„Ég veit að hún lýgur til um ofbeldið“

Það getur verið hollt að setja ákveðna hegðun í fráhald …
Það getur verið hollt að setja ákveðna hegðun í fráhald tímabundið ef hún er að búa til mikla vanlíðan hjá fólki. mbl.is/Colourbox

El­ín­rós Lín­dal ráðgjafi svar­ar spurn­ing­um les­enda Smart­lands. Hér fær hún spurn­ingu frá konu sem er að velta fyr­ir sér hvað hún geti gert til að lágmarka skaða konu sem hún telur ver að ljúga til um kynferðisofbeldi. 

Sæl Elínrós. 

Ég bý í litlu bæjarfélagi, þar sem allir þekkja alla. Hér býr kona sem ég þekki ágætlega vel.  Hún hefur í mörg ár logið til upp á barnsföður sinn sem hún skildi við fyrir mörgum árum. Ég hef jafnframt hlustað á hana segja frá kynferðisofbeldi sem hún hefur því miður lent í. Ég hef alltaf vorkennt henni fyrir að hafa búið við svona mikið ofbeldi frá barnsföður sínum og tekið undir með mörgum hve dugleg og mögnuð hún sé að koma sér burt frá honum og unnið sig frá hörðu ofbeldi í lífinu.

Í dag er ég í óþægilegri stöðu. Ég veit að hún lýgur. Hún bjó aldrei við ofbeldi af hálfu barnsföður síns og þessir „aðrir menn“ sem beittu hana kynferðislegu ofbeldi eru ekki til. Hún heldur þessu fram í máli og skrifar um þetta á netinu gagn gert til að fá meðaumkun og viðbrögð frá fullt af fólki.

Ég get ekki setið undir þessu lengur en er ekki nógu sterk til að fá hana ofan af þessu þar sem ég veit að hún mun þá búa til óhróður um mig. 

Þarna úti eru fullt af konum og körlum sem búið hafa við ofbeldi og þurfa virkilega á hjálp að halda.  En það er því miður líka til fólk sem lýgur upp á aðra og því miður komið í vítahring og áttar sig ekki á hvað það hefur sagt og logið um.  Hvað er hægt að gera því þetta gengur ekki svona lengur.

Í ljósi sögunnar vil ég ekki koma undir nafni.

Kveðja, K

Elínrós Líndal einstaklings- og fjölskylduráðgjafi.
Elínrós Líndal einstaklings- og fjölskylduráðgjafi. mbl.is/Tinna Magg

Sælar og takk fyrir að senda inn erindið. 

Ég hef verið mjög ánægð með allar þær byltingar sem hafa orðið - þar sem við færumst nær því að skilja hvað raunverulega er í gangi í samfélaginu okkar og hvað gæti verið gott að skoða og gera betur tengt því. #MeToo byltingin nýverið og þær byltingar sem hafa orðið á undanförnum árum - þökk sé hugrekki og dugnaði sjálfra brotaþolanna sem vildu ekki lengur bera skömm og ábyrgð - hafa gert umræðuna mun brotaþolavænni. 

Sanngjörn samskipti er mjög vandrataður vegur og það að læra að taka ábyrgð á sér og leyfa öðrum að lifa og gera hið sama. 

Rannsóknir sýna að langflestar konur sem greina frá ofbeldi segja satt. Tölurnar eru aðeins á reiki en það sem ég miða við er að 98% kvenna segja satt - 2% virðast segja ósatt. Þar sem er reykur þar er vanalega eldur. Konur ættu ekki að verða að brunarústum eftir sambönd ef þau eru eðlileg. Það sama má segja um karla. 

Þú getur fundið nokkrar útskýringar á því af hverju einstaklingur myndi ljúga til um það sem þú nefnir í bréfinu þínu. Flestar þessar kenningar styðja þá hugmynd að einstaklingur sem lýgur til um alvarlega hluti eigi við vanda að stríða. 

Ég held það sé mikil einföldun að mála þessa konu upp sem alveg góða eða alveg vonda. Eins held ég að það sé ekki raunhæft að ætla sér að geta vitað allt um annað fólk. Það að þekkja sjálfan sig og þær tilfinningar sem eru að koma upp hverju sinni getur verið mikil vinna og stundum fínt að halda athyglinni þar. 

Mennskan er það sem sameinar okkur og ég hef hingað til ekki hitt fullkomna manneskju sem segir alltaf satt. Ég hef heldur ekki hitt einstakling sem lýgur til um allt. Í raun hafa þeir einstaklingar sem ég vinn með sem eru færir að ljúga ákveðið vald á því að eiga sér nokkur líf. Það er hægt að verða mjög fær í að vera sem dæmi fjölskyldufaðir sem mætir heim á hverjum degi. Sækir börnin sín í skólann, fer í te til mömmu sinnar á kvöldin en gerir svo hluti á vinnutímanum sínum sem er algjörlega á skjön við þann einstakling sem hann er í kringum fjölskylduna sína. 

Er þessi einstaklingur hræðilegur maður? Það fer eftir því hvern þú spyrð. Ef hann er að fá útrás á kynferðissviðinu og upp kemst um hann þá gæti maki hans fundist það sem hann gerir hræðilegt. En hann er fær um að hólfa niður lífið sitt og hann notar ákveðna réttlætingu og virðist fastur í því. Þegar þú ferð svo ofan í fjölskyldusöguna er auðvelt að sjá hvar þessi færni til að ljúga og hólfa lífið niður myndast. Þau börn sem búa við alkóhólisma foreldra sinna verða sem dæmi mjög færir í því að hólfa niður lífið sitt. Það er enginn tíu ára að fara í skólann og segja að mamma hafi legið á eldhúsgólfinu eftir djamm gærdagsins og pabbi ekki komið heim. Börn á leikskólaaldri eru reyndar mjög fær í hlutverkaleikjum og í gegnum þá geta færir sérfræðingar séð það sem fyrir þeim er haft heima. En það föttum við foreldrar sjaldnast og höldum áfram að sýna misgáfulega hegðun heima og svo stundum öðruvísi hegðun út á við. 

Það þarf góða æfingu í að vera sama manneskjan allsstaðar og ef okkur tekst það til þá myndi ég telja það frekar heilbrigt svo framarlega sem þessi hegðun er skynsöm, fullorðinsleg og eðlileg miðað við samfélagsleg viðmið hverju sinni. 

Að þessu sögðu get ég ekki verið sannfærð um að þú vitir allt um þessa konu eða karlana sem hafa verið í lífinu hennar. 

Ég vona að þú getir notað þennan texta til að setja upp heilbrigð hlustunarmörk gagnvart því sem er sagt við þig þessu máli tengt. Svo mæli ég alltaf með því fyrir einstaklinga að skoða að setja ákveðna hegðun og jafnvel fólk í fráhald. Þú gætir sem dæmi hætt að hugsa um þetta mál tímabundið eða alveg. Dregið þig úr því að finna leið til að stoppa hana. Veröldin gefur okkur reglulega tækifæri á að læra af því sem við gerum. Þegar við gerum góða hluti þá uppskerum við- þegar við gerum slæma hluti þá verða vanalega afleiðingar af því. Ef þú átt mann og börn, góða vini og skemmtilega vinnu, þá gæti þetta mál verið að taka orkuna þína frá því. 

Gangi þér alltaf sem best. 

Kær kveðja, Elínrós Líndal.

Ligg­ur þér eitt­hvað á hjarta? Þú get­ur sent El­ín­rós spurn­ingu HÉR

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál