Getur eitt systkini erft allt en hin ekkert?

Getur ekkja arfleitt eitt barna sinna að öllu og hin …
Getur ekkja arfleitt eitt barna sinna að öllu og hin engu? Naassom Azevedo/Unsplash

Margrét Gunnlaugsdóttir lögmaður á Lögfræðistofu Reykjavíkur svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hún spurningu varðandi erfðamál. 

Sæl Margrét. 

Ég spyr um erfðamál. 

Getur kona sem á látinn maka og fjögur uppkomin börn og eina fasteign aðeins arfleitt eitt barn að fasteigninni? Hún mun því gera þrjú af sínum fjórum börnum arflaus. Enginn ágreiningur er innan fjölskyldunnar og hefur þetta því komið mikið á óvart.

Stenst þetta lög ef hún hefur til dæmis sett þetta í erfðaskrá eða nú þegar flutt fasteignina yfir á þennan erfingja?

Kveðja,

L

Margrét Gunnlaugsdóttir, lögmaður á Lögfræðistofu Reykjavíkur.
Margrét Gunnlaugsdóttir, lögmaður á Lögfræðistofu Reykjavíkur.

Sæl L.

Samkvæmt erfðalögum er foreldri óheimilt að ráðstafa meira en þriðjungi hluta eigna sinna með erfðaskrá, þegar börn eru til staðar. Sitji konan í óskiptu búi eftir látinn maka er henni jafnframt óheimilt að ráðstafa arfshluta barnanna eftir skammlífara maka með erfðaskrá.

Maki sem situr í óskiptu búi hefur eignarráð allra eigna búsins og hefur m.a. heimild til að selja fasteignir. Ef makinn rýrir eignir búsins óhæfilega geta erfingjar farið fram á að búinu verði skipt og farið fram á endurgjald úr búinu.

Kveðja,

Margrét Gunnlaugsdóttir lögmaður. 

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent lögmönnum á Lögfræðistofu Reykjavíkur spurningu HÉR. 

mbl.is