Óvirkur alki og fyrrverandi karlremba opnar sig

Þorsteinn V. Einarsson er gestur í hlaðvarpsþætti Snæbjörns Ragnarssonar.
Þorsteinn V. Einarsson er gestur í hlaðvarpsþætti Snæbjörns Ragnarssonar.

Flestir þekkja andlit Þorsteins þótt þeir viti ekki hvað hann heitir. Þorsteinn V. Einarsson er maðurinn á bak við samfélagsmiðlana Karlmennskan, sem miðla upplýsingum um málefni tengd kynjahyggju samfélagsins og hinum ýmsu birtingarmyndum karlmennskunnar. Hann er gestur Snæbjörns Ragnarssonar í hlaðvarpsþættinum, Snæbjörn talar við fólk. Sjálfur er hann óvirkur alki, fyrrverandi fótboltastrákur og karlremba, pabbi og eiginmaður. Á daginn flytur hann fyrirlestra, heldur úti hlaðvarpi og vinnur sem jafnréttis- og karlmennskusérfræðingur hjá ráðgjafafyrirtækinu Empower. Í þessu viðtali gefur Þorsteinn innsýn í sitt starf, sína vegferð frá íhaldssamri karlrembu yfir í virkan femínista og hvernig við getum öll átt þýðingarmikil samtöl í okkar nærumhverfi. En þó svo að það líti út fyrir að málefnin þrjóti aldrei sem brýn nauðsyn er að ræða hefur Þorsteinn ekki áhyggjur og heldur að þetta verði, að lokum, bara allt í lagi.


Þorsteinn hefur verið óvirkur alkóhólisti í 23 ár og menntaskólaárin lituðust af tvöföldu lífi, að vera frábæri fótboltastrákurinn sem er valinn besti leikmaðurinn í fleiri en einu liði sem hann spilar með, og leyndi djammarinn sem var í harðari efnum en áfengi þegar hann fór út á lífið um helgar. Á endanum átti Þorsteinn erfitt með að aðskilja þessar tvær hliðar lífsins og mætti undir lok drykkjuævi sinnar drukkinn á æfingu.

Árið 2018 uppgötvaði Þorsteinn að hann, hinn yfirlýsti femínisti, hefði leyft miklum þyngslum sambands síns að falla á eiginkonu sína, Huldu Jónsdóttur Tölgyes. Undanfarið hefur mikið verið rætt um hina „andlegu byrði“ (e. mental load) innan sambanda, en þar ræðir til að mynda um að halda skipulagi heimilisins í lagi, sjá um þrif, vita stöðuna á mat og muna eftir afmælum. Oft endar kvenkyns maki á því að halda mestu af þessu til haga og neyðist til að setja makanum „verkefni“ en halda sjálf utan um heildina. Þetta hafði áhrif á hann og hans hugmynd um sjálfan sig sem meðvitaðan femínista.

Þorsteinn hugsaði fyrst um þessa kynjahluti þegar hann fékk sterk viðbrögð hjá samfélaginu fyrir að ganga með naglalakk. Á þeim tíma vann hann á frístundaheimili og hafði lakkað á sér neglurnar með börnunum þar án þess að hugsa sig tvisvar um. Þegar hann ákvað að læra meira um femínisma og kynjastöðu samfélagsins opnaðist fyrir honum önnur vídd. Þannig hófst hans ferðalag inn í femínismann og hans núverandi starf.

Fyrsta skiptið þar sem Þorsteinn var opinber femínismi á fjölmiðli var þegar Harmageddon á X977 las upp femínískar hugsanir Þorsteins sem hann hafði skrifað um íslenska teiknimynd. Þeir Harmageddonmenn fóru ófögrum orðum um Þorstein í útvarpinu og hann hélt að lífi sínu væri lokið. Eftir það tók hann sig á flug sem femínískur hugsuður en segir sjálfur að hann hafi hugsanlega farið sér of geyst og sett sjálfan sig of mikið í bílstjórasætið.

Teiknimyndin sem um ræðir heitir Lóa og fór Þorsteinn að sjá hana með syni sínum. Eftir bíóferðina var Þorsteinn að setja þemu myndarinnar í samhengi við þær pælingar sem hann var að kynna sér um þær mundir.

„Ég tjái mig um þetta, skrifa í notes á Facebook – ég var ekki með blogg, ég var ekki að senda neinn pistil. Ég bara er með einhverjar pælingar og finnst ég þurfa að tjá mig um þetta. Skrifa þetta notes og set þetta í samhengi við eitthvað og þetta bara – mörg hundruð deilingar og Harmageddon pikka upp þennan pistil og Frosti Logason les upp allan pistilinn með einhverri svona röddu [...] Vinur minn heyrir þetta og bara „heyrðu, þeir eru bara að drulla yfir þig eitthvað í Harmageddon“. Ég bara, FOKK. Ég hélt að líf mitt væri búið sko. „Það er verið að drulla yfir mig.“ [...] þetta var svona fyrsta að fólk er eitthvað, „þetta er svo flott, þú ættir að skrifa meira“ og ég bara: skrifa meira!“

Þorsteinn hefur þá tilgátu að margir menn sitji hjá og taki síður þátt í umræðunni sem fylgir #MeToo af ótta við að þeir eigi eitthvað í fortíð sinni sem þeir fengju í hnakkann. Menn séu ekki alveg vissir um hvort þeir hafi nokkru sinni gerst sekir um eitthvað gruggugt og vilji síður taka áhættuna á að það komi fram ef þeir tjái sig um málið. Þaðan birtist hugsanlega gerandameðvirknin sem birtist í samfélaginu þegar upp koma ásakanir gegn öðrum mönnum.

Nýverið varð Þorsteinn uppvís að því að vinur hans var ásakaður um ofbeldi. Þá ákvað Þorsteinn að ræða við vin sinn um hans upplifun, sýna honum aðrar hliðar og hvar hann hefði hugsanlega beitt ofbeldi sér óafvitandi. Hans ákvörðun var að slíta ekki samskiptum við téðan vin heldur hjálpa honum að læra af og taka ábyrgð á gjörðum sínum. Þorsteinn segist þó ekki vita hvað sé eina rétta leiðin en rannsóknir sýni að skrímslavæðing gerenda sé af hinu slæma.

Snæbjörn og Þorsteinn ræða hræðsluna við að vera stimplaður „ofbeldismaður“. Í framhaldinu af því ræðir Þorsteinn að við þurfum og séum að afskrímslavæða ofbeldismenn. Þeir séu hluti af samfélaginu og ekki bara skrímsli, heldur margslungnar manneskjur.

„Ég held að við séum pínu að átta okkur á því að ofbeldismenn eru ekki bara ofbeldismenn. Þeir eru líka góðir feður, þeir eru líka virtir í samfélaginu, þeir eru líka ábyrgir, þeir eru líka [...] þeir gera líka góða hluti, þeir sem gera ofbeldi. Og hvernig upprætum við ofbeldið veit ég ekki, en ég er samt sannfærður um að ein leiðin til að koma í veg fyrir til dæmis – eigum við að segja „óvart“ ofbeldi er að hreinlega tala um ofbeldi. Bara, hvað er ofbeldi? Hvernig getur það verið? Og við vitum að ofbeldi er líkamlegt, kynferðislegt, fjárhagslegt, andlegt. Þú veist, það er til alls konar ofbeldi. Og ég hef sagt það að ég hef beitt ofbeldi. [...] þá meira núna í [...] mínum samtíma kannski, og sambandinu þá leit ég ekki á það sem ég var að gera sem ofbeldi. Ég leit ekki á það þegar ég er að gera lítið úr upplifun konunnar minnar á einhverju eða þegar ég er að afbaka hennar upplifun að ég sé að beita „gaslighting“ ofbeldisaðferð. Þannig að ég lít ekki á sjálfan mig sem „ofbeldismann“ þó að ég sé gerandi ofbeldis því að mér finnst þetta bara svo hræðilegt orð og ég bara get ekki gengist upp í því. En það breytir hins vegar ekki því að ég hef beitt ofbeldi.“

Í upphafi ársins 2021 fór Þorsteinn í viðtal til Frosta Logasonar í Ísland í dag, sem endaði ekki eins og Þorsteinn hafði átt von á. Þótti Þorsteini sem þáttastjórnandi hefði reynt að láta hann, Þorstein, koma út í vondu ljósi fremur en hitt. Þá hafði Þorsteinn unnið með sínar tilfinningar og í stað þess að svara strax í reiði leyfði hann sér að upplifa særindin og vonbrigðin sem fylgdu þessari þróun mála áður en hann svaraði. Um sólarhring síðar gat hann sent frá sér yfirvegað svar þar sem hann greindi frá tilfinningum sínum og þetta þótti Þorsteini heilbrigðari leið til að upplifa tilfinningar sínar en að rjúka upp í reiði.

Spurður um hvernig hann haldi að framtíðin verði og hvort við komumst einhvern tímann í gegnum kynjamúrana svarar hann að vissulega þurfi að breyta ýmsu innan samfélagsins, innviðum, venjum og lögum. En að við öll, og þá sérstaklega karlmenn, getum hjálpað þeirri þróun með að fræða okkur og opna.

„Ég trúi því að ef að við, nógu margir karlar, tökum meðvitaða og .. erum outspoken í [...] jafnréttismálunum, að [...] það mun[i] auðvelda þessum kerfislægu breytingum að eiga sér stað. Við munum ekki vinna gegn þeim ef við erum meðvitaðir. [...] Bara – viðurkennum að við erum ekki með svörin [...] við erum bara pínu vanmáttugir og óöruggir og litlir í okkur og hræddir jafnvel. Viðurkennum það bara! Við erum fúsir að horfa inn á við, skoða okkur sjálfa og okkar samskipti [...] Byrjum bara þar á meðan við erum að hlusta á allt það sem er að gerast og ég held bara að þetta verði allt í lagi. Ég bara held það í alvörunni.“

Þú getur hlustað á þáttinn í heild sinni á hlaðvarpsvef mbl.is. 

Snæbjörn Ragnarsson og Þorsteinn V. Einarsson.
Snæbjörn Ragnarsson og Þorsteinn V. Einarsson.
mbl.is