Er eðlilegt að ég sé ennþá að hugsa um fyrrverandi löngu eftir sambandsslit?

Clem Onojeghuo/Unsplash

„Þessa spurningu fékk ég frá samstarfskonu um daginn, þar sem hún var enn að hugsa um sinn fyrrverandi og fylltist vanlíðan þegar að hún sá að hann var kominn í nýtt samband á Instagram,“ segir Þórey Kristín Þórisdóttir sálfræðingur og heilsumarkþjálfi í sínum nýjasta pistli: 

Hálft ár er ekki langur tími í sjálfu sér. Það er heilbrigt og hollt að sakna aðila sem hefur verið hluti af lífi okkar í langan tíma og nákvæmlega ekkert athugarvert við það. Ég myndi segja að það væri jafnvel mjög jákvætt, tákn um að hún sé í góðu sambandi við tilfinningar sínar.

Þess utan er alltaf ákveðið áfall að uppgötva þegar fyrrverandi fer í nýtt samband. Það er eðlilegt að blendnar tilfinningar komi upp. Þó ber að hafa í huga hvað er svo heilbrigt og uppbyggilegt fyrir okkur í kjölfarið.

Vegna auðvelds aðgengi að samfélagsmiðlum datt samstarfskona mín strax í samanburð og niðurrif þegar hún var að skoða instagramsíðu fyrrverandi kærasta síns. Nýja kærasta hans var eldri en hún, þýðir það þá að hún hafi verið svo óþroskuð? Hætti hann að elska hana því að hún var svo barnaleg eða var hún of óörugg? Þessi nýja kærasta virkaði mjög örugg með sig. Hvað með þegar hún fékk stundum kvíðaköst, var það kannski eitthvað sem fór í taugarnar á fyrrverandi?

Eftir að hafa ofhugsað þetta í nokkra daga fann hún hvað hún var orðin orkulaus og langt niðri andlega. Hún átti hreinlega erfitt með að mæta í vinnuna.

Ég hrósaði henni fyrir hversu dugleg hún væri að telja upp alla sína ókosti og hugsanlegar ástæður fyrir því að sambandið hefði ekki gengið upp og hvort hún gæti þá gert hið andstæða líka? Fundið ástæður fyrir því af hverju hann hefði nú verið með henni í fimm ár, hvað hafði hún að gefa í sambandið? Hvað hrósaði hann henni fyrir sérstaklega? Hverjir eru hennar helstu kostir og hvernig myndi hún vilja að næsta samband yrði?

Hún var ekki lengi að sjá kostina í sínu fari eftir að hafa fært hugsanamunstrið í aðeins uppbyggilegri farveg. Þar að auki komu upp minningar úr sambandinu sem hún var oft ósátt við og myndi alls ekki vilja í næsta sambandi. Eftir að hafa fært athyglina á það jákvæða í stað neikvæða og tekið sambandið af þessum háa stalli fann hún hvernig líðan breyttist og hún fór að vera sáttari við sjálfa sig.

Oft á tíðum er svo auðvelt að detta í neikvætt hugsanamunstur og samanburð í stað þess að líta inn á við og sjá hvað við höfum að gefa. Við erum öll einstök á okkar hátt og þrátt fyrir að einhver annar hafi ákveðna kosti þá höfum við einnig okkar eigin kosti. Þar að auki er mjög erfitt að finna allt sem við þráum í einni manneskju, þannig að auðvitað á fyrrverandi eftir að sakna þinna sérstöku eiginleika í næsta sambandi.

Þú getur sent fyrirspurn HÉR. 

mbl.is