Sá í fréttum að móðir hans hafði verið myrt

mbl.is/Kristinn Magnússon

Gylfi Þór Þorsteinsson hefur varla farið úr rauðu flíspeysunni allt síðasta ár þar sem hann hefur staðið vaktina í farsóttarhúsinu nánast allan sólarhringinn. Gylfi hefur ýmsa fjöruna sopið í einkalífi og starfi. Þegar hann var 26 ára var móðir hans myrt á bóndabæ norður í landi. Eftir þá lífsreynslu fór hann að hjálpa fólki að komast í gegnum sín áföll sem leiddi hann í starfið sem hann sinnir í dag. Sjálf kynntist ég honum þegar ég réð mig til starfa hjá Árvakri til að búa til lífsstílsvef fyrir mbl.is sem síðar fékk nafnið Smartland. Þá var hann framkvæmdastjóri mbl.is. 

Gylfi hefur staðið vaktina í farsóttarhúsinu frá því veiran fór …
Gylfi hefur staðið vaktina í farsóttarhúsinu frá því veiran fór að gera landsmönnum lífið leitt.
Á fyrsta fundi okkar Gylfa fyrir rúmlega áratug hnaut ég um hvað hann var lífsglaður, jákvæður og hress. Þegar við kynntumst betur átti ég eftir að komast að því að það var ástæða fyrir viðhorfi hans til lífsins. Harmurinn hafði knúið dyra í lífi hans þegar hann var 26 ára gamall.

„1996 er móðir mín myrt af bróður sínum og það var eitthvað sem maður býst aldrei við að lenda í. Að einhver sé tekinn frá manni svona snemma. Það er rosalega erfitt að viðurkenna þann möguleika að þetta geti yfir höfuð gerst,“ segir Gylfi þar sem við sitjum á mannlausum bar á farsóttarhótelinu sem hefur verið hans annað heimili síðasta eina og hálfa árið eða síðan veiran fór að geisa í samfélaginu.

Þegar hann og faðir hans fengu upplýsingar um að móðir hans væri látin vissu þeir ekki að um morð væri að ræða. Móðir hans hafði gert sér ferð norður í land til að heimsækja bróður sinn til að gera upp erfið mál eftir andlát ömmu Gylfa.

„Mamma var asmaveik og við feðgarnir vorum eiginlega vissir um að asminn hefði dregið hana til dauða. Daginn eftir að við fréttum af andlátinu förum við til Akureyrar, en hún hafði verið að heimsækja bróður sinn sem framdi verknaðinn. Þegar við lentum þar beið lögreglan eftir okkur þar sem þetta hafði verið andlát í heimahúsi. Við förum upp á lögreglustöð og ég fór í stutta yfirheyrslu hjá lögreglunni en pabbi var þarna í fleiri fleiri klukkutíma. Ég beið eftir honum frammi og vissi ekkert hvað var að gerast. Á lögreglustöðinni mættum við bróður mömmu, morðingja hennar, og gengum eiginlega í fangið á honum. Hann vottaði okkur samúð sína og við sögðum sömuleiðis enda vissum við ekkert hvað hafði raunverulega gerst á þessum tímapunkti. Þegar pabbi losnaði úr yfirheyrslunni hjá lögreglunni fórum við upp á hótel og kveiktum á sjónvarpinu. Þar var fyrsta frétt að morð hefði verið framið á þessum bæ og mynd af bænum. Þannig fréttum við að hún hefði verið myrt,“ segir Gylfi.

Þegar ég spyr Gylfa hvernig þeir feðgar hafi brugðist við segir hann að það hafi verið mikið áfall að fá þessar fréttir og líka að fá þær með þessum hætti.

„Ég man að við litum á hvor annan og sögðum eiginlega ekki mikið. Allt í einu heyrum við í sírenu og stuttu síðar var löggan mætt á hótelið. Hún bað okkur afsökunar á því að þetta hafi lekið í fréttir. Okkar fyrstu viðbrögð voru að við vildum fá að sjá hana strax. Ég hef séð lík, bæði fyrir þennan tíma og eftir, en þetta var sjón sem ég mun aldrei gleyma. Ekki bara var þetta mamma mín sem lá þarna, en þarna sást að andlátið hafði ekki boriðað með eðlilegum hætti,“ segir hann.

Var hún með áverka?

„Áverkarnir voru sýnilegir okkur. Þá varð þetta raunverulegra. Svo tóku við réttarhöld bæði fyrir héraði og Hæstarétti í málinu. Hann fékk nú ekki langan dóm fyrir þetta. Ég held að hann hafi setið inni í sex ár,“ segir Gylfi.

Gylfi Þór Þorsteinsson prýðir forsíðu Smartlandsblaðsins sem kom út í …
Gylfi Þór Þorsteinsson prýðir forsíðu Smartlandsblaðsins sem kom út í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Skrifaði upp á lán

Við ræðum um aðdraganda morðsins og í ljós kemur að móðurbróðir Gylfa og banamaður móður hans hafði fest kaup á jörðinni en móðir hans og amma tóku lán fyrir hann því hann var gjaldþrota.

„Til að byrja með borgaði hann af láninu og stóð í skilum. Mánuði áður en mamma fór norður deyr amma. Þar af leiðandi féll lánið á mömmu og pabba. Þess vegna fór mamma norður til að fá bróður sinn til að undirrita pappíra svo mamma og pabbi gætu tekið veð í jörðinni fyrir því láni. Undir þessa pappíra var aldrei skrifað. Lánið féll svo á pabba og með réttu eða röngu ákváðum við feðgarnir að ég tæki hluta af láninu á mig. Í hruninu og árin eftir hrun var þetta orðinn svo þungur biti að ég missti húsið. Þetta lán gerði föður minn eignalausan og sjálfan mig líka,“ segir Gylfi og heldur áfram:

„Um svipað leyti og móðurbróðir minn losnar úr fangelsi byrjar hann að hóta mér og börnunum mínum lífláti því hann stóð í þeirri trú að ég hefði stolið frá honum myndaalbúmi sem enginn fótur var fyrir. Svo missi ég vinnuna og hjónabandið fer í vaskinn. Ég var á þeim stað í tilverunni að öll sund virtust lokuð,“ segir Gylfi.

mbl.is/Kristinn Magnússon

Ekki eitt heldur allt

Þá er ekki allt upptalið. Stuttu síðar deyr faðir hans, föðursystur hans og amma hans og svo deyja hundarnir hans þrír. Gylfi segir að það hafi verið erfitt að fóta sig í tilverunni á þessum tíma.

„Það sem hjálpaði mér mikið á þessum tíma var að börnin voru mikið hjá mér og ég þurfti að halda áfram þeirra vegna en einnig sjálfs mín vegna. Ég hef alltaf notað húmor. Ég hef alltaf notað gleðina því það á að vera gaman að vera til. Þegar eitthvað dapurlegt gerist verður maður að leggja sig fram um að hafa gaman. Maður þarf að finna það jákvæða og leyfa sér að brosa því það bætir og kætir,“ segir Gylfi. Stuttu síðar fékk hann vinnu á bílaleigu og náði smám saman að rétta úr kútnum.

mbl.is/Kristinn Magnússon

Lærði að hjálpa fólki

Stuttu eftir andlát móður hans 1996 rakst Gylfi á auglýsingu í Morgunblaðinu þar sem Rauði krossinn var að auglýsa eftir fólki í viðbragðshóp. Gylfi sótti um, lærði áfallahjálp og er búinn að hlúa að öðrum síðan hann upplifði sinn harm í fyrsta skipti.

„Þessi vinna kom mér í þá vinnu sem ég er í í dag, að reka þetta farsóttarhús sem ég er búinn að vera vakinn og sofinn yfir í meira en ár. Það að mamma hafi verið myrt og öll sú sorg í kringum það kom mér í rauninni hingað. Það er mömmu að þakka að ég er hér. Ég vissi ekkert hvers vegna ég fór að læra þessa sálrænu skyndihjálp. Ég er hérna í dag vegna þess hvernig fór fyrir henni,“ segir hann og það færist meiri hlýleiki í röddina.

Oft er sagt að það séu misjafnar leiðir til guðs og fólk leiti ólíkra leiða til að komast í gegnum harminn. Þegar ég spyr Gylfa hvernig hann hafi komið standandi út úr því að missa mömmu sína með þessum sorglega hætti segist hann hafa upplifað allar tilfinningar heimsins.

