Kærastinn vill frekar verja jólunum með mömmu sinni

Það getur farið í virði fólks ef sambandið er ekki …
Það getur farið í virði fólks ef sambandið er ekki sett ofarlega í forgangsröðina. mbl.is/Colourbox

El­ín­rós Lín­dal ráðgjafi svar­ar spurn­ing­um les­enda Smart­lands. Hér fær hún spurn­ingu frá konu sem er að velta fyrir sér forgangsröðun kærastans. 

Hæ.

Kærastinn minn segir að honum finnist hann ekki nógu þroskaður til þess að eyða jólunum með mér, hann vill frekar eyða þeim með fjölskyldunni sinni. Við erum búin að vera saman í 2 ár og hann segir núna að hann viti að honum muni líða svona eftir hálft ár. Er þetta ekki ákvörðun frekar en að honum líði svona þar sem að hann segist vita núna að honum muni líða svona um jólin? Þetta særir mig mjög mikið að hann vill eyða jólunum með fjölskyldunni sinni en ekki mér. Hvað á ég að gera? Á ég bara að bíða eftir að honum finnist hann nógu þroskaður til að eyða jólunum með mér? Að velja mig fram yfir fjölskyldu sína?

Kveðja, B

Elínrós Líndal, einstaklings- og fjölskylduráðgjafi.
Elínrós Líndal, einstaklings- og fjölskylduráðgjafi. mbl.is/Tinna Magg

Sælar og takk fyrir spurninguna.

Þegar ég les spurninguna þína þá sé ég ákveðna meðvirkni, hlutverkarugling og gaslýsingu. Eins sé ég að það er ekki verið að bera virðingu fyrir tilfinningunum þínum. Ég ætla að útskýra út frá hverju ég dreg þessa ályktun. 

Íslenskur raunveruleiki er þannig að einstaklingur verður fullorðinn þegar hann er átján ára að aldri. Það er bundið í lög og réttur allra að fá að taka ábyrgð á sér á þessu lífsskeiði. Þá getur einstaklingur notað þau verkfæri og aðferðir sem honum hefur verið kennt sem barni og unglingi í að sjá um sig. Ég er alveg hlynnt því að fullorðinn einstaklingur haldi áfram að búa hjá foreldrum sínum eftir átján ára aldur en að það sé komið fram við hann af virðingu og að hann sýni virðingu á móti.

Þegar maður er fullorðinn þá sér maður um sinn eigin þvott, tekur þátt í því að elda heima og þrífa. Sinnir náminu sínu eða atvinnu og nær tökum á fjármálunum sínum. Safnar jafnvel fyrir íbúð og gerir plön fyrir framtíðina. Það er heilbrigt og eðlilegt að fullorðinn einstaklingur þurfi að fá lánaða dómgreind frá foreldrum sínum eða sérfræðingum út lífið. Enda alltaf hægt að gera gott betra og enginn er fullkominn. 

Við 25 ára aldurinn ætti fólk þó að koma sér að heiman vilji það halda í gott andlegt heilbrigði bæði fyrir sig og foreldra sína. 

Þegar fullorðinn einstaklingur fer í samband þá er alveg eðlilegt að hann taki sér góðan tíma í að kynnast kærustunni/kærastanum. Ég er í raun á því að það taki allt að fjórar árstíðir að skilja og kynnast öðru fólki. En eftir þetta fyrsta ár þá ætti sambandið að vera í stöðugri uppbyggingu ef það er heilbrigt. Það þarf að gera samninga og halda sig við þá. Það er fínt að skoða sambandið reglulega á fyrstu árum þess en þegar hlutir eru farnir að ganga vel þá má setjast niður kannski einu sinni á ári og fara yfir hvað mætti gera betur. 

Um leið og einstaklingur fer í heilbrigt samband þá á aldrei að vera togstreita á milli þeirrar einingar og fjölskyldueiningarinnar. Því kærastan/kærastinn fer inn í fjölskylduna. Kærastinn/kærastan fer einnig inn í vinahópana að hluta til og af þessum sökum er alltaf talað um að ástarsamband sé góð viðbót við lífið. En að sjálfsögðu ekki lífið sjálft. 

Þú verður tengdadóttir og hann verður tengdasonur. Þið ráðið inni í ykkar einingu og annað fólk hvað sem það heitir á ekki að hafa skoðanir á því sem þið eruð að gera. Það er meðvirkni og skakkt. Það er enginn í fullkomnu sambandi og alltaf hægt að bæta hlutina en það er góð raunveruleikatenging að fara svona ofan í grunninn þegar maður lendir í vanda með samskipti líkt og þú talar um í spurningunni þinni. 

Þegar kærustuparið fer svo í boð eða er að halda upp á stórhátíðir eru þau ein eining sem fer inn í aðrar einingar. Eða bjóða öðrum einingum til sín.

Þegar jól koma þá er alveg eðlilegt að mínu mati á fyrstu mánuðum sambands að fólk haldi í þær hefðir sem það hefur haft en eftir eitt ár ætti sambandið ef það er byggt á heilbrigði að fela í sér að einstaklingar eru saman á jólunum. 

Það þarf því ekki þroska til að vera með kærustunni sinni á jólunum – það þarf að taka ákvörðun um hver er manni nánastur. Er það kærastan eða foreldrarnir? 

Í heilbrigðum samböndum verður ákveðin uppbygging og mig grunar að það hefur ekki orðið á tveimur árum hjá ykkur. Svo það er alveg eðlilegt að þú sért að velta þessu fyrir þér. 

Það er sem er og aldrei hægt að breyta öðru fólki en þú getur sett heilbrigð mörk og fundið innra með þér hvað þig langar í lífinu. Það heitir að elska sjálfan sig aðeins meira en annað fólk og er eina er eina leiðin til að eiga í góðum samskiptum við aðra. 

Ef þig langar að gifta þig, eignast börn, kaupa hús, bíl og fleira þá þykir það ekki mikill lúxus að biðja um í dag heldur meira bara svona þetta venjulega sem fólk gerir almennt. 

Þessi uppbygging á sér vanalega stað eftir eitt til tvö ár í sambandi eftir 20 ára aldurinn. 

Eitruð sambönd (e. toxic) eru lokuð sambönd. Það eru sambönd sem eru andstæðan við það sem ég hef fjallað um hér að ofan. Þar er fólk á byrjunarreit (fyrstu þrír til sex mánuðir sambands) í allt að þrjú ár – þá springur vanalega sambandið. Það deilir ekki áhugamálum, fer sjaldnast í að trúlofast eða gifta sig. Það kynnist ekki vinum eða fjölskyldum hvort annars og gerir ekki samninga um sambandið. 

Ég get skipt vanda í nánum samskiptum í tvo flokka. Þar sem er verulega mikill vandi, mikil áföll á kynferðissvæðinu og tengslaröskun í æsku. Í þannig samböndum nær fólk aldrei að byggja upp eðlilegt líf saman. Það er meira svona eins og samskipti Péturs Pan og Vöndu. Annar vill leika sér og hinn vill ala upp barnið sem er vanalega orðið fullorðið sem býr til mikla meðvirkni og stjórnsemi. 

Svo er það hinn hópurinn sem virkar mjög eðlilegur í nánum samskiptum. Fer í uppbyggingu og gerir allt þetta venjulega nema hvað að lífið er hólfað í nokkur hólf. Annar aðilinn eða báðir eiga sér þá vanalega leynilegt líf sem upp kemst um eftir mörg ár eða áratugi. Í svona samböndum er vanalega annar aðilinn með vanda. Ef báðir eru með vanda þá getur mynstrið verið þannig að einstaklingar skiptast á að brjóta sambandssamninginn. 

Ef þú vilt svo vera sanngjörn í samskiptum þá myndi ég forðast að fara í ásakanda, fórnarlamb eða bjargvætt í sambandinu þínu. Bara vera diplómatísk og heiðarleg og spyrja þig: Kærasti minn hefur allan rétt á því að velja að vera með fjölskyldunni á jólunum og ekki hafa mig með. En af hverju ætli ég velji mér að vera með þannig manni?

Það er spurning sem þú getur leitað svara við hjá góðum sérfræðingi. Prófaðu einnig að skrifa niður langanir og þrár og það samband sem þig langar að vera í. Út frá því getur þú svo valið réttan aðila fyrir þig að fara í samband með. 

Gangi þér alltaf sem best og ég vona að jólin þín verði æðisleg. En eins og þú veist verða jólin á þinni ábyrgð. Ég þori að staðhæfa að það sé fullt af mönnum þarna úti sem myndu vilja verja jólunum með þér í náinni framtíð. 

Áfram þú!

Kær kveðja, Elínrós Líndal. 

Ligg­ur þér eitt­hvað á hjarta? Þú get­ur sent El­ín­rós spurn­ingu HÉR

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál