Áslaug seldi sig því námslánin dugðu ekki

Áslaug Júlíusdóttir ásamt Tinnu Guðrúnu og Hlyni Kristni Rúnarssyni sem …
Áslaug Júlíusdóttir ásamt Tinnu Guðrúnu og Hlyni Kristni Rúnarssyni sem eru með hlaðvarpið, Það er von.

Áslaug Júlíusdóttir er nýjasti viðmælandi hlaðvarpsins Það er von. Áslaug er 28 ára stelpa í bata frá fíknsjúkdómi auk þess að vera aðstandandi. Áslaug segir að lífið hafi breyst á unglingsaldri þegar eldri bróðir hennar byrjaði í neyslu.

„Mér fannst ég þurfa að bjarga honum og bjarga fjölskyldunni en ég vissi í raun ekki neitt,“ segir Áslaug. 

Hún talar um baráttuna sem fylgdi því að vera aðstandandi og vilja bjarga öllum, taka utan um foreldra sína og hjálpa bróður sínum út úr heimi fíkniefna.

„Ég ætlaði alltaf að vera edrú, stoltið mitt var þannig, ætlaði að bjarga, taka utan um fjölskylduna mína og vera hetja en varð svo mjög veik í meðvirkni.“

Á þessum tíma var Áslaug aðeins unglingur og leitaði viðurkenningar hjá mönnum í undirheimunum. Hún rifjar upp atvik þar sem hún var 18 ára, kasólétt, komin með glerflösku í hönd til þess að bjarga stóra bróður sínum eftir að ráðist var á hann og hann hafði leitað til hennar um miðja nótt.

„Ég fékk nóg, fannst heimurinn ógeðslegur, var ekki í neyslu en ruglið var samt nóg.“

Eftir að hafa reynt sjálfsvíg eignaðist Áslaug heilbrigt barn og tók sig á, eins og hún orðar það. Hún kláraði nám og var það hennar stolt. 26 ára gömul flytur Áslaug með son sinn til Flórída og fer í nám í félagsráðgjöf, þar hefst hennar neyslusaga. Námslánin dugðu ekki til að ná endum saman, einn daginn fór hún í sundlaugarpartí og þar gefur maður sig á tal við hana.

„Tveimur vikum seinna byrja ég að vinna sem „escort“ og fer bara út í vændi og því fylgdi mikil neysla. Þótt það væru flottir íþróttamenn, á snekkju eða geggjuðu húsi með Ferrari í bílskúrnum og miklir peningar þá er þetta viðbjóður, maður er að taka sálina sina.“

Áslaug segir frá því hvernig heimur vændiskonu í hennar tilfelli var. Hún var með „pimp“ og lýsir því hvernig hún þurfti að senda skilaboð með kóða og var með lífverði. Í þessum raunveruleika sem Áslaug lifði í þurfti hún að flýja í hugbreytandi efni til að deyfa tilfinningarnar sem fylgdu vinnunni sem vændiskona.

„Ég var að deita lögreglumann á þessum tíma og ætlunin var að komast út úr þessu. Ég mætti í skólann, sótti strákinn, fór á fótboltaæfingar og svo var ég hóra,“ segir Áslaug.

Einn daginn lenti Áslaug í stóru áfalli.

„Ég var tekin af einhverjum og haldið í einhvern tíma, sprautuð, misnotuð og hent svo út á götu. Þar er ég handtekin og sett í fangelsi.“

Það tekur mjög á hana að segja frá þessu áfalli og því sem undan var gengið, eins og gefur að skilja. Áslaug segir frá því að eftir að heim til Íslands var komið hafi hún upplifað mikið mótlæti og þolendaskömm.

„Á þessum tímapunkti hefði þurft að taka utan um mig í stað þess að dæma mig.“

Umræðan fer út í #metoo-byltinguna og að hún hafi alltaf tekið ákvörðun í hvert skipti sem hún fór í vinnuna en hafi ekki gert sér neina grein fyrir því hvaða afleiðingar það myndi hafa.

„Ástæðan fyrir því að ég er að segja sögu mína núna er að ég get séð, eins og Guð gerir, það er hægt að taka ösku og gera að gulli. Ég hef ekki svona mikla þjáningaþörf. Maður sér svo marga sem geta ekki haldið áfram og fyrirgefið sér.“

Draumur Áslaugar er að halda áfram að byggja upp fólk, gefa af sér og vinna í að minnka þolendaskömm. Áslaug er frábær fyrirmynd sem segir hlutina eins og þeir eru, tjáir sig um Onlyfans og margt fleira í þessum magnaða þætti.

Hægt er að hlusta á þáttinn í heild sinni á hlaðvarpsvef mbl.is. 

mbl.is