„Ég upplifði lamandi ástand. Tíminn stóð í stað en fór líka fram hjá á þúsund kílómetra hraða. Ég tók mér nokkurra daga frí frá vinnu, ég var að vinna á Viðskiptablaðinu á þessum tíma. Ég man að mér fannst erfiðast þegar fólk fór að votta mér samúð sína. Þá komst það alveg inn að beini og ég þurfti að viðurkenna fyrir mér og fleirum að þetta hefði gerst. Þá ósjálfrátt fór maður að leita í haldreipi sem var þá húmorinn. Stuttu eftir að mamma lést fylltist heimilið af blómum og mér fannst það mjög niðurdrepandi,“ segir hann.

Var þetta eins og að ganga inn í blómahelvíti?

„Já, fólk meinar vel en þegar þú ert kominn í hundruð blómvanda þá verður þetta niðurdrepandi. Einn daginn fór ég til dyra þegar enn ein blómasendingin kom. Mamma var í alls konar félagsstarfi og allir voru að sýna hlýhug með því að senda blóm. Nágranni minn var úti að bóna bílinn sinn þegar enn einn sendillinn kom. Þegar hann er farinn segir nágranninn eitthvað á þá leið, „Ég veit ekki alveg hvað er í gangi, en til hamingju vinur.“ Þetta var svo óvænt, en allt annað en allir voru að segja við mig þannig að ég gat ekki annað en sprungið úr hlátri. Ég sagði honum ekkert hvað væri að gerast. Þetta var meðal sem ég fékk með hlátrinum, það var eins og meðal. Ég sagði þáverandi konunni minni hvað hefði gerst og var enn þá í hláturskasti og ég skammast mín fyrir það. Þá segir hún við mig: „Veistu, þótt mamma þín hafi dáið þá dó hláturinn ekki með henni,“ segir Gylfi og rifjar upp hvað þetta atvik hafi hresst hann mikið við og gefið honum spark í rassinn.

„Mamma var mikill grínari og hafði gaman að því að hafa gaman og hún hló mikið. Hláturinn má ekki deyja með þeim sem fer. Með góðum minningum lifa þær lengst. Við munum það góða og við munum það skemmtilega. Hvort viðkomandi tók til í herberginu sínu eða ekki skiptir engu máli heldur gleðin. Þetta er það sem lifir miklu frekar.“

mbl.is/Kristinn Magnússon

Hefur þú haft einhvern tíma til að hafa gaman síðasta árið?

„Já, ég hef haft gaman allt síðasta ár. Ég hef alltaf lagt mikla áherslu á það sem stjórnandi að það þurfi að vera skemmtilegt á vinnustaðnum án þess að vera að meiða að sjálfsögðu. Til að létta okkur lífið.

Við erum að kljást við mjög veikt fólk hérna. Við höfum verið með fólk hérna sem hefur misst maka sinn vegna Covid og þurft að vera í einangrun hjá okkur í tvær vikur á eftir og þarf mikla huggun. Við verðum að geta létt á okkur þegar við erum innan um samstarfsfólk okkar svo við drögumst ekki niður í sorgina líka. Síminn minn hringir allan sólarhringinn og ég losa um spennu með því að hlæja. Þess á milli fer ég upp í hesthús og moka skít,“ segir hann.

Fyrstu þrjá mánuðina í farsóttarhúsinu bjó Gylfi bókstaflega á hótelinu og eftir að veiran fór á fullt skrið í júní hefur hann tekið tvær fríhelgar.

„Ég fer „all in“ í verkefni en við erum alltaf að vonast til þess að þessu verkefni sé að ljúka. Þessi vinna er mjög gefandi og ég fæ mikið út úr því að tala við fólk og hjálpa því.“

Er það tilgangur lífsins?

„Tilgangur lífsins er ekki að vinna of mikið heldur að láta þér og þínum líða vel. Hamingja og vellíðan er ekki keypt. Hún er búin til af okkur sjálfum. Ég á til dæmis ekkert. Ég missti allt þegar ég varð gjaldþrota. Ég leigi og stend í skilum. Það er hollt og gott. Allt sem ég á, á ég sannarlega og mér líður vel. Ég hitti vini mína, börnin mín og ég hef gaman að því að vera til. Það er ofboðslega gaman að vera ég. Þú ættir að prófa það,“ segir hann og hlær.

mbl.is/Kristinn Magnússon
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál