Af hverju getur þú ekki bara verið ánægð Sara?

Sara Oddsdóttir, ráðgjafi og markþjálfi, rekur vefinn saraodds.is.
Sara Oddsdóttir, ráðgjafi og markþjálfi, rekur vefinn saraodds.is. mbl.is/Árni Sæberg

„Ég hef þurft að horfa í skuggana mína, mætt mörgum erfiðum verkefnum í leit minni að hamingjunni og tekist á við fleiri áföll en góðu hófi gegnir, hvað svo sem það er. Talið mig knúna til að taka u-beygjur til að fylgja mínum sannleika sem hefur oft verið mjög erfitt. Fundið mig í aðstæðum sem þjónuðu mér ekki og þurft að kveðja fólk sem ég átti ekki samleið með lengur. Ég þekki vel á eigin skinni hversu erfitt er taka ákvarðanir sem hafa afleiðingar fyrir fleiri en bara mig,“ segir Sara Oddsdóttir, markþjálfi og lögfræðingur, í nýjum pistli

Hef hugsað mér þegjandi þörfina og sagt við mig: í alvöru Sara, af hverju getur þú ekki bara verið ánægð? Þarftu alltaf að vera að stíga út fyrir þennan blessaða þægindaramma?

Að breyta um stefnu og halda í aðra átt getur vissulega verið erfitt en ekki alltaf. Reynslan hefur kennt mér að óttinn við að stíga þetta skref út fyrir þægindarammann eða breyta um stefnu er oft meiri en skrefið sjálft. Fyrir mig er tilhugsunin um að halda áfram gegn betri vitund miklu erfiðari tilfinning en að skipta um stefnu. Því eftir því sem lengra er haldið verður tilfinningin sem segir þér að áttavitinn sé bilaður enn sterkari. Og röddin sem segir þér að snúa við á endanum óbærileg. Eins og heill kór sitji á öxlinni á þér og öskri á þig „snúðu við“.

Ég gæti líka stillt þessu öðruvísi upp og sagt að ég væri búin að gera ótal „mistök“ á minni lífsleið. Það hefðu verið mistök að fara í lögfræði og gifta mig, þar sem ég er fráskilin og starfa ekki sem lögfræðingur, en þá væri ég að segja ósatt. Því ég sé þær ákvarðanir ekki sem mistök heldur hluta af minni vegferð og í raun nauðsynlega áningarstaði á leið minni áður en lengra var haldið. Ég ákveð sjálf hvort þessar ákvarðanir mínar séu mistök eða lærdómur, ég hef fullt vald til að velja að svo sé ekki. Og þú getur valið fyrir þig, enginn annar.

Segjum að þú upplifir eins og þú sért ekki á réttum stað í lífinu, eins og þú eigir að vera gera eitthvað allt annað. Og þú kemst að þeirri niðurstöðu að annaðhvort þarft þú að snúa öllu á hvolf, fokka öllu upp, til að byrja upp á nýtt eða bara sleppa þessu veseni. Þá ert þú að horfa á lífið þitt í svarthvítu.

Kannski veistu að þú ert á rangri leið en veist samt ekki hver rétta leiðin er. Og sérð þess vegna ekki ástæðu til að breyta um stefnu. Ég meina, af hverju ætti maður að breyta um stefnu ef maður veit ekki í hvaða átt maður á að fara? Ef þú veist ekki hvað hin leiðin býður upp á. Og heilinn segir þér að halda kyrru ef hann sér ekki hvað bíður þín, hann er hannaður til þess. Hann sannfærir þig um að taka ekki ákvarðanir ef þær leiða þig ekki á skýran áfangastað, því það þýðir skref út fyrir þægindarammann sem hann þolir ekki. Þannig trúir þú eða heilinn selur þér að þetta sé eins gott og það gerist. Þú gefst upp eða sættir þig við þann stað sem þú ert á, jafnvel þótt þú vitir að það sé ekki rétt fyrir þig.

Málið er að þú sérð ekki hvað er hinum megin við fjallið nema að ganga upp á það. Oft sér maður ekki hvað bíður manns fyrr en maður leggur af stað og til þess þarf bæði hugrekki og traust.

Það gleður mig að segja þér að litlar breytingar geta gert kraftaverk. Og það er aldrei of seint. En klárlega auðveldara að taka þessi skref ef þú frestar þeim ekki. Þú þarft heldur ekki endilega að snúa öllu lífinu á hvolf til að breyta um stefnu. Vissulega þarf stundum að gera stórtækar stefnubreytingar en oftast ekki. Það þekki ég bæði á eigin skinni og í gegnum starf mitt sem markþjálfi og ráðgjafi. Ímyndaðu þér að þú sért á leið í ferðalag og ætlir að ganga í Þórsmörk. Þú notar áttavita til halda þér á réttri slóð því þú veist að það þarf ekki mikla skekkju svo þú farir villu vegar og endir á röngum stað. Ekki rétt?

Þegar við hunsum áttavitann okkar, þessa innri rödd sem segir okkur að ekki sé allt eins og það eigi að vera, þá brýst það oft út sem óánægja eða vanþakklæti. Sérstaklega gagnvart fólkinu sem við elskum mest, aðstöðu okkar í lífinu eða við upplifum okkur sem misheppnuð eða sjálfsmyndin verður léleg.

Flestir spegla sig í fólkinu sem stendur því næst, ég geri það að minnsta kosti, það er fjölskylda, maki, vinir eða vinnufélagar. Hins vegar er erfitt fyrir þessa einstaklinga að vera óhlutdrægir þar sem þeir hafa hag af því að þú breytist ekki. Ekki að fólkið þitt sé hrætt við þínar persónulegu breytingar, heldur þau áhrif sem breytingarnar hafa á þau. Hræðast afleiðingarnar á þeirra líf ef þú breytir um stefnu. Því þau hafa teiknað upp mynd af hlutverki þínu í þeirra lífi, út frá sínum eigin forsendum, löngunum og þörfum, eðlilega. Þetta eru oftast ómeðvituð viðbrögð og ótti, en hafa ekkert með illsku að gera heldur erum við einfaldlega víruð á þennan máta.

Þig gæti vantað styrkinn, kraftinn, eftirfylgni, trú, von, verkfæri eða stuðning til að láta það sem kallar á þig verða að veruleika. En þetta er allt í boði ef þú biður um það, þú þarft ekki að finna út úr þessu einn eða ein. Það eru til reynslumiklir fjallaleiðsögumenn sem eru tilbúnir að kenna þér á áttavitann þinn. Fjallið virkar ósigrandi ef þú hefur aldrei gengið upp á það en þú kemst þangað, eitt skref í einu. Því eins og ég segi þá skilar lítil breyting miklum árangri. Og það er allt æfing. Að spila á gítar er æfing, líka að stíga út fyrir þægindarammann. Ég get ekki sagt þetta nógu oft. 

Oftast er þörf fyrir breytingar á einhverju mjög afmörkuðu sviði. Eins og að stilla af ákveðið viðhorf, sleppa gömlum hugmyndum um sjálfan sig og aðra eða leiðrétta úreltan samskiptamáta, sem kemur í veg fyrir að þú sjáir tækifærin sem bíða þín. Í upphafi eru markþegarnir mínir oft logandi hræddir við einföld verkefni sem þeir hafa ekki gert áður. Þeir eru nefnilega ekki búnir að æfa sig. Það sem virkaði óyfirstíganlegt í upphafi er orðið lítið mál eftir smá æfingu.

Hver svo sem ástæðan er fyrir því að þú hefur ekki tekið þetta skref þá veit ég að það er hægt. Kannski ertu ekki tilbúin að horfast í augu við áttavitann, þorir því ekki, kannt ekki á hann, ert hreinlega búin að gefast upp eða bara veist ekki hvernig í ósköpunum þú átt að komast upp á þetta blessaða fjalli. Eitt veit ég fyrir víst, að það er alltaf betra að vera með rétt kort af leiðinni í Þórsmörk og að vera viss um kompásinn þinn virki svo þú endir ekki á Selfossi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál