að einstaklingar þurfi að hætta að stunda klám eða vændi til að fá þjónustuna. 

Í færslunni segja Stígamót enn fremur að þau hafi séð mjög alvarlegar afleiðingar hjá fólki sem hefur stundað vændi eða klám. „Við sjáum afleiðingar á borð við áfallastreitu, sjálfsskaða og sjálfsvígshugsanir auk þess sem skömm, sektarkennd, kvíði og þunglyndi eru vel þekkt stef.“

Mikilvægt að draga úr eftirspurn

Stígamót leggja áherslu á að það sé mikilvægt að draga úr spurn eftir klámi og vændi. Samtökin styðji ekki verslun með líkama og þá sérstaklega líkama kvenna og annarra jaðarsettra hópa. „Það að karlar hafi stöðugt aðgengi að líkömum kvenna í krafti peninga er bæði birtingarmynd misréttis og skapar meira kynjamisrétti.“

Kynfrelsi kvenna sé mikilvægt og baráttan er samtökunum hjartans mál. „Við lítum þó ekki á sölu á kynlífi og kvenlíkömum sem afsprengi kynfrelsis – heldur einmitt það sem stendur í vegi fyrir raunverulegu kynfrelsi. Konur eiga sig sjálfar – þær eru ekki markaðsvörur.“

Samtökin impra á því að neytendur kláms geti aldrei verið vissir um hvort þeir séu að styðja við kynferðisofbeldi gegn fullorðnu fólki eða börnum. 

„Á Only Fans eru mörg dæmi þess að manneskjan á bak við reikninginn sé undir lögaldri auk þess sem kaupandinn getur ómögulega vitað að manneskjan taki þátt í kláminu á eigin forsendum. Besta leiðin til að tryggja að maður taki ekki þátt í ofbeldi, mansali og þvingunum er að neyta ekki kláms.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál