„Mér finnst hann ekki verðskulda þessa velgengi í ellinni“

Að finna fyrir mikilli gremju gagnvart fjölskyldumeðlim getur verið áhugavert …
Að finna fyrir mikilli gremju gagnvart fjölskyldumeðlim getur verið áhugavert að skoða nánar. mbl.is/Colourbox

El­ín­rós Lín­dal ráðgjafi svar­ar spurn­ing­um les­enda Smart­lands. Hér fær hún spurn­ingu frá konu sem er að upplifa mikla gremju gagnvart bróður sínum sem virðist vera búinn að finna sér konu til að sjá um sig. 

Sælar. 

Ég er vön að samgleðjast fólki þegar vel gengur í lífi þess og ég er sátt við mitt líf, maka og börn og þeirra veraldlegu gæða sem ég nýt. Ég hef ekki fundið fyrir öfund í garð fólks þar til nú.  Ég er yngst í stórum systkinahópi. Elstur er áttræður bróðir sem alltaf var dekraður af foreldrum okkar og komst upp með svo margt misjafnt eins og að svíkja fé út úr flestum í fjölskyldunni. Hvað sem hann gerir af sér þá þarf hann aldrei að afsaka neitt eða bæta fyrir brot sín!!                                                                                                                             

Nú býr hann með 30 árum yngri konu!! Hann er lítið fyrir mann að sjá og á ekki bót fyrir rassinum á sér! Bjó í kjallaraherbergi. En nú nýtur hann þess að búa með henni í flottu einbýlishúsinu hennar og hefur afnot af sumarbústað hennar. Mér finnst hann ekki verðskulda þessa velgengi í ellinni og er æf af reiði, líklega öfundsjúk, en hann er alltaf með pálmann í höndunum!! Hjálpaðu mér plís að losna við reiðina og öfundsýkina.

Kveðja, BJ

Elínrós Líndal einstaklings- og fjölskylduráðgjafi.
Elínrós Líndal einstaklings- og fjölskylduráðgjafi. mbl.is/Tinna Magg

Sælar. 

Er ekki bara alveg eðlilegt að reiði og allskonar tilfinningar séu að koma upp hjá þér? Ég held það sé alveg þess virði að skoða það nánar. Þó ég myndi kannski ekki tala um velgengni í ellinni að finna sér yngri konu að sjá um sig. En við látum það liggja á milli hluta. 

Það hljómar eins og þú sért föst í lítilli stelpu. Stóra fullorðna þú veist að það fer enginn í gegnum lífið án þess að læra að taka ábyrgð á sér og að það stendur enginn með pálmann í höndunum þó hann sé búinn að finna sér konu til að búa hjá tímabundið. Jafnvel þó hún eigi sumarbústað og allt það.

Það hefur ekkert með virði þitt að gera hvernig honum gengur eða gengur ekki í lífinu. Þegar við erum örugg með okkar virði þá förum við ekki í keppni við annað fólk. Mennskan er það sem sameinar okkur og lífið er í raun og veru allskonar. Þó við keppumst um að tala um hvað gengur vel hjá okkur á sem dæmi samfélagsmiðlum. 

Það gæti verið að þú þurfir að skoða æskuna þína aðeins betur og skoða hvað hefur farið yfir mörkin þín þar. Þegar við höfum náð átján ára aldri þá erum við ekki lengur litla barnið í fjölskyldunni. Miðjubarnið þarf ekki lengur að vera týnt og elsta barnið þarf heldur ekki að ráða lengur. Í raun eru allir jafnir og virði allra jafnmikið. 

Það gæti verið hollt fyrir þig að minnka samskipti við alla þá sem hafa neikvæð áhrif á tilfinningar þínar tímabundið. Við erum ekki skuldbundin til að umgangast fjölskyldumeðlimi sem koma illa fram við okkur. En ef þú ert að finna fyrir svona mikill reiði í hans garð, þá tel ég líklegast að eitthvað hafi gerst sem þú gætir þurft að skoða með sérfræðingi nánar. Tilfinningar okkar eru vanalega mjög góður mælikvarði á áföllin okkar í æsku og ef maður er ekki frjáls gagnvart kjarnafjölskyldunni sinni og fer í mikinn dómara eða fórnarlamb, svart/hvíta hugsun og eða bjargvætt, þá er það góður þráður að taka upp og rekja í eitthvað sem hefur farið úrskeiðis sem nauðsynlegt er að binda um, skoða og skilja betur. 

Ég mæli með EMDR ráðgjöf, góðum sálfræðingi sem getur farið djúpt ofan í fjölskyldusöguna þína og áfallasérfræðingi sem notar líkamleg einkenni sem þú ert að fá og aðstoðar þig við að rekja þau til áfalla í æska. Sérfræðingur á sviði meðvirkni og samskipta getur einnig gert kraftaverk sem og allskonar samtöl við skynsama einstaklinga sem þora að lána þér dómgreind á hvað þeir eru að heyra þegar þú talar um bróður þinn. 

Hamingjan býr inn í þér en ekki í öðru fólki. 

Þegar þú hefur náð að fara í gegnum söguna þína er gott að skoða samninga um sanngjörn samskipti. Það getur verið flókið að sýna fólki sem hefur ítrekað farið yfir mörkin þín jákvætt viðmót, en ef þú getur ekki gert það er áhugavert að skoða: Af hverju er ég í samskipti við svona fólk? Er eitthvað sem ég get gert til að lágmarka það að setja athygli á hvað hann er að gera?

Hver er sinnar gæfusmiður - hver veit nema að þú finnir leið til að umgangast fjölskylduna þína þannig að það meiði þig minna en það hefur gert hingað til. 

Kveðja, Elínrós Líndal. 

Ligg­ur þér eitt­hvað á hjarta? Þú get­ur sent El­ín­rós spurn­ingu HÉR

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál