Hvað er til ráða ef móðirin borgar ekki meðlag með dætrunum?

Íslenskur faðir er ósáttur við að móðir dætra hans komist …
Íslenskur faðir er ósáttur við að móðir dætra hans komist upp með að borga ekki meðlag. Myndin tengist fréttinni ekki beint. Vlad Zaytsev/Unsplash

Jóhannes Albert Sævarsson lögmaður á Lögfræðistofu Reykjavíkur svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hann spurningu frá föður tveggja dætra sem hann er með forræði yfir. Móðurinni ber að greiða meðlag en hefur ekki gert. Hvað er til ráða? 

Sæll. 

Móðir tveggja dætra minna missti forræði þeirra í mínar hendur. Dætur sóttu um framlag frá móður eins og getið er um í samkomulagi foreldra og vísað í í úrskurði sýslumanns. Með dómsúrskurði sýslumanns (28. apríl 2017) bar móður að greiða einfalt meðlag í átta mánuði. Úrskurður er svohljóðandi:

„Forsjá barnanna og lögheimili þeirra verður eftirleiðis hjá föður. Einnig hafa foreldrar gert með sér samning um að móðir greiði einfalt meðlag með hvoru barni til 18 ára aldurs þeirra. Meðlagsgreiðslur samkvæmt samningi þessum eru kræfar með fjárnámi, sbr. 66. gr. barnalaga.“

Fulltrúi sýslumanns fullyrti að innheimtuaðgerðir væru í höndum dætra en ekki sýslumanns né Tryggingastofnunar. Móðir neitaði og hótaði þegar leitað var eftir þessum stuðningi.

Er það til eftirbreytni að dæturnar verði að fara í fjárnám hjá móður sinni? Siga þannig saman móður sem þverskallast og dætrum sem eiga að njóta fjárstuðnings við nám? Væri ekki nær að þetta væri í höndum opinberra aðila?

Dæturnar treystu sér ekki í málarekstur (18 og 19 ára) og urðu af þessum stuðningi.

Kveðja, faðir.

Jóhannes Albert Sævarsson lögmaður á Lögfræðistofu Reykjavíkur svarar spurningum lesenda …
Jóhannes Albert Sævarsson lögmaður á Lögfræðistofu Reykjavíkur svarar spurningum lesenda Smartlands.

Sæll faðir. 

Hafi sýslumaður úrskurðað eða staðfest samkomulag milli foreldra um að meðlagsskylt foreldri skuli inna af hendi sérstakt framlag vegna ólögráða barns, s.s. vegna fermingar eða tannréttinga, þá er Tryggingastofnun ríkisins skylt að greiða samkvæmt úrskurðinum eða samkomulaginu, sbr. 67. gr. Barnalaga. Það sama ætti að eiga við ef samkomulag hefur verið gert milli foreldra um framlag til menntunar eða starfsþjálfunar barns sem taka á gildi eftir að það nær 18 ára aldri og allt til þess að það nær 20 ára aldri, sbr. 62. gr. Barnalaga. Innheimtustofnun sveitarfélaga myndi síðan innheimta framlagið hjá meðlagsskyldu foreldri og eftir atvikum krefjast fjárnáms.

Kveðja

Jóhannes Albert Sævarsson lögmaður 

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent lögmönnum Lögfræðistofu Reykjavíkur póst HÉR. 

mbl.is