Byrjaði aftur með fyrrverandi: Hvað verður um skuldirnar?

Tim Schmidbauer/Unsplash

Ingvi Hrafn Óskarsson lögmaður á Lögfræðistofu Reykjavíkur svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hann spurningu frá konu sem byrjaði aftur með fyrri eiginmanni og veltir fyrir sér hver á hvað og hvort þurfi að gera ráðstafanir. 

Hæ hæ

Ég tók nýlega saman við fyrrverandi manninn minn aftur eftir nokkurra ára skilnað og málið er að ef við skráum okkur í sambúð núna þá erum við sjálfkrafa gift aftur þar sem við skildum bara að borði og sæng. Sem er auðvitað bara ekkert mál nema það eru skuldir á honum og húsið á mínu nafni. Spurning mín er: Ef við erum sjálfkrafa gift aftur og í sambúð fara þá skuldir hans á mig og hægt að taka veð í húsinu mínu út af þessum skuldum?

Með fyrirfram þökk, 

KH

Yngvi Hrafn Óskarsson lögmaður á Lögfræðistofu Reykjavíkur.
Yngvi Hrafn Óskarsson lögmaður á Lögfræðistofu Reykjavíkur.

Sæl.

Það er vissulega rétt að skilnaður að borði og sæng fellur niður ef hjón taka upp sambúð á nýjan leik og endurvekja þannig hjúskapinn. Ég skil fyrirspurnina svo að þú sért ein þinglýstur eigandi fasteignarinnar og að engin breyting verði þar á með breyttum högum ykkar. Ein af grundvallarreglum hjúskaparlaga er sú að hvort hjóna ráði yfir eign sinni og svari til skulda sinna. Í því felst að almennt gildir sú regla að hvort hjóna ber ábyrgð á eigin skuldbindingum, en ekki þeim skuldum sem hvíla á maka nema um annað hafi verið samið. Kröfuhafar maka þíns geta því almennt ekki leitað fullnustu í fasteign sem er í þinni eigu. Þá getur maki ekki veðsett eða ráðstafað eign þinni með öðrum hætti án samþykkis. Af þessu leiðir að endurnýjun hjúskapar ykkar á hvorki að leiða til þess að ábyrgð falli á þig persónulega vegna skulda hans né að unnt verði að veita kröfuhöfum hans veð í eign þinni án þíns samþykkis. Hér þarf hins vegar einnig að slá varnagla, því svarið lýsir aðeins almennum reglum sem gilda um skuldir sem annað hjóna hefur stofnað til í eigin nafni án aðkomu maka síns. Frá þessu er sú undantekning að hjón bera óskipta ábyrgð á skattskuldum þeirra beggja sem verða til á hjúskapartímanum meðan þau eru samsköttuð. 

Bestu kveðjur,

Ingvi Hrafn Óskarsson lögmaður. 

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent lögmönnum á Lögfræðistofu Reykjavíkur spurningu HÉR. 

mbl.is